Vaxtalög
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að þeim sem hafa fylgst með umræðum á vegum ríkisstjórnarinnar og af hálfu stjórnarliða um vaxtamálin undanfarnar vikur og mánuði komi nokkuð á óvart hve þessi frumvörp eru efnislega rýr í roðinu. En ég fagna því, herra forseti, og ég tel að hæstv. viðskrh. hafi náð að hafa vit fyrir félögum sínum í þessum málum og komið í veg fyrir meiri háttar slys eins og vænta hefði mátt ef ýmsir talsmenn stjórnarliðsins og stjórnarliðar, ekki síst í Alþb., hefðu fengið það fram í þessum efnum sem þeir hafa talað um.
    Í þessu frv. til l. um breytingar á hinum tveggja ára gömlu vaxtalögum er efnislega mjög lítið nýtt. Flestar þessar breytingar eru tæknilegs eðlis til þess ætlaðar að skýra hin eldri lög betur og eyða þar óvissu og vafaatriðum og slíkar breytingar eru að sjálfsögðu til bóta. Það á t.d. við um 1. og 2. gr., um 4. og 5. gr. svo að ég nefni þar nokkur dæmi.
    Hins vegar varðandi 3. gr. frv., um upplýsingaskyldu verðbréfafyrirtækja, hjó ég eftir því að ráðherra lét þess getið að þar væri um að ræða upplýsingaskyldu ,,eftir því sem við gæti átt`` eins og hann orðaði það og það tel ég vera mjög mikilvægan fyrirvara að þar sé um að ræða upplýsingaskyldu að breyttu breytanda með tilliti til starfsemi og starfsumhverfis þessara fyrirtækja. Að öðru leyti er ekki hægt að amast við því að á þau sé lögð umrædd upplýsingaskylda.
    En mig langar aðeins, virðulegi forseti, til að víkja að 6. gr. frv. vegna þess að á henni er alvarlegur galli, eins og hæstv. ráðherra vék að og segir vera umbrotsgalla sem það vissulega er. En staðreyndin er sú að 1. mgr. í þessari grein eins og hún er prentuð er nákvæmlega óbreytt upp úr gildandi lögum. Og það er ekki rétt, sem kom fram í máli ráðherra, að þarna sé verið að gera einhverjar breytingar. Eina breytingin sem gerð er samkvæmt þessari grein í frv. er að bæta við því sem er 2. mgr. 6. gr. frv. og á væntanlega að vera síðasti málsl. 1. mgr. Sú viðbót, að hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti skv. 9. gr. laga um Seðlabankann, er hins vegar engin efnisleg breyting á því sem þessi grein snýst um, þ.e. misneytingu, okur eða að færa sér í nyt bágindi annarra, þannig að ég tel að þessi viðbót sé eðlileg, en það er hins vegar ekki gerð rétt grein fyrir henni.
    Það er látið í veðri vaka að þarna séu á ferðinni miklu meiri breytingar en raunin er á. Þetta tel ég, virðulegi forseti, vera ámælisvert og ég tel reyndar að gallinn á þessari grein frv. og ýmsar aðrar gáleysislegar prentvillur sem í frv. eru hljóti að gera það að verkum að frv. verði prentað upp á nýtt áður en lengra er haldið öllum til glöggvunar og skýringar og vænti ég þess að forseti geti beitt sér fyrir því. Mín vegna mætti það hins vegar vera eftir að búið er að vísa því til nefndar þannig að það tefji ekki fyrir málinu.
    Að því er síðan varðar síðustu greinar frv., 7., 8., 9. og 10, er um það að ræða að ríkisstjórnin er að bæta fyrir mistök sem henni urðu á í meðferð mála

rétt fyrir jólin, þ.e. það féllu niður ákvæði um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða, sennilega fyrir mistök, í þeim önnum sem voru í þingstörfum fyrir jól. Þannig að eins og málum er komið í dag ríkir algert vaxtafrelsi hjá opinberum fjárfestingarlánasjóðum. En hvað sem því líður tel ég ekki ástæðu til þess að amast við því að þetta sé fært inn í vaxtalögin og látið tilheyra viðskrn. og viðskrh.
    Hins vegar, virðulegi forseti, fyrst við vorum að ræða áðan 8. mál þingsins um efnahagsaðgerðir, bráðabirgðalögin frá því í haust, þá vakti ráðherra réttilega athygli á því að í frv. er sérstakt ákvæði um að dráttarvextir skuli ætíð reiknast sem dagvextir og þetta er 18. gr. þess frv. Síðan er í frv. sem nú er til umræðu einnig sams konar ákvæði um að dráttarvextir skuli ætíð reiknast sem dagvextir nema á annan veg sé sérstaklega mælt í lögum. Ég tel að það sé rétt mat hjá hæstv. viðskrh. að ákvæði sem þetta eigi heima í vaxtalögum en ekki í því frv. til l. sem var til umræðu fyrr í dag, bráðabirgðalögunum frá því í haust. En til þess að menn séu sjálfum sér samkvæmir á auðvitað að leggja til að það ákvæði í bráðabirgðalögunum falli brott og sé ekki á tveim stöðum í löggjöfinni. Það er tækifæri til þess enn þá úr því að bráðabirgðalögin eru ekki komin lengra á veg hér um þingið en raun ber vitni. Þetta vildi ég benda á og vænti þess að ráðherrann beiti sér fyrir þessu.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, er ekki ástæða til að fjölyrða um þetta frv. Í því eru nokkur atriði sem horfa vissulega til bóta og sem til að mynda lögmenn og dómarar hafa bent á að því er varðar 5. gr. frv. um hina svokölluðu vaxtakröfuþulu sem ráðherra nefndi og um það þarf ekkert að fjölyrða að slíkar breytingar eru réttarbót.
    Hins vegar vildi ég í lokin, virðulegi forseti, ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að það er búið að gera mikið veður út af þessum málum af hálfu stjórnarliðanna og af hálfu ýmissa ráðherra í ríkisstjórninni, en sá veðrahamur birtist ekki í þessu frv. sem er efnislítið og látlaust eftir því
þegar búið er að leiðrétta þær villur sem inn í það hafa slæðst. Ég fagna því sem sé að hér stendur ekki til að gera byltingarkenndar breytingar á vaxtalögunum og ég vænti þess að það sé vegna þess að hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að hann vilji auka og efla samkeppni í bankamálum og fjármagnsmarkaðnum og hagnýta sér kosti hinnar frjálsu samkeppni á því sviði innan ramma eðlilegs samkeppnisumhverfis og eðlilegra reglna sem um þau mál eiga að gilda. Það er nefnilega mikilvægt ef menn hafa þessa skoðun, sem ég dreg ekki í efa að ráðherrann hefur og ég er honum sammála um, að binda ekki þannig um hnútana að það sé ómögulegt að eiga í samkeppni, ómögulegt að keppa í heilbrigðri samkeppni vegna þess að það sé búið að banna aðilum á markaðnum að bjóða eitthvað sem er frábrugðið því sem aðrir geta boðið upp á. Ég fagna því að það er ekki farið inn á slíkar brautir í þessu frv. og ég treysti því að sá skilningur sé réttur, enda kom ekki annað fram í máli

ráðherra.