Lögbókandagerðir
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lögbókandagerðir, en það sem er átt við er það sem oftast er kallað notarialgerðir. Það orð mun vera komið úr lögum um verndun fornmenja frá 1907, en þar er átt við þann embættismann sem einnig hefur verið kallaður notarius publicus.
    Frv. þetta er fylgifrv. með frv. til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði þó að það sé ekki í sjálfu sér algjörlega bundið því. Það var lagt fram á síðasta þingi og er endurflutt hér. Frv. er nýsmíði að því leyti að það hefur vantað almennar reglur um lögbókandagerðir. Þetta kemur skýrt fram í grg. með frv., en lögbókandagerðanna er getið í ýmsum sérákvæðum laga.
    Með frv. eru gerðar tillögur um almennar verklagsreglur um framkvæmd þessara athafna og að mati þeirra sem best þekkja til er um að ræða brýna þörf að bæta úr í þessu efni. Ákvæði frv. eru ítarlega skýrð í grg. og tel ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það hér í framsögu en vil leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.