Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir fjallar um réttlætið eins og svo margt sem hér er borið fram á Alþingi og er ég vissulega þakklátur flm. að bera fram frv. En manni verður stundum hugsað til þess að mikið er hún skrýtin tík, þessi pólitík. Það liggur fyrir að svona frumvörp hafa verið flutt áður og verið felld, sérstaklega þá með atfylgi þingmanna Sjálfstfl. sem hafa ráðið hér ríkjum meira og minna síðustu áratugi. En þá hefði verið tækifæri, eins og kom fram hérna áðan, til að breyta þessu, en röksemdirnar á móti því að breyta þessu hafa sjálfsagt verið þær að þetta kostaði mikið. Það er rétt. Þetta kostar mikið fé.
    En þær röksemdir sem hér eru settar fram vega þungt. Fjölskyldur sem eiga fötluð börn eru yfirleitt þannig staddar að annað foreldrið verður að vera heima til að gæta barnsins sem er í raun miklu meiri vinna en nokkur gerir sér grein fyrir. Líka er þetta nauðsynlegt þegar ómegð er mikil og þess vegna er það rétt, sem kemur fram í frv., að það má túlka hlutina á þann hátt að um refsiskatt sé að ræða. Auðvitað er það ósanngjarnt og óréttlátt, en aftur eru tínd hér rök um að það sé hagkvæmara fyrir tvo einstaklinga að leggja saman en einstakling og það mun vera svo.
    Það er alveg eins víst að þeir sem nú vilja samþykkja frv. og láta ríkið verða af 500--700 millj. vilji taka þá peninga af ákveðnum stöðum og sjálfsagt verður að tilnefna þá. Ef menn ætla að lækka skatta verða menn að gera grein fyrir því hvernig á að sinna þeim félagslegu verkefnum sem fyrir hendi eru. Nú minni ég á að það er sífelld barátta fyrir félmrh., veit ég, fjárlög eftir fjárlög að berjast fyrir því að halda þeim fjármunum sem eiga að fara í Framkvæmdasjóð fatlaðra og aldrei er nóg af gert, aldrei hefur fengist það fé sem þingmenn samþykktu á sínum tíma að setja í þann sjóð.
    Ég er reyndar þeirrar skoðunar að tekjuskattur sé af hinu illa almennt og best væri að fella hann niður. Þetta er versti skattur sem er í landinu og ég tel óréttlátastur vegna þess að það eru svo margir sem geta dregið undan. Það eru svo margir sem hafa aðstöðu til að skammta sér sjálfir hvað þeir hafa í tekjuskatt. Það eru staðreyndir sem við þurfum varla að deila um og mig grunar að það hafi ekki minnkað með staðgreiðslukerfinu eða þá mjög óverulega. Um tekjuskattinn hefur verið deilt í áraraðir hér á landi og menn hafa haft uppi heitstrengingar um að fella hann niður. Alþýðuflokksmenn hafa verið með heitstrengingar um það og sjálfstæðismenn líka, en okkur hefur ekki tekist betur en þetta. Tekjuskattskerfið er sennilega fastara í sessi núna en oft áður. Ég tel að það beri að fella niður þennan tekjuskatt. Það væri í raun og veru forgangsatriði í stað þess að lappa upp á þetta kerfi með ýmsum breytingum. Tekjuskattar yrðu ekki nema þá af allra hæstu tekjum og þar sem tryggt væri að hægt væri að ná þeim skatti á réttlátan hátt, á þann hátt að mönnum verði ekki mismunað.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta annað en

það að ég tel þarft að ræða þessi mál og það má ekki skilja orð mín svo þegar ég er að tala um að pólitíkin sé oft skrýtin að ég sé að vega að flm., öðru nær því að flm. hefur ekki setið á þingi nema sem varamaður og ber ekki ábyrgð á neinni fortíð í þessum málum og ég veit að þar fylgir hugur máli. Ég tel hugsunina þarfa og röksemdirnar réttar. Ég tel að mál þetta þurfi ítarlega athugun og hygg þó að eðlilegast væri að þingmenn einbeittu sér að því að finna leiðir til að útrýma tekjuskattinum, þeim rangláta skatti, hvernig sem það verður gert. Sjálfsagt verður það að gerast með því að finna aðra tekjulind, en takist það erum við nær réttlætinu en oft áður.