Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Flm. (Sólveig Pétursdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. stuðning við þetta frv. Ég held að augu manna séu að opnast fyrir því að töluvert skortir á framkvæmd markvissrar fjölskyldupólitíkur hér á landi og geti slíkt haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. Þó finnst mér að hluti af þessum umræðum hafi verið á heldur lágu plani, en kannski byggt á misskilningi.
    Hv. þm. sumir hverjir fara hér um víðan völl, hafa bæði áhyggjur af kynferði sínu, starfsheitum og öðru. Ég tel reyndar að þingkona sé ekki til í þingskapalögum þannig að það getur ekki verið rétt að nota það orð og því óþarfi að deila um slíkt.
    Hvort svikið sé undan tekjuskatti og hvort slíkir skattar eigi almennt rétt á sér. Vissulega má segja að tekjuskatturinn feli í sér launamannaskatt og ætti að vera óþarfur og mætti skoða það betur. Það er hins vegar ekki til umræðu við þetta tækifæri.
    Það hafa orðið nokkrar deilur milli hv. 3. þm. Vestf. og 5. þm. Norðurl. e. Ég hef ekki í hyggju að blanda mér í þær deilur, en ég get hins vegar ekki fallist á það, sem kom fram í fyrri ræðu hv. 3. þm. Vestf., að maki sé skyldaður með lögum til að vera heima hjá sér. Þar hlýtur í fyrsta lagi ábyrgð beggja foreldra að koma til og í öðru lagi má heldur ekki ganga á rétt fólks til að ráða því sjálft hvort það vinnur úti eða er heima. Það er sjálfstæði fólks í þessu landi. En ég held samt sem áður að ég hafi skilið orð hans rétt og það sé ekki verið að vega að stöðu kvenna í þessu máli, það sé verið að reka konur inn á heimilin, heldur að byggt sé á jafnrétti foreldra í þessu sambandi og því hljótum við öll að vera sammála. Við hljótum líka að vera sammála því að það eigi að taka tillit til hagsmuna barnanna því að þau geta ekki myndað einhvern þrýstihóp í þessu þjóðfélagi.
    Varðandi orð hv. 9. þm. Reykn. veit hann sjálfsagt miklu betur en ég hversu skrýtin tík þessi pólitík er, enda hefur hann af henni mun meiri reynslu en ég og er þó áfram í þessu starfi þannig að hún hlýtur að vera svolítið skemmtileg líka. Það er kannski möguleiki í einstaka málum hér á hinu háa Alþingi að menn geti talað saman í fullri alvöru, ekki síst þar sem um hagsmuni fjölskyldunnar er að ræða, án þess að vera að rífast um pólitík og deila um hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það hlýtur að vera skylda þingmanna á hinu háa Alþingi að taka á slíkum málum og ég held að menn ættu að viðurkenna það, ekki bara fyrir sjálfum sér heldur líka fyrir öðrum. ( Gripið fram í: Þeir gera það.) Já, það er rétt. Sumir gera það.
    En ég sakna þess alveg sérstaklega að fulltrúar kvenna á hinu háa Alþingi og fulltrúar kvenna jafnframt í þessu landi, fulltrúar Kvennalistans, sjá sér ekki fært að taka þátt. ( GHG: Sem kalla sig fulltrúa Kvennalistans.) Já, ég nota þetta orð vegna þess að þær nota það sjálfar, en að sjálfsögðu er það rétt að þær kalla sig fulltrúa kvenna í þessu landi. Þær tilheyra Kvennalistanum. Ég er ekki að setja út á það í sjálfu sér, en ég sakna þess að þær sjá sér ekki fært

að taka þátt í umræðum um þetta mál vegna þess sérstaklega að þau sjónarmið hafa komið fram m.a. hjá þeim --- og reyndar fleirum --- að persónuafsláttur ætti að vera að fullu millifæranlegur, ekki bara á milli hjóna eða sambúðarfólks heldur við hvaða form sambúðar sem er þar sem aðilar halda saman heimili. Það má vissulega velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að líta á hvert heimili sem sjálfstæða rekstrareiningu og skattlagningu eftir því háttað, en þá erum við að vísu komin út í allt aðrar og miklu stærri fjárhæðir en þetta frv. mun kosta ríkissjóð. Hins vegar má með réttu benda á kosti þessa fyrirkomulags og sem þátt í markvissri fjölskyldupólitík. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að slíkar skattalagabreytingar þarf að áætla með nokkrum fyrirvara.
    Það frv. sem hér um ræðir hlýtur að teljast skref í rétta átt þegar litið er til hagsmuna fjölskyldunnar. Þess má einnig geta hér að heimavinnandi fólk er mjög ósátt við núgildandi fyrirkomulag og telur það fela í sér vanvirðu. Í þessu sambandi langar mig til að vitna hér í orð hv. fyrrv. þm. Kvennalistans Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur aftur er hún segir í umræðum um staðgreiðslufrumvarpið, með leyfi virðulegs forseta, og hygg ég að það sé nokkuð merkilegt:
    ,,Það er enn annað atriði sem varðar þessa millifærslu milli maka eða samsköttun sem ég vil nefna hér og það er varðandi það að persónuafsláttur heimavinnandi eða tekjulægri makans nýtist aðeins að þrem fjórðu eða fjórum fimmtu hlutum til miðað við orð hæstv. ráðherra í ræðu hans þegar hann mælti fyrir þessu frv. Ég mun leggja til að persónuafsláttur heimavinnandi nýtist ekki aðeins að fjórum fimmtu hlutum heldur að fullu vegna þess að það er ekki með nokkru móti verjandi að tekjulægri eða heimavinnandi einstaklingar teljist aðeins persónuígildi að fjórum fimmtu hlutum eða hvaða hlutfalli sem er öðru en jöfnu á við alla aðra. Það er auðvitað ekkert annað en virðingarleysi, bæði við sjálfstæði og ígildi þeirra einstaklinga sem hér um ræðir, að leggja til það fyrirkomulag sem í þessu frv. er að finna. Margar eru þær konurnar sem hafa tekið eftir þessu og haft samband við mig og spurt: Jæja, á nú að meta okkur sem trekvart persónu?
    Frv. var kynnt á þann hátt að það væru þrír fjórðu hlutar, þ.e. 75%, sem væru nýtanlegir á þennan hátt en síðan hefur fjmrh. látið þess getið að það munu vera 80% eða fjórir fimmtu. Það er töluvert ólga og reiði meðal kvenna yfir þessu sérstaka ákvæði.``
    Með þessum orðum sýnist mér að það frv. sem hér er til umræðu samrýmist fyllilega stefnu Kvennalistans og ég ítreka að ég sakna þess að fulltrúar hans skuli ekki taka þátt í þessari umræðu.
    Þess má einnig geta og alveg sérstaklega vegna þess að nokkrir hv. þm. sem eru í þessari deild hafa verið mikið að berjast í verkalýðshreyfingunni að fulltrúar verkalýðs- og launþegahreyfinganna mótmæltu einmitt þessu ákvæði í staðgreiðslufrv. á sínum tíma. Þannig segir t.d. í athugasemdum frá stjórn BHMR að niðurfelling á giftingarfrádrætti og það að makaafsláttur skuli aðeins nýtast að þremur fjórðu

hlutum feli í sér neikvæða afstöðu í sköttun fjölskyldna og tilfærslu frá fjölskyldum til einstaklinga ef heildarskattbyrði sé að öðru leyti óbreytt. Það er þannig ljóst að mjög margir töldu og telja þetta ákvæði skattalaga fela í sér mikla mismunun.
    Á það hefur verið minnst áðan og þá má e.t.v. segja sem svo að sjálfstæðismenn hefðu átt að beita sér fyrir því fyrr að þessu ákvæði væri breytt, en það felst þó nokkur afsökun í því að staðgreiðslukerfið fól í sér byltingu í skattamálum og að mörgu var að huga. Engu að síður var það og er fullur vilji þeirra að á þessu máli verði tekið enda í samræmi við landsfundarályktanir. Þessi afstaða sjálfstæðismanna kom einnig skýrt fram í fyrirspurn frá Bandalagi kvenna í Reykjavík um þetta efni þegar staðgreiðslufrv. var afgreitt, en í svari frá þingflokknum segir orðrétt:
    ,,Þingflokkur sjálfstæðismanna mun beita sér fyrir því að það hjóna sem er heimavinnandi geti að fullu nýtt sér persónuafslátt sinn.``
    Er mér ekki grunlaust um að viðlíka svör hafi borist frá þingflokki framsóknarmanna. Og varðandi orð hv. 5. þm. Norðurl. e. þar sem hann ræðir m.a. um kostnað, 2 milljarða, sem þetta frv. eigi að hafa í för með sér, má vel vera að forustumenn Framsfl. hafi notað þá fjárhæð á Borgfl. í stjórnarmyndunarviðræðum. Hins vegar hef ég undir höndum plagg frá Þjóðhagsstofnun þar sem er sagt: Við óbreyttan persónuafslátt er kostnaður við hækkun millifærsluhlutfalls metin um 500--700 millj. kr. Það er nákvæmlega sú upphæð sem um er getið í grg. með þessu frv.
    Ég tel mig ekki þurfa að afsaka að hafa ekki flutt þetta mál á síðasta þingi og bendi á að sem varaþingmaður er ég minna inni á þingi og þar að auki má kannski benda á að e.t.v. hafi ekki tími unnist til að vinna að öllum þeim málum sem síðasta ríkisstjórn hefði viljað beita sér fyrir. Við ættum kannski að hafa það í huga. Hins vegar hlýtur að vera betra seint en aldrei.
    Það má einnig geta þess í þessu sambandi að þegar þessi regla var sett í staðgreiðslukerfið fól hún í sér verulega rýmkun frá eldri skattalögum, sbr. m.a. upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun.
    Hæstv. forseti. Ég ítreka enn þakkir mínar til hv. þm., sama hvaðan gott kemur, úr öllum kjördæmum. Ég treysti því að þeir fylgi sinni sannfæringu og láti málefnin ráða, en sumir þeirra hafa áður lýst yfir vilja sínum til að samþykkja þetta sanngirnismál. Vona ég að þeir muni því greiða götu þess á hinu háa Alþingi. Með ákvæði 2. gr. þessa frv. vil ég benda alveg sérstaklega á að hæstv. fjmrh., sem því miður er ekki hér staddur, gefst nægur tími til aðlögunar og ef með þarf til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á öðru sviði. Hér er um mjög mikilvæga hagsmuni að ræða.