Skráning og meðferð persónuupplýsinga
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga á þskj. 367, en það er lagt fram í samræmi við ákvæði 31. gr. laga um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, nr. 39/1985. Í samræmi við ákvæði þeirrar lagagreinar falla lög nr. 39/1985 úr gildi 31. des. nk. og ber dómsmrh. samkvæmt þeirri grein að leggja fram frv. til nýrra laga um þetta efni á þessu þingi.
    Samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði fól þáv. dómsmrh. í janúar á síðasta ári þeim Þorgeiri Örlygssyni, formanni tölvunefndar, og Tryggva Gunnarssyni lögfræðingi að endurskoða lög nr. 39/1985 og semja frv. til nýrra laga og sömdu þeir frv. þetta.
    Meginmarkmið löggjafar um skráningarmálefni er að tryggja einstaklingum vernd gegn misnotkun á upplýsingum um einkamálefni þeirra sem varðveittar eru eða skráðar hafa verið með kerfisbundnum hætti, hvort sem slík skráning fer fram í tölvum eða með öðrum hætti. Fyrstu lög um skráningarmálefni, sem sett voru hér á landi, voru lög nr. 63/1981 og giltu þau í fjögur ár. Voru þau endurnýjuð að mestu óbreytt árið 1985 og tóku gildi 1. jan. 1986 og hafa þau einnig fjögurra ára gildistíma eins og fyrstu lögin.
    Frá því fyrsta löggjöfin um skráningarmálefni var sett hér á landi hafa menn öðlast aukna reynslu á þessu löggjafarsviði sem áður var mönnum óþekkt. Miðar frv. þetta að því að bæta úr þeim vanköntum gildandi löggjafar sem í ljós hafa komið.
    Þá hefur og við samningu frv. verið horft til réttarþróunar í grannríkjum okkar, en rétt er að leggja á það áherslu að hér er um að ræða lagasetningu á mjög alþjóðlegu sviði og því nauðsynlegt að þróun íslenskra réttarreglna um þetta efni sé samstiga þróun í grannríkjum okkar. Eins og áður segir hefur löggjöf um skráningarmálefni það að meginmarkmiði að vernda einstaklingana gegn því að misfarið sé með persónuupplýsingar sem skráðar hafa verið um þá með kerfisbundnum hætti. Í slíkri löggjöf og þar með frv. þessu er reynt að ná þessu markmiði með eftirfarandi úrræðum:
    1. Settar eru reglur um það hvenær og í hvaða tilgangi heimilt er að skrá persónuupplýsingar. Er um það efni aðallega fjallað í II. kafla frv.
    2. Strangar reglur gilda skv. III. kafla frv. um aðgang annarra en hins skráða að skráðum upplýsingum.
    3. Hinum skráða er tryggður aðgangur að upplýsingum er hann sjálfan varða og er um það efni fjallað í IV. kafla frv. Er það gert í því skyni að veita einstaklingunum sjálfum færi á því að hafa að vissu marki sjálfir eftirlit með því að ekki séu skráðar um þá upplýsingar sem óheimilt er að skrá.
    4. Þar sem upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust manna eru þeim viðkvæmar eru settar sérstakar reglur um skráningu og meðferð slíkra upplýsinga í V. kafla frv. Eru þær reglur til muna ítarlegri í frv. þessu en í gildandi lögum.

    5. Gert er ráð fyrir skipan opinberrar eftirlitsnefndar, svokallaðrar tölvunefndar, sem hefur eftirlit með því að til skráningar sé stofnað og með upplýsingar farið svo sem í lögunum segir. Er það jafnframt hlutverk nefndarinnar að veita borgurunum liðsinni við að ná fram leiðréttingu sinna mála ef þeir telja rétt sinn brotinn.
    Auk þessa hefur frv. að geyma ákvæði um notkun nafnaskráa til útsendingar á auglýsinga- og dreifiefni, svo og ákvæði um framkvæmd markaðs- og skoðanakannana um atriði er snerta gildissvið frv. Þá er og í frv. að finna ákvæði um starfsemi þeirra er annast tölvuþjónustu fyrir aðra og ákvæði um söfnun upplýsinga hér á landi til úrvinnslu erlendis.
    Í III. kafla almennra athugasemda frv. eru raktar helstu breytingar á gildandi löggjöf sem frv. þetta gerir ráð fyrir og verða þær ekki raktar nánar hér. Þó er rétt að leggja á það áherslu að þótt breytingar frv. séu allmargar raska þær þó ekki í neinum verulegum atriðum þeirri umgjörð sem þegar hefur verið sett um þessa einkalífsvernd.
    Ein veigamesta breytingin sem frv. gerir ráð fyrir kemur fram í 2. mgr. 30. gr. þar sem lagt er til að tölvunefnd og starfslið hennar hafi vegna eftirlitsstarfa sinna aðgang að húsnæði þar sem skráning fer fram eða þar sem skráningargögn eru varðveitt eða eru til vinnslu án þess að þurfa að afla til þess sérstaks dómsúrskurðar hverju sinni.
    Skv. 66. gr. stjórnarskrárinnar verður húsleit eigi framkvæmd nema eftir dómsúrskurði eða eftir sérstakri lagaheimild. Nútímatækni gerir það kleift að eyða upplýsingum í tölvum á mjög skömmum tíma og án þess að slíks sjáist nokkur merki. Með hliðsjón af þessu og þeim hagsmunum sem lögum þessum er ætlað að vernda þykir rétt að leggja til að tölvunefnd hafi ótvíræða lagaheimild til þess að gera vettvangskönnun án sérstaks dómsúrskurðar. Er það reynsla frændþjóða okkar að slík heimild sé nauðsynleg til þess að gera eftirlitsstarfið virkara.
    Rétt er að leggja á það áherslu að með frv. er, eins og í fyrri löggjöf,
reynt að sníða eftirlitsstarfsemina að þjóðfélagsaðstæðum hér á landi og forðast að skapa umfangsmikið skrifstofubákn í kringum löggjöfina. Þess vegna er áfram gert ráð fyrir því að eftirlitsstarfið verði í höndum tölvunefndar og þótt gert sé ráð fyrir breyttum reglum um skipan nefndarinnar á slíkt ekki að hafa aukinn kostnað í för með sér eins og rækilega er tíundað í athugasemdum við 28. gr. frv.
    Fyrri löggjöf á þessu sviði hafði fyrir fram afmarkaðan gildistíma eins og áður hefur komið fram. Var það gert til þess að tryggja að nauðsynleg endurskoðun löggjafarinnar færi fram með hæfilegu millibili. Verður að telja að sú reynsla hafi fengist á þessu löggjafarsviði að ekki sé þörf á því að hafa löggjöfina tímabundna. Er því ekki gert ráð fyrir því í þessu frv. að það hafi, ef að lögum verður, afmarkaðan gildistíma.
    Að lokum er rétt að leggja á það áherslu að í

setningu löggjafar um skráningarmálefni verður að þræða ákveðinn meðalveg. Annars vegar þarf að tryggja einstaklingum nauðsynlega persónuvernd og hins vegar þarf að gæta þess að búa ekki svo um hnútana að staðið sé í vegi fyrir eðlilegri þróun. Er í frv. þessu reynt að hafa bæði sjónarmiðin í huga svo sem gert var við fyrstu lagasetningu á þessu sviði hér á landi. Má í því sambandi benda á að þrátt fyrir ýmsar strangar reglur frv. varðandi skráningarstarfsemina er gert ráð fyrir því að tölvunefnd geti veitt undanþágur frá slíkum reglum ef hún telur slíkt nauðsynlegt með hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi eru.
    Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.