Búminjasafn
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Flm. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um búminjasafn, sem er 133. mál þingsins og er á þskj. 140, sem við flytjum saman, ég og hv. 2. þm. Vesturl. Þetta frv. var lagt fram í nóvembermánuði sl. og eins og hér hefur komið fram áður lenti það á milli laga í sambandi við umræður í desember þannig að það varð að víkja fyrir stjórnarfrv. og fjárlögum á síðustu dögum þingsins fyrir jól og var gert ráð fyrir að það yrði tekið fyrir við fyrsta tækifæri eftir að þing kæmi saman eftir jólafrí, en það hefur því miður dregist óþarflega lengi.
    Frv. þetta er um búminjasafn, að stofna skuli búminjasafn er hafi aðsetur á Hvanneyri í Borgarfirði.
    Eins og segir í 2. gr. er hlutverk búminjasafns að safna munum, minjum og hvers konar heimildum er snerta íslenskan landbúnað, varðveita og hafa til sýnis almenningi. Kostað skal kapps um að varðveita hæfilegt sýnishorn véla, tækja og verkfæra og hvers konar annarra búminja sem eru að hverfa eða hætt er að nota vegna breyttra þjóðhátta.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi stjórn safnsins eftir tilnefningu eftirtalinna aðila: Þjóðminjasafnsins, Búnaðarfélags Íslands, Bændaskólans á Hvanneyri og Bændaskólans á Hólum. Einn stjórnarmaður skal skipaður án tilnefningar. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
    Gert er ráð fyrir því í 4. gr. frv. að ráðherra skipi forstöðumann safnsins eftir tillögum stjórnar þess til sex ára í senn. Stjórn safnsins ræður safnverði og aðra starfsmenn eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum hverju sinni.
    5. gr. gerir ráð fyrir að stjórn búminjasafns og forstöðumanni beri að hafa náið samráð við Þjóðminjasafnið um varðveislu minja og skipulag og starfshætti safnsins. Þjóðminjasafni sé heimilt að varðveita búminjar á búminjasafninu ef það telur varðveislu muna og minja nægilega trygga þar.
    Í 6. gr. er gert ráð fyrir að forstöðumaður búminjasafns skuli annast kennslu í búnaðarsögu og véla- og verkfærafræði við Bændaskólann á Hvanneyri.
    Í 7. gr. kemur fram að kostnaður við rekstur búminjasafns greiðist úr ríkissjóði, í 8. gr. að menntmrh. setji með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi búminjasafns og í 9. gr. að lög þessi öðlist gildi 1. ágúst 1989.
    Ég vil geta þess að frv. þetta er samið með hliðsjón af lögum og reglugerð um Sjóminjasafn Íslands sem staðsett er í Hafnarfirði og hefur skipað sér sess sem viðurkennt safn að því er varðar sjóminjar hér á Íslandi.
    Eins og hér hefur raunar áður komið fram í umræðum, þá er þetta frv. fyrst og fremst lagt hér fram vegna óska sem komu frá Bændaskólanum á Hvanneyri svo sem kemur fram í grg. og ég mun, með leyfi forseta, greina frá í þessari umræðu.
    Svo sem fram kemur í fskj. með þessu frv. er það fyrst og fremst bréf frá Bændaskólanum, undirritað af skólastjóranum, þar sem kemur fram að Bændaskólinn

og nú á síðustu árum bútæknideild RALA hafi haft í frammi ýmsar aðgerðir til að koma upp safni. Eins og fram kemur í grg., sem ég mun lesa hér á eftir, er tilbúinn grunnur að slíkum safnaskála. Skólinn leggur áherslu á að það væri mjög æskilegt að ýta þessu máli áfram og bendir á að heppilegast væri að setja lög um búminjasafn á Hvanneyri og jafnframt að fjárveiting fáist til að byggja skála yfir safnið.
    Þá er einnig tekið fram í bréfi skólastjóra að búminjasafn á Hvanneyri hefur mikla þýðingu vegna kennslu í véla- og verkfærafræði auk þess sem það hefur almennt gildi sem safn og tengist starfsemi bútæknideildar RALA.
    Ég mun því, með leyfi forseta, lesa efnisatriði úr þeirri grg. sem skólinn sendi sem rökstuðning fyrir þessu máli sem skýrir merka sögu þessarar starfsemi sem hefur verið við Bændaskólann á Hvanneyri. Þessi grg. er samin af dr. Bjarna Guðmundssyni sem er kennari á Hvanneyri.
    ,,Á Hvanneyri hefur um árabil verið til nokkurt safn gamalla tækja og búvéla. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til þess að koma fótum undir safnið en enn hefur engin þeirra heppnast að fullu. Ekki þarf að hafa mörg orð um notagildi verkfærasafns. Sú bylting, sem orðið hefur í búnaðarháttum á liðnum áratugum, á sér fyrst og fremst rót í breyttri verktækni. Vélar, verkfæri og áhöld í ýmsum myndum hafa komið fram. Hvert af öðru hafa þau rutt hinum eldri úr vegi svo að áður en varði urði til ,,gömul`` tæki. Mikla sögu má lesa úr þróun landbúnaðarverkfæranna á þessari öld. Heilleg verður atvinnusaga þjóðarinnar ekki án hennar. Sú saga er enn aðeins að litlu leyti skráð.
    Víða hefur bútæknisöfnum verið komið upp erlendis og virðist vaxandi áhugi vera á bútæknisögunni eins og öðru því er snertir rætur nútímans.
    Hér á eftir verður fjallað um fáeina þætti er varða málefni verkfærasafnsins á Hvanneyri, m.a. í tilefni af því að á liðnum vetri hrundu nokkrir áhugamenn þar málinu lengra fram en áður hafði gerst í einum áfanga.
    Í byrjun þessarar aldar fóru að berast til landsins verkfæri til landbúnaðar. Ekki síst var það á bændaskólunum sem verkfærin voru reynd. Skólastjórar og kennarar höfðu þar forgöngu, oft vegna tengsla sinna við nágrannalöndin og dvalar þar. Frá skólunum barst tæknin síðan út um
sveitirnar. Þá má ekki gleyma því að allmikið var um innlenda verkfærasmíð á tímabili, einkum jarðyrkjuverkfæri. Þar fór Torfi í Ólafsdal fremstur. Með merku riti Árna G. Eylands um búvélar og ræktun var saga bútækni á Íslandi fram undir 1950 skráð í mikilvægum atriðum.
    Í gegnum árin hafa ýmis verkfæri ,,orðið til`` á Hvanneyri, verkfæri sem á sínum tíma hafa komið þangað til fyrstu reynslu. Flest hinna eldri eru frá tíma Halldórs Vilhjálmssonar skólastjóra, en Halldór var mikill áhugamaður um verktækni og hvers kyns nýjungar á því sviði. Raunar voru forverar hans, þeir Sveinn Sveinsson og Hjörtur Snorrason, einnig

forgöngumenn á sviði heyskapartækni. Á skólastjóraárum sínum öndverðum (um 1896) reyndi Hjörtur til dæmis fyrstu heyvinnuvélarnar sem til landsins komu, sláttuvél og rakstrarvél. Þær eru nú löngu glataðar en verkfæri eru til frá tíð Halldórs, svo og frá Ólafsdal eins og nánar verður vikið að.
    Árið 1940 tóku gildi ný lög um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins. 20. gr. laganna var þannig:
    ,,Safni af landbúnaðarverkfærum skal komið upp við Bændaskólann á Hvanneyri undir umsjón verkfæranefndar. Reynt sé að fá sem flestar verkfæraverslanir og verksmiðjur til þess að leggja fram sýnishorn í safnið, en ella skulu keypt til reynslu verkfæri sem ekki fást á annan hátt.``
    Í grg. með frv. sagði svo um þessa grein:
    ,,Breytingar á þeim vélum og áhöldum sem bændur þurfa að nota í starfi sínu eru á síðari tímum nokkuð örar og margvíslegar. Nýjar hugmyndir koma oft fram á því sviði, ný verkfæri eru flutt inn og smíðuð innan lands o.s.frv. Að fylgjast með öllu þessu er fróðlegt og nauðsynlegt, einkum fyrir alla þá sem leiðbeiningastörf hafa með höndum. Er því mjög æskilegt að koma upp verkfærasafni þar sem unnt er að fylgjast með öllum nýjungum og breytingum í verkfæragerð. Telur nefndin (er frumvarpið samdi) heppilegt að slíkt safn sé á þeim bændaskólanum sem er nær höfuðstaðnum. Líklegt telur nefndin að unnt sé að fá sýnishorn í safnið frá ýmsum þeim verksmiðjum og verslunum sem smíða eða selja verkfæri og má ætlast til þess að verkfæranefnd geri sitt til að svo verði, en annars þarf nokkra fjárupphæð til þess að kaupa í safnið þau áhöld sem ekki fást á annan hátt.``
    Með þessari ákvörðun Alþingis var verkfærasafnið á Hvanneyri lögfest sem nýmæli í byrjun hinnar raunverulegu vélaaldar til sveita, fyrst og fremst að því er skilið verður til þess að kynna nýjustu landbúnaðarverkfæri á hverjum tíma. Eðlilegur hluti safnsins hlaut hins vegar með tímanum að verða nokkurt safn eldri verkfæra. Safnið var tengt starfi verkfæranefndar er reyna skyldi ,,ný verkfæri eða breytingar á eldri verkfærum ...`` með verkfæratilraunum við ,, ... búnaðarskólann á Hvanneyri nema hentara þyki að reyna sérstök verkfæri annars staðar ...`` eins og í lögunum sagði.
    Ekki er nákvæmlega vitað í hvaða mæli verkfæranefnd sinnti verkfærasafninu. Hins vegar komst safnið inn á fjárlög ársins 1942 með 1000 kr. framlagi úr ríkissjóði. Hélst það óbreytt allt til fjárlagaársins 1957 að upphæðin var hækkuð í 2000 kr. Stóð svo til og með fjárlagaárinu 1967. Eftir það var ekki um sérgreinda upphæð til safnsins að ræða. Öll þessi ár var framlagið reiknað Hvanneyrarskóla í samræmi við ákvæði laganna frá 1940. Með nýjum lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965 (Rannsóknastofnun landbúnaðarins), voru hins vegar engin ákvæði um verkfærasafn. Þar með var það horfið úr tölu lögbundinna stofnana.
    Ríkisframlagið árin 1942--1967 dró verkfærasafnið á Hvanneyri ekki langt og ekki er fullljóst hvernig

framlaginu var ráðstafað. Víst er þó að ekki komst safnið á legg sem formleg og áþreifanleg stofnun við skólann með þeim hætti er áðurnefnd lög sögðu fyrir um. Guðmundur Jónsson skólastjóri var þó áhugasamur um málið og viðaði að sér nokkrum merkum verkfærum og áhöldum. Mörg þau verkfæri er skólinn eignaðist og nemendur kynntust og lærðu að handleika, varðveittust og urðu með öðru, er frá leið, vísir að verkfærasafni á skólastaðnum.
    Vegna skólastjóraskipta á Hvanneyri 1. sept. 1972 fól landbrn. þeim Jóni Guðmundssyni, bónda á Hvítárbakka, og Bjarna Arasyni, héraðsráðunaut í Borgarnesi, að gera úttekt á eignum skólans. Fór hún fram þá um haustið. Í ítarlegri úttektarskýrslu þeirra félaga segir svo um verkfærasafnið:
    ,,Á Hvanneyri er til mikið safn gamalla landbúnaðartækja. Hér er um að ræða vélar og áhöld sem eru orðin úreld og hafa fallið úr notkun vegna þess, svo sem ýmiss konar jarðvinnslu- og heyvinnutæki er hestum var beitt fyrir, svo og margs konar handverkfæri. Þá eru í þessu safni gamlar dráttarvélar og tæki við þær. Ekki verður dregið í efa að hér er saman komið stærsta safn sinnar tegundar á landinu og að þetta safn hefur mikið sögulegt gildi.
    Safn þetta er að nokkru geymt í Verkfærahúsinu (gamla) og að nokkru í Skemmunni, en sum tækin standa úti undir beru lofti. Aðstaða til geymslu þessara gripa er engan veginn eins og þyrfti að vera þar sem þeir eru ekki varðir gegn skemmdum sem skyldi og engin aðstaða er til að skoða þá.``
    Skömmu síðar lét Bændaskólinn gera skrá yfir vélar og tæki í safninu. Var
hún byggð á spjaldskrá sem Guðmundur Jónsson skólastjóri hafði tekið saman. Skráðir safnmunir árið 1973--1974 reyndust vera 47 að tölu.
    Með endurskoðuðum jarðræktarlögum, sem lögfest voru 1972, voru felld niður ákvæði laganna um vélasjóð og vélanefnd ríkisins. Vélasjóður hafði þá um árabil annast rekstur á skurðgröfum auk annarra verkefna. Með breyttum tímum varð hans ekki lengur þörf. Vélasjóður átti verðmætar eignir. Skyldi andvirði helmings þeirra lagt í sérstakan sjóð er Búnaðarfélag Íslands varðveitti. Skyldi sjóðnum varið til þess að ,,styrkja tilraunir með álitlegar tækninýjungar í landbúnaði eftir tillögum búnaðarþings ... ,, eins og í lögunum segir.
    Að frumkvæði Haralds Árnasonar vatnsvirkjaráðunautar, þá framkvæmdastjóra vélasjóðs, fékkst heimild landbrh. til þess að verja nokkru af eignum vélasjóðs til þess að kaupa gamlar búvélar og verkfæri og safna þeim saman. Til verksins réðst Karl Auðunsson sem þá var elsti starfsmaður vélasjóðs. Vélasjóður átti verkstæðisbragga í Garðaflóa við Akranes. Braggann keypti Karl og þangað safnaði hann hinum gömlu tækjum og bjó þau til varðveislu.
    Árangurinn af starfi Karls Auðunssonar mátti svo fyrst sjá á þróunarsýningu atvinnuveganna í Laugardalshöll síðsumars þjóðhátíðarárið 1974, en þar voru m.a. sýnd gömul verkfæri sem hann hafði safnað og lagfært. Á sýninguna fóru einnig nokkrar gamlar

búvélar frá Hvanneyri. Að sýningu lokinni voru verkfærin síðan flutt að Hvanneyri en þar var þá ekkert geymsluhús til, frekar en áður, er hæfði þessum verðmætum. En með þessu átaki vélasjóðs og þróunarsýningunni 1974 hafði verkfærasafnið vakið athygli margra.
    Heimamönnum á Hvanneyri rann til rifja umkomuleysi verkfærasafnsins, sérstaklega eftir það framtak vélasjóðs sem að framan var rakið. Veturinn 1976 lögðu því nokkrir starfsmenn Bændaskólans og bútæknideildar RALA á Hvanneyri erindi fyrir búnaðarþing varðandi verkfærasafnið. Búnaðarþing tók vel í erindið og afgreiddi það með svofelldri ályktun:
    ,,Búnaðarþing felur stjórn Búnaðarfélags Íslands að hlutast til um það við landbrn. að kannaðar verði leiðir til að efla og reka það safn landbúnaðartækja sem til var komið með lögum nr. 64 7. maí 1940, um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins.
    Jafnframt felur þingið stjórninni að gangast fyrir söfnun frjálsra fjárframlaga til þess að unnt verði að reisa geymsluskála fyrir safnið á Hvanneyri þegar á þessu ári.
    Gera verður ráð fyrir að nokkurn tíma taki að tryggja stöðu safnsins í lögum og óvíst hvenær opinber fjárframlög til uppbyggingar þess liggja á lausu. Á hinn bóginn þolir málið ekki langa bið þar eð tæki þau og vélar sem safnað hefur verið liggja nú undir skemmdum. Nauðsynlegt er því að hefjast þegar handa um byggingu geymsluhúss fyrir munina á Hvanneyri en bíða ekki eftir því að framtíðarskipan safnsins sé ráðin. Þar sem slíkt húsnæði á ekki að þurfa að verða mjög dýrt má telja líklegt að unnt sé að ná saman með frjálsum framlögum því fé sem til þarf. Eru búnaðarsamtök, svo og innflytjendur landbúnaðartækja, líklegir aðilar til að vilja leggja þessu menningarmáli lið með fjárframlögum, en fleiri koma vafalaust til greina.``
    Með ályktuninni lagði búnaðarþing fyrst og fremst áherslu á hið sögu- og menningarlega hlutverk safnsins, svo sem eðlilegt var í ljósi breyttra tíma og aðstæðna. Jafnframt benti þingið á að rétt væri að fleiri aðilar en ríki stæðu undir framtakinu, þar á meðal búnaðarsamtökin.
    Fátt gerðist í málefnum safnsins eftir ályktun búnaðarþings 1976. Lengst af var þó munað eftir verkfærasafninu í fjárbeiðnum skólans til fjárveitingavaldsins. Liðu svo nokkur ár. Þeir Jónas Jónsson, þá ritstjóri tímaritsins Freys, og Haraldur Árnason vatnsvirkjaráðunautur lögðu mál verkfærasafnsins fyrir búnaðarþing 1979 sem afgreiddi það með svofelldri ályktun:
    ,,Búnaðarþing felur stjórn Búnaðarfélags Íslands að leita eftir samvinnu við Stéttarsamband bænda um að hafa forgöngu um útvegun fjár til stofnunar búvélasafns á Hvanneyri.
    Miðað verði við að safnið komist á fót á 90 ára afmæli Bændaskólans á Hvanneyri.``
    Í grg. var vísað til afgreiðslu búnaðarþings á málinu veturinn 1976, en þar segir:
    ,,Þótt ekki hafi orðið af framkvæmdum þykir

sjálfsagt að freista þess á nýjan leik að kannað verði til þrautar hvort ekki sé unnt að stofna búvélasafn á Hvanneyri og tengja stofnun þess merku afmæli Bændaskólans á Hvanneyri.``
    Stjórn Búnaðarfélagsins ákvað á fundi sínum 12. mars 1979 að senda ályktun þessa ,,... til Stéttarsambands bænda og skólastjórans á Hvanneyri og mælast til þess að þeir tilnefni sinn manninn hvor til þess að ræða um frekari framkvæmdir í málinu við fulltrúa Búnaðarfélags Íslands, Harald Árnason``.
    Stéttarsamband bænda tók málið upp á stjórnarfundi 22. mars sem tilmæli um að sambandið tilnefndi einn mann í nefnd ,,... sem skal hafa forgöngu um útvegun fjár til stofnunar búvéla- og verkfærasafns á Hvanneyri``. Magnús
Sigurðsson á Gilsbakka var tilnefndur en til vara Jón Kr. Magnússon á Melaleiti.
    Um svipað leyti var Bjarni Guðmundsson tilnefndur í nefndina fyrir Bændaskólann á Hvanneyri. Var nefndin þá fullskipuð.
    Nefndin, undir forsæti Haralds Árnasonar, hélt fyrsta fund sinn á Hvanneyri 11. apríl 1979. Þar var m.a. ákveðið að skrifa fjárbeiðnibréf til búvélainnflytjenda, búnaðarsambandanna og Stéttarsambands bænda.
    Fyrstu svörin komu frá Stéttarsambandi bænda sem á aukafundi sínum á Hótel Sögu 25.--26. apríl um vorið samþykkti ,,... að taka þátt í að koma upp húsi yfir véla- og verkfærasafn á Hvanneyri með framlagi að upphæð 1,5 millj. kr``.
    Fram kom hjá framsögumanni, Grími B. Jónssyni í Ærlækjarseli, og fleiri fundarmönnum að með fjárframlaginu væri jafnframt verið að minnast 90 ára afmælis Bændaskólans á Hvanneyri. Skömmu síðar var tilkynnt um 500.000 kr. framlag til húsbyggingarinnar frá Kaupfélagi Borgfirðinga. Í báðum þessum samtökum naut málið Magnúsar á Gilsbakka.
    Nefndin lét í samvinnu við heimamenn á Hvanneyri kanna helstu kosti varðandi húsgerð og skipulag. Var staðnæmst við tvo þeirra: að byggja sérstaka skemmu og að byggja við verkfærahúsið nýja. Með hliðsjón af skipulagi á staðnum, samtengingu verkfærasafns og húsnæðis til bútæknikennslu skólans, svo og framkvæmdakostnaði, var sú ákvörðun tekin af báðum aðilum í október 1979 að byggja við verkfærahúsið svo að þar skapaðist rými fyrir verkfærasafn. Áætlað var að sú viðbót mundi kosta um 29 millj. gkr., en sérstök skemma, 320 fermetrar að stærð, var hins vegar talin kosta um 34 millj. gkr.
    Jafnframt var gengið út frá því að skólinn ræki safnið áfram en viðbætur, safnauki og viðgerðir verkfæra yrðu kostaðar af sérstökum fjárveitingum.
    Seinni hluta sumars 1980 var hafist handa og þá um haustið var lokið við sökkla að viðbyggingunni. Nam byggingarkostnaðurinn alls 7,6 millj. gkr.
    Framlög bárust frá ýmsum aðilum, svo sem Stéttarsambandi bænda, Kaupfélagi Borgfirðinga, Búnaðarsambandi Kjalnesinga, Búnaðarsambandi Snæfellinga, Búnaðarsambandi Strandamanna,

Búnaðarsambandi Norður-Þingeyinga, Búnaðarsambandi Austurlands, Búnaðarsambandi Borgarfjarðar, Þjóðhátíðarsjóði, Búnaðarsambandi Vestfjarða og Búnaðarsambandi Suðurlands. Þessi framlög komu því frá öllum samböndum í landinu sem tengdust landbúnaði.
    Vorið 1987 var hafist handa um lagfæringar á nokkrum vélum safnsins í tilefni af landbúnaðarsýningu 1987, en þar átti að koma upp sérstakri sögudeild. Þangað fóru vélar og verkfæri úr safninu. Um haustið var ákveðið að verja enn frekari tíma til lagfæringa á safngripum. Forgöngu um það hafði Grétar Einarsson deildarstjóri með öðrum starfsmönnum bútæknideildar. Gamlar eldri dráttarvélar voru gerðar upp í frumgerð sína, sumar jafnvel gerðar gangfærar, auk þess sem fáein verkfæri voru pússuð upp.
    Í verkfærahúsi Bændaskólans var útbúið horn á tveimur hæðum til þess að stilla gripum þessum upp þannig að gestir og gangandi gætu virt þá fyrir sér. Þessi vísir að eiginlegu safni varð tilbúinn í maímánuði 1988. Var þá hægt að segja að komið væri upp verkfærasafn á Hvanneyri.
    Sumarið 1988 vakti safnhornið á Hvanneyri verulega athygli hinna mörgu gesta er þangað komu. Ýmsir hinna eldri hittu þar fyrir gamla kunningja og yngri kynslóðinni þótti forvitnilegt og spennandi að sjá hin fornu tól, ekki síst dráttarvélarnar.
    Reynsla hins fyrsta sumars safnsins sýnir ótvírætt hver þörf er á að verkfærasafn sé til og opið almenningi á aðgengilegum stað. Segja má að aðeins eitt verkfæri úr safninu hefði áður verið til sýnis að jafnaði á skólastaðnum. Það var tveggja hesta plógur, smíðaður í Ólafsdal um aldamótin. Plógurinn var gerður upp árið 1986 í umsjá Hilmars Hálfdánarsonar og Trausta Eyjólfssonar, kennara á Hvanneyri. Plógurinn stendur nú í aðalanddyri skólahúss Bændaskólans. Að vísu hefur þúfnabaninn margfrægi einnig verið í alfaraleið staðargesta, skólanum til hóflegs vegsauka, en þeir sem hann hafa séð geta ímyndað sér hvers konar tæki hann var á sínum tíma.
    Svo sem þegar hefur verið getið hafa vélar og verkfæri úr safninu á Hvanneyri verið lánuð á ýmsar sýningar. Þegar er nefnd þróunarsýningin í Laugardalshöll 1974, en árið 1968 munu fáein gömul verkfæri frá Hvanneyri hafa verið til sýnis á landbúnaðarsýningunni í Reykjavík. Nokkur verkfæri voru og sýnd á landbúnaðarsýningunni á Selfossi 1978.
    Fjáröflunarnefndin frá 1979 birti grein um safnið í tímaritinu Frey og nauðsyn þess að halda til haga gömlum verkfærum. Nokkur viðbrögð urðu og ábendingar komu um verkfæri en ekki var unnt að taka við þeim sakir húsnæðisleysis. Sum þessara verkfæra fást á safnið þegar úr rætist með húsnæði þess. Vorið 1988 var birt grein um safnið í blaði Hvanneyringa, en blaði þessu var m.a. dreift á öll býli í landinu. Þá fékk safnið ágæta umfjöllun í útvarpi vorið 1988. Allt hefur þetta ýtt undir áhuga manna á safninu. Áþreifanlegt dæmi um þann áhuga er m.a.

myndarleg peningagjöf 25 ára búfræðinga frá Hvanneyri til safnsins á liðnu sumri. Vonandi verður léttara að vinna málinu framgang á næstu árum.
    Þótt í þessari grg. hafi einkum verið fjallað um vélar og verkfæri sem safngripi má geta þess að nokkuð hefur verið gert að því á Hvanneyri að halda til haga myndum, veggspjöldum, bæklingum og öðrum gögnum um búvélar frá ýmsum tímum. Þar átti Ólafur Guðmundsson mikinn hlut að máli er hann starfaði sem framkvæmdastjóri verkfæranefndar ríkisins og síðar deildarstjóri bútæknideildar RALA. Allt er þetta safn óskráð enn auk þess sem mikið verk er óunnið við að taka saman frekari gögn er snerta þróun verkfæra og verktækni í íslenskum landbúnaði.``
    Herra forseti. Mér þótti eðlilegt og sjálfsagt að lesa þessa grg. hún er merk saga í raun og veru um þróun á þessum málum.
    Bændaskólinn á Hvanneyri verður 100 ára 3. maí á þessu ári, nánar tiltekið um krossmessu. Skólinn hefur alla tíð haft mikil áhrif á þróun landbúnaðar á Íslandi og haft forustu um nýjungar í landbúnaði sem nemendur frá skólanum hafa fylgt eftir til framfara í sveitum landsins. Skólinn hefur ávallt verið undir stjórn hæfustu manna sem af eldmóði hafa mótað uppbyggingu skólans. Hann hefur því hlotið viðurkenningu og virðingu landsmanna og einnig á erlendum vettvangi. Þar er nú starfandi búvísindadeild. Hún er kennslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi og lokapróf frá þeirri deild er kandídatspróf í búvísindum, svokallað BS-próf, og enn fremur bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Það er stefnt að því að starfsemi á rannsóknasviði landbúnaðar verði öll flutt að Hvanneyri í vaxandi mæli og það er öruggt verkefni næstu ára í sambandi við þá stofnun. Þessi deild á Hvanneyri og skólinn raunar í heild hefur mikil umsvif á sviði rannsókna og nýjunga í íslenskum landbúnaði, tilraunastarfsemi í nýjum búgreinum. T.d. er merkur þáttur sem þar fer fram í sambandi við matjurtatilraunir svo að eitthvað sé nefnt.
    Ég tel ástæðulaust að hafa fleiri orð um þetta. Það er ákaflega mikilvægt að okkar mati sem erum flm. að þessu frv. og raunar þm. Vesturl. allra að þetta frv. verði að lögum helst á þessu þingi. Það væri verðugur áfangi á afmælisári, á 100 ára afmæli þessa merka skóla, og ég vil geta þess aðeins hér að eins og hv. þm. sjálfsagt vita þá er Hvanneyri sístækkandi staður. Þar er kominn vísir að þéttbýliskjarna sem fer ört vaxandi, þar er að verða í raun miðstöð fyrir framfarir í íslenskum landbúnaði. Það er þess vegna mjög verðugt verkefni, um leið og þangað eru fluttar rannsóknastofnanir landbúnaðarins, að búminjasafn fyrir íslenskan landbúnað verði þar staðsett þannig að það megi verða vísir öldnum og óbornum um þá miklu sögu um íslenskan landbúnað á Íslandi og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í heild.
    Ég vil svo, herra forseti, að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.