Búminjasafn
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Hér er til umræðu 133. mál 111. löggjafarþings á þskj. 140. Það fjallar um búminjasafn sem hafi aðsetur á Hvanneyri. Flm. eru 1. og 2. þm. Vesturl.
    Ég hef í raun og veru sáralitlu við að bæta hina ítarlegu framsöguræðu hv. fyrra flm. Ég vil þó geta þess, sem hann raunar tók fram, að heimamönnum á Hvanneyri þykir ástæða til að halda upp á afmæli staðarins sem er ekkert venjulegt, þar sem skólinn fagnar aldarafmæli á krossmessu í vor. Ekki síst þess vegna kom það upp þegar þingmenn Vesturl. heimsóttu skólann á sl. hausti að eðlilegt væri að vinna að því að tryggja betur möguleika á að koma upp búminjasafni á Hvanneyri sem rekið væri í tengslum við skólann, þar á meðal við kennslu.
    Ég hygg að samstaða heimamanna um þetta mál sé mjög eindregin eins og kemur fram í bréfi skólastjóra sem hann ritaði hv. 1. þm. Vesturl. 11. nóv. sl. Þar segir hann að eins og fram hafi komið hafi Bændaskólinn á síðustu árum, bæði bútæknideild RALA og skólinn, haft í frammi ýmsa tilburði til þess að koma upp safni á Hvanneyri. Og skólastjórinn lýsir ánægju sinni með þá athygli og þann áhuga sem alþm. Vesturl. allir hafi sýnt málefnum Bændaskólans á Hvanneyri.
    Hv. fyrri flm. rakti greinargerð dr. Bjarna Guðmundssonar um verkfærasafnið á Hvanneyri. Þar kemur fram að þetta er í raun og veru ekki nýtt mál heldur mjög gamalt og það eru ýmsir áfangar sem þarna er vikið að, svo sem lagasetningin frá 1940 þegar lög tóku gildi um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins. Í 20. gr. þeirra laga var einmitt tekið fram að safni af landbúnaðarverkfærum ætti að koma upp við Bændaskólann á Hvanneyri undir umsjón verkfæranefndar. Það er minnst á úttektina á Hvanneyri 1972, þátt vélasjóðs í þessu máli og sérstaka tilraun sem gerð var til átaks í þessum málum árið 1976. Það kemur enn fremur fram í þessari greinargerð að tilraun var gerð til þess að ýta þessu máli áfram þegar skólinn átti 90 ára afmæli. En undanfarin ár hefur þetta mál því miður legið í dvala eins og kemur fram í greinargerðinni: ,,Sökklar húss verkfærasafnsins austan við verkfærahús Bændaskólans bíða frekari framkvæmda.``
    Það eru margir aðilar sem hafa áhuga á þessu máli og af greinargerðinni sést að þar hafa margir góðir menn lagt hönd á plóginn, bæði með peningagjöfum og á annan hátt. Ég vil aðeins lýsa fyllsta stuðningi mínum við þetta mál og taka undir það sem segir á bls. 8 í greinargerðinni að vonandi verður léttara að vinna að þessu máli á næstu árum en verið hefur.