Þjóðminjalög
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Flm. (Guðrún Helgadóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til þjóðminjalaga sem lagt hefur verið fram á þskj. 220 og er 188. mál þingsins. Frv. þetta flytja auk mín þessir hv. þm.: Birgir Ísl. Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Kjartan Jóhannsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Þórhildur Þorleifsdóttir.
    Frv. þetta á sér alllanga sögu. Fyrrv. hæstv. menntmrh. Birgir Ísl. Gunnarsson skipaði 19. nóv. 1987 nefnd sem skila skyldi þremur verkefnum til viðreisnar Þjóðminjasafni Íslands. Nefndin skyldi semja ný þjóðminjalög, hún skyldi móta stefnu í málefnum safnsins til næstu aldamóta og hún skyldi gera áætlun um endurbætur á húsakosti safnsins. Nefndina skipuðu alþm. Guðmundur G. Þórarinsson, Guðrún Helgadóttir, Kjartan Jóhannsson og Sverrir Hermannsson, Þór Magnússon þjóðminjavörður, Bryndís Sverrisdóttir safnkennari, Lilja Árnadóttir safnvörður og Þórunn Hafstein lögfræðingur. Formaður nefndarinnar var Sverrir Hermannsson.
    Frv. til þjóðminjalaga var lagt fram í apríl 1987 og vísað til hv. menntmn. Bárust fjölmargar umsagnir en lengra náði málið ekki á því þingi. Núv. hæstv. menntmrh. Svavar Gestsson endurskipaði nefndina þegar Sverrir Hermannsson óskaði eftir lausn frá formennsku í nefndinni eftir að hann hvarf af þingi. Tók þá Guðrún Helgadóttir við formennskunni en til liðs við nefndina komu tveir hv. þm., þau Danfríður Skarphéðinsdóttir og Óli Þ. Guðbjartsson. Hinni nýju nefnd var falið að endurskoða lagafrv. með tilliti til þeirra ábendinga sem borist höfðu og halda að öðru leyti áfram við þau verkefni sem hinni fyrri nefnd voru falin. Nefndin skoðaði gaumgæfilega allar ábendingar og brtt. sem lagðar höfðu verið fram, m.a. frá biskupinum yfir Íslandi, herra Pétri Sigurgeirssyni, borgarráði Reykjavíkur og Ragnheiði H. Þórarinsdóttur borgarminjaverði, frá Guðmundi Ólafssyni, deildarstjóra fornleifadeildar Þjóðminjasafns, frá eftirfarandi aðilum við Háskóla Íslands: Sveinbirni Rafnssyni phil. dr., prófessor í sagnfræði, Inga Sigurðssyni, dósent í sagnfræði, og Margréti Hermannsdóttur, rannsóknastjóra í fornleifafræði.
    Einnig bárust athugasemdir frá Félagi íslenskra safnamanna, frá Gunnlaugi Haraldssyni þjóðháttafræðingi og Hjörleifi Guttormssyni alþm., auk athugasemda frá nefndarmönnum. Frv. hefur einnig verið kynnt fyrir fjölda áhugamanna og sérfræðinga á ýmsum sviðum er málið varðar og auk þess mun nefndin leggja fram lista yfir þá sem farið verður fram á að hv. menntmn. Nd. sendi frv. til frekari umsagnar. Hér er um að ræða svo mikilvægt mál að nauðsynlegt er að um það sé eining, bæði meðal fræðimanna og þingmanna, svo að allir hv. þm. leggist á eitt um að það nái fram að ganga á þessu þingi.
    Verður nú stiklað á helstu nýmælum í frv.
    Gert er ráð fyrir að fimm manna þjóðminjaráð fari með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu og er þá átt við alla þætti þjóðminjavörslunnar, svo sem fornleifarannsóknir, húsavernd, þjóðháttarannsóknir,

sjóvinnuminjar, tækni- og atvinnuminjar og hvað eina er lýtur að vörslu þjóðminja. Þjóðminjaráð skal jafnframt vera stjórnarnefnd Þjóðminjasafnsins.
    Við gerð frv. varð nokkur umræða um það hvort aðskilja skyldi þjóðminjavörslu og fornleifarannsóknir en sá háttur er hafður á í nokkrum nærliggjandi löndum. Nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu að svo fámenn þjóð þarfnaðist ekki fleiri stofnana til að sinna fornleifarannsóknum og þjóðminjavörslu, heldur þyrfti fyrst af öllu aukin fjárframlög og meiri mannafla. Menn urðu sammála um að því fé sem til þjóðminjavörslu og fornleifarannsókna fengist væri betur varið til vinnu sérfræðinga en til stjórnunarstarfa og skrifstofukostnaðar. Öll þekkjum við það af reynslu hvernig stjórnunarþátturinn þenst út því fleiri sem stofnanirnar eru sem málið varða.
    Nefndin hafnaði því þeim hugmyndum sem fram komu um fornleifaráð sem aðskilið væri Þjóðminjasafni og taldi að innan safnsins rúmuðust allir þeir fagmenn sem fjárveitingavaldið leyfði að starfa á vegum þess. Nefndin leggur mikla áherslu á að safninu verði skipt í deildir þar sem starfi sérfræðingar á þeim sviðum sem hinar einstöku deildir eiga að sinna undir markvissri yfirstjórn í stað þess að orka og fjármunir dreifist á fleiri stofnanir. Slíkt skipulag kann að eiga við meðal fjölmennari þjóða en hæfir illa hér í okkar fámenna landi þar sem miklu skiptir að fjármunum og mannafla sé varið til þess sem árangur ber.
    Þá skulu starfa minjaráð í öllum kjördæmum landsins og skulu þau skipuð fulltrúum úr stjórnum allra viðurkenndra safna á minjasvæðinu ásamt minjaverði sem skipaður skal á hverju minjasvæði og starfa skal á ábyrgð þjóðminjavarðar.
    Þjóðminjavörður og minjaverðir skulu skipaðir til fimm ára í senn. Þjóðminjavörður er framkvæmdastjóri þjóðminjaráðs sem einnig er skipað til fimm ára í senn. Menntmrh. skipar ráðið, einn eftir tilnefningu deildarstjóra Þjóðminjasafns Íslands og minjavarða minjasvæðanna, Félag íslenskra safnmanna tilnefnir einn mann, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands tilnefnir einn mann, Bandalag kennarafélaga einn manna og einn án tilnefningar. Ráðherra skipar síðan formann þjóðminjaráðs úr hópi nefndarmanna.
    Sérstök athygli er vakin á því að í þessu frv. eru byggðasöfnin tengd Þjóðminjasafninu á allt annan hátt en áður hefur verið gert.
    Annar kafli frv. ber nafnið Þjóðminjasafn Íslands og byggðasöfn og fjallar um söfnin í heild en áður fjallaði sérstakur kafli um byggðasöfn landsins.
    Flm. vilja með þessu leggja mikla áherslu á að safnastarf og þjóðminjavarsla verði lifandi þáttur í menningarlífi landsbyggðarinnar ekki síður en hér á höfuðborgarsvæðinu og að samstarf safnanna verði stóraukið í framtíðinni. Þá vil ég vekja athygli á þeirri áherslu sem í frv. er að finna varðandi aukið samstarf skóla og safnanna og skyldu Þjóðminjasafns til almenningsfræðslu og samstarfs við fræðsluyfirvöld.
    Í III. kafla sem fjallar um fornleifar eru þau nýmæli að skrá skal allar fornleifar sem menn vita um

í landinu og jafnframt er bannað að skaða þær á nokkurn hátt. Leyfis þjóðminjavarðar og þjóðminjaráðs skal ævinlega leitað áður en hróflað er við fornleifum og skal það leyfi vera skriflegt.
    IV. kafli frv. fjallar um kirkjugripi og minningarmörk. Skal þjóðminjavörður ákveða friðun kirkjugripa og legsteina og annarra minningarmarka er hann telur hafa ótvírætt sögulegt eða listrænt gildi. Skal gera skrá yfir friðlýsta gripi og minningarmörk í kirkjum landsins eða í umhverfi þeirra og skulu prófastar og sóknarnefndir hafa þær undir höndum. Þá skal Þjóðminjasafn eiga forkaupsrétt að slíkum munum í einkaeign ef seldir eru.
    V. kafli frv. fjallar um friðun húsa og annarra mannvirkja og er kveðið á um að öll hús sem reist voru fyrir 1850 skuli friðuð, svo og allar kirkjur er byggðar voru fyrir 1918. Fellt hefur verið niður að greina friðun í A- og B-flokk eins og áður var. Þess í stað skal húsfriðunarnefnd gera grein fyrir ástæðum til friðunar í hverju einstöku tilviki. Menntmrh. skipar húsfriðunarnefnd til fimm ára í senn sem í eiga sæti fimm menn. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningu þjóðminjaráðs, einn samkvæmt tilnefningu Arkitektafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga og hinn fimmti er þjóðminjavörður. Formann skipar ráðherra úr hópi nefndarmanna.
    Hér hefur þá verið stiklað á helstu nýjungum sem í frv. þessu er að finna þó fleiri séu. Verði þetta frv. að lögum falla úr gildi hin fyrri þjóðminjalög, nr. 53/1969, og lög nr. 42/1975, um breytingu á þeim lögum. Í frv. er gert ráð fyrir endurskoðun hinna nýju laga eigi síðar en að þremur árum liðnum frá gildistöku þeirra.
    Því er illt að neita að Þjóðminjasafn Íslands hefur um langt skeið verið allfjarri landsmönnum og allt of lítið frá því heyrst. Jafnvel Reykvíkingar hafa ekki gert komur sínar tíðar þangað og mun mikill fjöldi þeirra sem sótt hafa safnið á undanförnum árum vera erlendir ferðamenn. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður og þá fyrst þær að fjárveitingavaldið hefur ekki sýnt safninu og starfsemi þess sérstakan áhuga og safnmenn e.t.v. verið of hæverskir í kröfum sínum. Húsakostur safnsins hefur verið þröngur og allt þar til á síðasta ári hýsti safnið einnig Listasafn Íslands. Þegar Listasafnið flutti í hið nýja og glæsilega húsnæði við Fríkirkjuveg losnaði verulegt rými í húsinu en það er með öllu ónothæft vegna húsleka og steypuskemmda. Þarfnast nú húsið viðgerða sem kosta munu hundruð milljóna króna.
    Ég hlýt, virðulegi forseti, að lýsa undrun minni yfir því hvernig þetta hús, Þjóðminjasafn Íslands, sem þjóðin byggði í tilefni af stofnun lýðveldis á Íslandi, hefur verið látið grotna niður svo að það er nú nánast ónothæft. Í reglugerð um embætti húsameistara ríkisins, nr. 259 frá 16. ágúst 1973, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verksvið embættis húsameistara ríkisins, sem heyrir undir forsrn. skv. 2. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, er tvíþætt: Í fyrsta lagi umsjá

(viðhald, breytingar) með þeim opinberu byggingum sem greindar eru í 2. gr. Í öðru lagi frumathugun og áætlunargerð (sbr. II. og III. kafla laga nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda) varðandi opinberar byggingar, eftir því sem um semst milli húsameistara ríkisins og eignaraðila.``
    Og í 2. gr. segir hver þessi hús eru sem embætti húsameistara ríkisins á að hafa í umsjá sinni. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þær opinberu byggingar, sem falla undir umsjá embættis húsameistara ríkisins, sbr. 1. gr., eru þessar: Embættisbústaður forseta Íslands, gestahúsnæði ríkisins, Alþingishús og Hæstiréttur, skrifstofuhúsnæði Stjórnarráðsins, safnahús í Reykjavík, Þjóðleikhús.``
    Embættisbústaður forseta Íslands, Þjóðleikhúsið og eitt af safnahúsum í Reykjavík, Þjóðminjasafn Íslands, þarfnast nú viðgerða fyrir mörg hundruð millj. kr. ef ekki milljarða til þess að þessi húsakostur sé nothæfur og mikilsverðum menningarverðmætum verði borgið. Það getur ekki verið annað en eðlileg spurning hverju það sæti að svo illa hefur verið fylgst með ástandi þessara húsa að til svo umfangsmikilla viðgerða þurfi að koma á sama tíma. Ég vil hvetja hv. alþm. til að huga að þessu og gera sér ferð í þessar byggingar svo að þeir geri sér grein fyrir hvernig komið er fyrir þessum glæsilegu byggingum sem öll þjóðin var eitt sinn svo hreykin af. Væri ástæða til að hv.
fjvn. færi fram á úttekt húsameistaraembættisins á þeim húsakosti sem embættið á samkvæmt reglugerð að annast um svo að tryggt sé að opinberar byggingar fái ekki að drabbast niður þar til þær eru nánast ónothæfar.
    Vitanlega hefur þessi þröngi húsakostur dregið úr getu starfsmanna til að hafa sýningar í húsinu sem laðað geta almenning að safninu. Því er heldur ekki að neita að menn hafa nú allt aðrar hugmyndir um söfn en áður var þegar þau voru í hugum fólks fyrst og fremst geymslustaðir fyrir það sem geyma átti og tóku litlum breytingum ár eftir ár. Gilti þetta um öll söfn, einnig bókasöfn. Nú eru viðhorfin allt önnur. Nútímasafnamenn líta á söfn sem lifandi þátt í daglegu menningarstarfi þar sem fræðsla og lifandi starf í tengslum við aðra þætti menningarlífs í landinu er skylda safnanna. En þetta verður ekki gert nema fjármagn fáist til þess og á það hefur skort.
    Nærtækt dæmi um hvernig laða má unga og aldna að safni eins og t.d. Þjóðminjasafni er sýning Þjóðminjasafnsins á gömlu íslensku jólasveinunum og þeirra háttum nú rétt fyrir síðustu jól. Þúsundir barna komu í fylgd með kennurum og foreldrum og áttu ánægjulega og fróðlega stund í Þjóðminjasafninu. Slíkar sýningar þyrftu að vera fleiri á tímum firringar og virðingarleysis fyrir menningararfi, landi, þjóð og tungu. Þjóðminjasafn Íslands þarf að verða útvörður varðveislu þjóðararfs okkar á tímum allrar þeirrar lágkúru sem yfir landsins börn er nú hellt.
    En Þjóðminjasafn má heldur ekki hætta að safna. Tímans rás gerir smám saman hversdagslega hluti okkar daglega lífs að minjum um liðna tíð. Ný tækni breytir atvinnutækjum og áhöldum í leifar liðins tíma

og sögu horfinna lífshátta. Því verður stöðugt að hyggja að því að slíkt fari ekki forgörðum og hverfi með öllu með þeim sem það þekktu. Þjóðminjasafn hefur að þessu leyti hliðstætt verkefni og skólar landsins, þ.e. að flytja þekkingu á menningu og sögu þjóðarinnar frá kynslóð til kynslóðar svo að sérhver kynslóð þekki uppruna sinn og finni sér stað í tilverunni en velkist ekki í vafa um á hverju menning okkar er byggð, á því af hverju við erum hér. Þekking á lífi horfinna kynslóða er grundvöllur allrar framvindu íslenskrar menningar, grundvöllur þess þjóðarmetnaðar sem er andhverfa heimskulegrar þjóðrembu illa menntaðra þjóða.
    Hæstv. forseti. Eftir áratuga flæking reisti íslenska þjóðin hús það sem Þjóðminjasafn Íslands byggir nú. Þjóðarauðurinn hefur margfaldast síðan það átak var unnið. Flm. þessa frv. til nýrra þjóðminjalaga skora á alla hv. alþm. að taka höndum saman um veg og viðgang Þjóðminjasafns Íslands, endurreisn hússins sjálfs og eflingu starfs þess í framtíðinni. Um það getur ekki verið neinn pólitískur ágreiningur. Skilyrði þess að það verk megi takast er að setja Þjóðminjasafni Íslands ný lög. Flm. þess frv. til nýrra þjóðminjalaga, sem nú er mælt fyrir, eru fulltrúar allra þeirra stjórnmálaflokka er nú sitja Alþingi. Við treystum því að hið háa Alþingi veiti frv. brautargengi á því þingi er nú situr, því að mikið liggur við að hægt sé að hefjast handa um endurskipulagningu safnsins.
    Ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, með því að fela hv. menntmn. þessarar deildar frv. til fyrirgreiðslu að umræðunni lokinni.