Þjóðminjalög
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Flm. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og ég tek undir það með hv. 18. þm. Reykv., sem hér talaði síðast, að það er leitt til þess að vita hversu fáir þingmenn eru hér viðstaddir, þó fyrir komi nú að þeir séu færri, því að það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það er komið að Alþingi að gera bragarbót á ástandi menningarstofnana í landinu. Því miður er það verkefni næstum orðið óyfirstíganlega stórt ef tekið er inn í það dæmi ástand í skólamálum landsmanna.
    En hvað um það, ekki skal ég tefja tíma hv. þm. með umræðum um þau málefni í heild. Ég vil aðeins leitast við að gera athugasemd eða taka þátt í þeirri umræðu sem hér var hafin, fyrst af hv. 1. þm. Vesturl., um efasemdir um hvort ekki beri að gera fornleifarannsóknir að sjálfstæðari einingu og aðskilja þær frá þjóðminjasafni. Ég held að það sé ónauðsynlegt og einungis til skaða. Ég vil vekja athygli á að í 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. frv. til þjóðminjalaga, þegar búið er að telja upp sem ég gerði hér áðan hverjir skuli skipa þjóðminjaráð, þá segir svo, með leyfi forseta: ,,Að jafnaði skulu a.m.k. tveir framangreindra þjóðminjaráðsmanna hafa menntun á sviði fornleifarannsókna.`` Ég held að það sé með öllu ástæðulaust að aðskilja þennan þátt. Auðvitað er undirstaða þess að þjóðminjavarsla og fornleifarannsóknir fari hér gæfulega fram sú að sérfræðingar í þessum greinum starfi með öðrum og menn taki höndum saman um að vinna þessi mál í einni heild.
    Varðandi það sem hv. 18. Reykv. sagði um tillögu Kvennalistans um umhverfismálaráðuneyti og afskipti þess af fornleifarannsóknum, þá hef ég um það miklar efasemdir. Við skulum ekki gleyma því að fornleifarannsóknir og þjóðminjavarsla í öðrum löndum en á Íslandi eru töluvert öðruvísi en hér. Inni á verksviði þjóðminjasafna á Norðurlöndum, ef við tökum næstu löndin hér í kringum okkur, er fjallað að verulegu leyti um verndun gamalla húsa, halla sem eru mörg hundruð ára gömul mannvirki sem auðvitað þarf að halda við. Hér er um allt annað að ræða. Sá þáttur hjá okkur hér á Íslandi er svo ótrúlega lítill, þannig að ég held og er næstum viss um að hér á ekki það sama við og þar.
    Ég er þeirrar gerðar að ég tek meira mark á því sem gert er heldur en því sem talað er um og þess vegna sé ég ekki ástæðu til að fara að skipta þessu starfi niður í fleiri en eina stofnun, hverja með sinni yfirbyggingu sem óhjákvæmileg er, tölvukerfum og öðru slíku sem til þarf til að stjórna málum sem þessum. Ég held því að það hljóti að vera hagræðing og ég treysti hv. 1. þm. Vesturl., sem sæti á í hv. fjvn., til að vera samstiga mér í því að vinna gegn útþenslu báknsins. Við skulum heldur nota það fé sem fæst til verka sérfræðinga í þessum greinum og vitaskuld eiga allir sérfræðingar innan þessa starfssviðs rými innan Þjóðminjasafns þannig að ég held að það sé engin ástæða til að færa þá yfir í nýjar stofnanir. Það kann að vera íhaldssemi af minni hálfu en

einhvern veginn finnst mér það órjúfanlegt frá menntamálum, og þar með menntamálaráðuneyti, að þjóðminjavarsla og fornleifarannsóknir heyri undir það ráðuneyti.
    Aðeins vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. 1. þm. Vesturl. um aðgengi fatlaðra að Þjóðminjasafni. Hafi ég skilið hann rétt þá fannst mér hann tala eins og það væri ekki enn fyrir hendi og vil þá leiðrétta það. Þar er nú lyfta sem á að gera fötluðu fólki kleift að fara milli hæða á safninu þannig að ég held að þau mál séu komin í lag. Það kann að vera að það hafi tekið lengri tíma en til stóð, en það á alla vega að vera í lagi núna. Ég held að mér sé áreiðanlega óhætt að fullyrða það.
    Að öðru leyti skal ég taka undir flest það sem hv. ræðumenn sem hér hafa talað sögðu. Vitaskuld er þetta frv. að hluta málamiðlun eins og öll góð frv. og vel unnin. Ég taldi upp hér áðan allan þann fjölda fólks sem um þetta frv. hefur fjallað og vil reyndar nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum Þjóðminjasafns fyrir mikla hjálp við samningu þess, svo og öllum þeim ótal mörgu sem leitað var til um ráð og leiðbeiningar og brugðust vel við því og lögðu í það verulega vinnu að frv. mætti vera sem best úr garði gert.
    Ég treysti því að lokum, hæstv. forseti, að hv. menntmn. --- og nú sýnist mér aðeins einn hv. þm. sem þar situr vera hér í salnum, en ég vil þá biðja hv. 18. þm. Reykv. að bera hv. menntmn. þau skilaboð að hér er um að ræða afrakstur vinnu stjórnskipaðrar nefndar sem tveir hæstv. ráðherrar hafa skipað. Og ég get ekki að því gert að ég lít á það sem mikla vanvirðingu við störf þingmanna ef þinginu er ekki alvara með það að nú þegar þetta frv. hefur hlotið meðferð í nefnd, þá standi menn saman um það að það nái fram að ganga á þessu þingi. Vitaskuld erum við tilbúin til að taka við öllum ráðum og leiðbeiningum enn á ný, en ég treysti því fyrir hönd flm. allra að þinginu sé alvara í því að við förum ekki héðan af þessu þingi án þess að hafa gefið landi voru ný þjóðminjalög.
    Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.