Þjóðminjalög
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður mikið lengur, en ég vil endilega láta koma hér fram skýringu á þeirri ábendingu sem ég vildi koma til skila í sambandi við að það væri heppilegra að aðskilja frekar en kemur fram í þessu frv., þ.e. fornleifavörsluna og það sem því tilheyrir og minjavörslu. Það er ekki endilega það að ég sé að meina að það eigi að fara að setja upp einhverja nýja sérstofnun í landinu. Þarna er hægt að koma þessu fyrir þó að þetta sé aðskilið sérstaklega sem verkefni sem verður að framkvæma undir e.t.v. öðrum formerkjum en minjasöfnun almennt er og minjavarsla. Ég held að það þurfi ekki að deila um það. Það er svo augljóst mál að ég held að það hljóti allir að skilja það. En ég vildi beina því til menntmn., sem fær þetta mál til meðferðar, að skoða það betur en kemur fram í frv. Það er einnig upplýst hér að þeir sem tóku þátt í þessu nefndarstarfi voru með skiptar skoðanir um þetta og þar af leiðandi er ekkert óeðlilegt að leggja áherslu á það að þetta mál fái vandaða meðhöndlun í hv. menntmn. því að við erum hér að semja ný þjóðminjalög sem eiga að standa um langa tíð. Einhvers staðar stendur að fornminjar og annað hlaupi ekki frá okkur, en alla vega er ástæða til þess að Alþingi skoði vel þær athugasemdir sem fram hafa komið og fram koma í sambandi við þetta mál.
    Í sambandi við síðustu athugasemd hv. frsm., þá fer það ekkert á milli mála, við getum rakið það, ef hv. þm. vill kynna sér, að það voru sérstakar fjárveitingar til þess að koma aðgengi fatlaðra í lag við Þjóðminjasafnið í þrjú ár samfleytt, sérmerkt til framkvæmda, en ekki hreyft við því á þessum árum þannig að það kæmist í lag. Það er aðeins núna á síðustu tímum sem þetta er orðið í lagi enda þótt ekki sé hægt að segja að það sé fullkomið. En það tók allan þennan tíma vegna þess að framkvæmdarvaldið framkvæmdi ekki það sem Alþingi hafði samþykkt.