Svæði á náttúruminjaskrá
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Sigrún Helgadóttir):
    Virðulegi forseti. Árið 1907 skrifaði Matthías Þórðarson, sem síðar varð þjóðminjavörður, stutta grein í tímaritið Skírni. Hann segir þar frá fyrirhuguðu frv. um verndun fornminja, þ.e. sögustaða, fornrústa og fleira slíks. Síðan segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Auk alls þessa er margt það á landi voru, sem er einkennilegt fyrir það, og merkilegt fyrir sakir fegurðar, sérkennilegs eðlis eða einhvers annars. Svo er um marga fagra staði og mörg fyrirbrigði af náttúrunnar völdum hér á landi, sem það löngum hefur verið frægt fyrir.``
    Hann nefnir marga staði svo sem Þingvelli, Geysi, Ásbyrgi o.fl. Síðan heldur hann áfram, með leyfi forseta:
    ,,Mörgum þess háttar náttúrumenjum hefur verið fargað úr eign landsmanna eða spillt með ýmsu móti, t.d. Almannagjá með vegagerð --- og það þeim hluta hennar sem jafnframt var sögustaður. --- Geysir seldur Englendingi, Strokkur stíflaður og skógar höggnir niður. Þetta hefur raunar af ýmsum ástæðum mælst mjög illa fyrir sem betur fer, en vér getum þó jafnan átt á hættu að þessari ósvinnu haldi áfram. Einkum má búast við, að erlendir auðmenn og brallarar reyni að komast yfir fossana, en að selja þá útlendingum væri oss þjóðarskömm og gæti valdið oss stórtjóni bæði í hagsmunalegu og öðru tilliti. Þess vegna er nauðsynlegt að menn hafi vakandi áhuga á að vernda þessa merkisstaði og náttúrugersemar landsins frá eyðileggingu og viðsjárverðri afhendingu. En hvernig eigum við að fara að?``
    Næstum hálfri öld eftir að Matthías skrifaði sína hugvekju voru samþykkt í fyrsta sinn á Íslandi almenn lög um náttúruvernd. Samkvæmt þeim og náttúruverndarlögum frá 1971 hafa nú verið friðlýst 69 svæði og 273 eru á náttúruminjaskrá sem þýðir að Náttúruverndarráð telur að huga beri að friðlýsingu þeirra á einn eða annan hátt. En getur verið að sú ósvinna og þjóðarskömm sem Matthías Þórðarson talaði um fyrir 82 árum sé enn við lýði? Hvernig er fylgst með þessum stöðum? Getur verið að einhverjir þeirra séu seldir jafnvel erlendum auðmönnum og bröllurum þótt með óbeinum hætti sé? Um þetta spyr ég hæstv. menntmrh. á þskj. 466.