Náttúruverndarlög
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Sigrún Helgadóttir):
    Virðulegi forseti. 1. gr. náttúruverndarlaga nr. 47/1971 hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og náttúru þannig að ekki spillist að óþörfu líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft. Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstakt eða sögulegt. Lögin eiga að auðvelda þjóðinni umgengni við náttúru landsins og auka kynni af henni.``
    Hér er ekki lítið hlutverk, en á þskj. 467 er hæstv. menntmrh. spurður um lítið brot þessa hlutverks Náttúruverndarráðs, þ.e. um eftirlit með mannvirkjagerð. Mjög mikilvægt er við alla mannvirkjagerð að aðgát sé höfð. Taka þarf tillit til útlits mannvirkja þannig að þau falli vel í landið og særi ekki augað.
    Þeir eru margir gestirnir við Gullfoss á undanförnum árum sem hefur gramist háspennulína sem fer yfir ána nokkru ofan við fossinn á svipaðan hátt og okkur gremdist ef slett væri rauðri málningu á styttu Jóns forseta hérna fyrir utan eða eitthvert annað manngert listaverk. Ekki er síður nauðsynlegt að fylgjast með því að mannvirki eða sú starfsemi sem þar fer fram spilli ekki lífríki, t.d. mengi ár og vötn. Mikilvægt er að hægt sé að fylgjast með strax á skipulagsstigi til að koma í veg fyrir mistök sem geta verið dýr og valdið leiðindum. Víða erlendis er það lögbundið að áður en farið er í allar meiri háttar framkvæmdir sé gerð nákvæm úttekt á hugsanlegum áhrifum framkvæmdanna á umhverfið. Ljóst er að oft má með framkvæmdum valda óbætanlegum spjöllum á umhverfi sem verða ekki aftur tekin. Til þess að koma í veg fyrir það þarf að fylgjast vel með. Til þess þarf að vera góð aðstaða og gott samband við framkvæmdaaðila og skipulagsyfirvöld út um allt land og síðast en ekki síst starfsfólk með sérþekkingu.
    Ég vona að í svari ráðherra komi fram að svo sé því land okkar og náttúra eru of dýrmæt til þess að svo sé ekki.