Kynferðisbrot
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Sólveig Pétursdóttir):
    Hæstv. forseti. Á þskj. 469 hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um kynferðisbrot. Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um kynferðisbrot og þá ekki síst gagnvart börnum og ljóst er að allur almenningur lítur þau mál mjög alvarlegum augum. Túlka má þessa umræðu sem nokkurs konar ákall til íslenska réttarkerfisins um að bregðast ekki hlutverki sínu þegar slík afbrot eru annars vegar. Þess eru jafnvel dæmi að menn hafi haft tækifæri til að fremja fjölda kynferðisbrota á löngu tímabili og getur slíkt haft það í för með sér að almenn virðing fyrir lögum þverri.
    Með hliðsjón af þessu lagði ég fram á síðasta þingi frv. til l. um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, um 202. og 203. grein. Þessu frv. var vísað til ríkisstjórnar þar sem þegar stæði yfir heildarendurskoðun á þeim ákvæðum hegningarlaganna sem snerta kynferðisbrot. Var vísað í þessu sambandi sérstaklega til svokallaðrar nauðgunarmálanefndar sem skipuð var af þáv. dómsmrh. 12. júlí 1984. Í október sl. skilaði þessi nefnd af sér störfum með ítarlegri greinargerð og frv. til breytinga á hegningarlögum en aðeins XXII. kafla þeirra, þ.e. ákvæði 194--199. Í þessu frv. eru lagðar til mjög mikilvægar réttarbætur, enda þótt frv. nái ekki í heild sinni yfir þau lagaákvæði sem ég vitnaði til áðan og gerð var tillaga um breytingu á í frv. því er ég lagði fram á síðasta þingi. Engu að síður eru þetta mjög mikilvægar breytingar á hegningarlögunum sem nefndin leggur til, en helstu markmið eru þessi:
    1. Ákvæði um kynferðisbrot verða ókynbundin.
    2. Samræming ákvæða um kynferðisbrot í anda ríkjandi viðhorfa nú á dögum og með hliðsjón af breytingum annars staðar á Norðurlöndum.
    3. Gleggri skil verði milli verknaðarlýsinga en í gildandi ákvæðum, sérstaklega varðandi mörkin milli nauðgunar og annarrar kynferðislegrar nauðungar.
    4. Refsivernd er almennt aukin með því að leggja ýmsar kynferðisathafnir að jöfnu við samræði.
    5. Refsivernd barna og ungmenna er styrkt frá því sem nú er.
    Hér er því um mjög mikilvægt mál að ræða. Því spyr ég hæstv. dómsmrh.:
    ,,Hyggst ráðherra leggja fram frv. til l. um breytingu á XXII. kafla hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um kynferðisbrot, í samræmi við álit þeirrar nefndar sem skipuð var af dómsmrh. 12. júlí 1984 samkvæmt sérstakri þingsályktun og nýlega lauk störfum?``