Lokun sendiráða
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Spurt er hvort utanrrh. hyggist beita sér fyrir því að einhverjum sendiráðum Íslendinga erlendis verði lokað í sparnaðarskyni og þá hverjum. Svarið er að þessari spurningu er ekki hægt að svara með einföldu jái eða neii að svo stöddu. Svarið er það að nú er unnið að endurskoðun á starfsemi, starfsháttum, hlutverki utanríkisþjónustunnar með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á starfsháttum ráðuneytisins við það að það breyttist úr utanríkisráðuneyti í utanríkisviðskiptaráðuneyti við tilkomu seinustu ríkisstjórnar. Það sem ég get á þessu stigi máls upplýst um þetta mál er eftirfarandi:
    Snemma í októbermánuði fól ég Útflutningsráði að vinna greinargerð fyrir ráðuneytið þar sem þessi samtök útflutningsaðila á Íslandi legðu mat á hvernig utanríkisþjónustan í núverandi mynd mundi nýtast útflutningsgreinum okkar Íslendinga, markaðsöflun og þjónustu við viðskiptaaðila á helstu markaðssvæðum. Og í annan stað var þess óskað að Útflutningsráð legði fram hugmyndir og tillögur, ábendingar, um breytingar sem þeir sæju ástæðu til að leggja fyrir ráðuneytið til skoðunar.
    Útflutningsráð hefur skilað slíkri álitsgerð. Það gerðist 16. nóv. sl. og síðan hefur sú álitsgerð verið til skoðunar ásamt með því að unnið hefur verið að málinu innan ráðuneytis án skipunar nokkurrar formlegrar nefndar.
    Þess skal getið að íslenska ríkið heldur nú uppi 12 sendiráðum með erlendum þjóðum sem fyrst og fremst annast pólitísk samskipti við erlendar ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir. Utanríkisþjónustan er að sjálfsögðu að mestu leyti byggð á erlendum fyrirmyndum um slíka starfsemi, en í álitsgerð Útflutningsráðs kemur m.a. fram að erlendar fyrirmyndir henti okkur að mörgu leyti ekki vegna sérstöðu íslensku þjóðarinnar.
    Í viðræðum um málið hefur áhersla verið lögð á það að á sl. árum hafa orðið mjög verulegar breytingar á utanríkisviðskiptum okkar Íslendinga. Þær einkennast helst af því að viðskipti við Efnahagsbandalagið hafa farið stórvaxandi, þ.e. hlutdeild af heildarútflutningi sem fer til Efnahagsbandalagsríkja hefur vaxið mjög, einkum og sér í lagi við inngöngu Spánar og Portúgals í bandalagið. Ef saman eru tekin Efnahagsbandalagsríki og EFTA-ríki er sú hlutdeild orðin afar mikil. Á sama tíma er þess að geta að viðskipti við Japan og Asíulönd hafa einnig farið vaxandi og það eru að gerast breytingar sem gefa ástæðu til þess að ætla að þau viðskipti muni enn vaxa stórlega. Á sama tíma hefur útflutningur til Bandaríkjanna minnkað mjög verulega á undanförnum árum og enn fremur dregið talsvert úr Austur-Evrópuviðskiptum. Þetta allt saman ásamt með breytingum á starfsháttum ráðuneytisins sjálfs er ástæða til að endurskoða starfshættina, einkum og sér í lagi með þeim hætti að leggja mat á reynsluna af starfi viðskiptafulltrúa sem hafa starfað við sendiráð í samráði við samtök útflutningsatvinnuveganna á þremur stöðum, þ.e. í New York, Kaupmannahöfn og Frankfúrt eða á þýska

markaðssvæðinu.
    Af hálfu Útflutningsráðs hefur verið lögð á það áhersla að auka beri þjónustu utanríkisþjónustunnar við markaðsöflun og útflutningshvetjandi aðgerðir, auka eigi samstarf við einstök samtök útflytjenda og byggja á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður með starfi útflutningsfulltrúa. Þeirra hugmyndir snúast um það að ástæður séu til þess að leggja mismikla áherslu á markaðssvæði. Þannig beri að leggja aukna áherslu á starf utanríkisþjónustunnar á Evrópumarkaðssvæðinu og í Japan og reyndar víðar í Austur-Asíu og breyta starfsháttum eða verksviði sumra sendiráða. Þannig er sem dæmi hægt að nefna að það er lagt til að lögð verði verulega aukin áhersla á markaðsöflun og viðskiptaþjónustu í Suður-Evrópu, á Spáni, Portúgal og Ítalíu, og nokkrar tillögur eru um það að auka samstarfið við einstakar þýðingarmiklar alþjóðastofnanir eins og t.d. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna í Róm.
    Þá hafa á grundvelli þessa skjals orðið miklar umræður um það hvort tímabært væri að opna sérstakt sendiráð í Japan fyrir Austur-Asíu. Þær umræður eru ekki til lykta leiddar, en eins og ég segi til þess að draga saman niðurstöður: Þessi mál eru í skoðun út frá þessum grundvallarsjónarmiðum, en niðurstöður liggja ekki fyrir enn. Jafnframt hefur þeirri skoðun verið hreyft, og er rétt að geta þess, í álitsgerð Útflutningsráðs að eðlilegt sé að draga saman seglin á þeim markaðssvæðum sem ekki er sérstök ástæða til þess að opinberir aðilar styrki sérstaklega.