Lokun sendiráða
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það er misskilningur ef skilja mátti það af máli hv. fyrirspyrjanda að fallið sé frá þeim hugmyndum um sparnað í starfsemi utanríkisþjónustunnar sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til og hreyft var af fyrrv. fjmrh. Við undirbúning fjárlagafrv. voru af hálfu ráðuneytisins á sl. hausti lagðar fram margvíslegar tillögur um slíkan sparnað. Þar á meðal var gerð á því úttekt hvaða sparnaði mætti ná, ýmist um lokun sendiráða eða samdrátt í starfsemi sendiráða, tveggja sendiráða á Norðurlöndum, og jafnframt hvernig það fé mundi nýtast betur með öðrum hætti við aukna starfsemi að því er varðar annars vegar Evrópubandalag og hins vegar Austur-Asíu. Jafnframt voru undirbúnar tillögur um annan umtalsverðan sparnað, t.d. í sambandi við lögreglu- og tollstjóraembætti á Keflavíkurflugvelli, starfrækslu víkingasveitar o.s.frv. Og í raun og veru fólst í afgreiðslu fjárlaga verulegur sparnaður, á sumum sviðum 30% að raungildi, t.d. að því er varðar starfsemi lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli.
    Nú eru byrjaðir fundir með fjmrn. og hæstv. fjmrh. um það að framfylgja stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um frekari samdrátt, sérstaklega að því er varðar útgjöld vegna launa, yfirvinnu, risnu og ferðakostnaðar og utanrrn. hefur þegar lagt fram tillögur um sparnað á þeim sviðum einum saman, sem eru um 5,6% af útgjöldum þessa ráðuneytis og eru upp á 10,8 millj. fyrir utan þann sparnað sem verið er að útfæra að því er varðar rekstur lögreglustjóra- og tollstjóraembættisins.
    Að því er varðar breytingar á starfsemi sendiráða liggja fyrir álitsgerðir og drög, áætlanir um þann sparnað sem ná mætti fram, sem eru að vísu ekki í aðalatriðum sparnaðartillögur. Þær eru tillögur um það að draga saman útgjöld á sumum svæðum, en verja þeim aftur til þess að auka starfsemi á öðrum sviðum. Þessar tillögur eru til vinnslu, en það var mat manna á sl. hausti miðað við hversu lítill tími var til stefnu við afgreiðslu fjárlaga að þær þyrftu nánari undirbúnings við, m.ö.o. að það þyrfti að endurskoða starfsemi utanríkisþjónustunnar í heild áður en þeim yrði hreyft með formlegum hætti. Og það er sú vinna sem nú fer fram, en það hefur engu verið gleymt í þessum tillögum, enda eru þær á góðum vegi.