Endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Í raun og veru tók fyrirspyrjandinn af mér ómakið. Það væri betur að fleiri sem spurningar bera upp í þessum sal svöruðu þeim sjálfir því svar mitt við fsp. hv. 17. þm. Reykv. á þskj. 413 kemur auðvitað fram í frv. til breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands sem nú er til meðferðar í Ed. Alþingis. Þar eru gerðar tillögur um þær breytingar sem ég tel að svo stöddu að gera þurfi á lögunum um Seðlabanka Íslands. En auðvitað er það rétt að engin stofnun er eilíf, ekkert stjórnarfyrirkomulag er tilgangur í sjálfu sér, þess vegna hollt að menn velti því jafnan fyrir sér hvort eitthvað megi þar betur fara. En til að gera langt mál stutt er svarið fengið í því frv. sem liggur fyrir þinginu.