Endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Það fór sem mig grunaði að ráðherrann telur að málinu sé svarað með þessu frv. og hvað stendur þá upp úr af þessu litla máli? Það stendur það upp úr að það var ekkert að marka það sem stóð í áramótagrein hæstv. formanns Alþfl. og utanrrh. Það var ekkert í henni sem viðskrh. flokksins gat fengið sig til þess að taka með í þá lagabreytingu á seðlabankalögunum sem hann hefur lagt hér fram. M.ö.o.: þetta var allt tóm markleysa og eintóm vitleysa væntanlega.
    Ég hygg að það sé sjaldgæft, þó það hafi að vísu nokkrum sinnum komið fyrir á núverandi þingi, að ráðherrar geri aðra ráðherra svona ómerka orða sinna ef ég mætti orða það svo, taki jafnlítið mark á því sem aðrir ráðherrar segja um málefni viðkomandi ráðherra og hér er um að ræða. Ég tel hins vegar fulla ástæðu til að vekja athygli á því að viðskrh. hefur með þessu frv. sínu og með því sem hann hér sagði lýst því yfir óbeint að yfirlýsingar utanrrh. um Seðlabankann í áramótagrein hafi verið marklausar með sama hætti og hann lýsti því yfir að yfirlýsingar sama ráðherra um starfsmenn bankans sem voru til umræðu í síðustu viku hafi verið marklausar. Ég tel að það sé fengur að því fyrir þingmenn og fyrir þjóðina að fá þetta staðfest.