Endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Bara örstutt athugasemd. Ég bendi hv. 17. þm. Reykv. á það í allri vinsemd að hann hefur dregið allt of víðtækar ályktanir af því svari sem hér var gefið við hans beinu fsp. Eins og kom glöggt fram í því sem ég sagði rétt áðan liggur að svo stöddu ekki annað fyrir um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands en þær tillögur sem ég hef flutt hér í þinginu, en það breytir því ekki að það er nauðsynlegt að menn hugsi á hverjum tíma um grundvallaratriði í skipulagi stofnana eins og Seðlabankans og velti því fyrir sér hvað má þar betur fara. Ég skil orð hæstv. utanrrh. einmitt í þeim anda. Ég leyfi mér líka að minna hv. þm. á að sennilega er ekki líflegri umræða um hlutverk Seðlabankans innan annarra flokka en einmitt Sjálfstfl. Ég veit að hv. þm. kannast mjög vel við málið og harma að enn skuli nú fjarstaddur 8. þm. Reykv. hv. sem mjög hefur látið sér annt um málefni Seðlabankans þannig að þeir gætu skipst hér á skoðunum, hv. 17. og hv. 8. þm. Reykv.