Endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Hér er enn á ný verið að reyna að færa umræður um þessa stofnun inn á brautir sem ekki eru viðeigandi. Menn geta haft fullkomlega eðlileg og lögmæt rök fyrir þeirri skoðun að við eigum ekki að hafa neinn Seðlabanka. Sú skoðun jafngildir að vísu því að við eigum þá ekki að hafa neina íslenska krónu, en fyrir henni má færa rök. Það er auðvitað allt annað mál en það sem ég hef hér verið að spyrja um.
    Ég hef verið að spyrja um hvort ætti að taka mark á því sem annar valdamesti ráðherrann í ríkisstjórninni hefur sagt um málefni þessarar stofnunar. Það vill þannig til að hinir flokksformennirnir sem sitja í ríkisstjórninni, formaður Framsfl. og Alþb., hafa margítrekað látið í ljós svipaðar skoðanir á starfsemi þessarar stofnunar og þessa banka. Þess vegna hefði maður ekki haldið að hann hefði neinni sérstakri andstöðu að mæta innan ríkisstjórnarinnar þegar hann fjallar um þessi mál nema þá hjá hæstv. viðskrh.
    Ég tel að það sé búið að staðfesta að þegar utanrrh. fjallar um málefni þessarar stofnunar eigum við almennt ekki að taka mark á því og ég biðst undan því að slíkum ummælum ráðherra og ráðandi manna sé blandað við umræður á akademísku plani, hvort sem það er innan Sjálfstfl. eða annars staðar, um hvort það sé yfirleitt þörf fyrir þessa stofnun eða ekki. Meðan hún er starfandi verða menn að gera svo vel að tala um hana af nokkurri ábyrgð þannig að mark sé á takandi.