Umhverfisráðuneyti
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Sigrún Helgadóttir:
    Virðulegi forseti. Ef horft er til aldurs móður jarðar, jafnvel þótt aðeins sé tekið mið af tíma þróunar mannsins á jörðinni, er örskotsstund síðan við áttuðum okkur á að jörðin hefur takmarkaða stærð og hver auðlind hennar er aðeins til í takmörkuðu magni. Jafnhliða því sem þessi sannleikur hefur verið að renna upp fyrir okkur hafa lög og reglur verið sett um umgengni fyrir hverja auðlind fyrir sig, gróður, dýr, land, haf, námur, loft, vatn, orku o.s.frv.
    Nú hefur þekkingaröflunin borið okkur á þann stað að við gerum okkur grein fyrir að jörðinni er ekki þannig skipt niður í afmörkuð hólf heldur myndar hún eina samfellda heild, er eins og einn stór líkami. Líkamar eru m.a. höfuð, búkur og útlimir, lungu, lifur, hjarta og magi og öll verða þessi líffæri að vinna saman. Veikist eitt hefur það áhrif á allan líkamann. Og sé eitt hinna mikilvægu líffæra fjarlægt deyr líkaminn þótt öll önnur líffæri séu heil. Það er skemmtilegt og reyndar líka lærdómsríkt að viðurkenna að nú eru vísindamenn með rannsóknum sínum og vísindalegum aðferðum að uppgötva sannleikann í trú þeirra þjóða sem við höfum stundum kallað frumstæðar, m.a. vegna þess að þær trúðu ekki eins og við gerum á karl í líki anda heldur trúðu á konu í líki efnis, trúðu að jörðin væri lifandi, væri hin mikla móðir alls sem öllu réði og hana bæri að umgangast með lotningu og virðingu samkvæmt því. Um leið og vísindamenn eru þannig að átta sig á því að jörðin er ein heild þar sem allt er öðru háð sjá þeir líka að við mennirnir höfum leikið grátt móður okkar, jörð.
    Það eru hátt í 500 ár síðan það var ótvírætt sannað að jörðin er hnöttur og hefur takmarkaða stærð og þó svo við þekkjum og margsannað hafi verið lögmálið um takmarkaðan vöxt sem gildir um allar heilbrigðar lifandi verur og stofna lífvera, þá virðumst við alls ekki enn skilja þessi lögmál svo vel að við virðum þau heldur göngum við þvert á þau. Þetta virðingar- og skilningsleysi gagnvart náttúrulögmálunum kemur t.d. fram í því að við höldum að við getum endalaust aukið framleiðslu jarðar og að hamingja okkar sé háð auknum hagvexti. Þessi stefna þýðir hins vegar að við göngum stöðugt á þann höfuðstól sem okkur hefur verið úthlutað til ávöxtunar. Við sjáum nú þegar fyrir endann á þeim auðlindum jarðar sem eru óendurnýtanlegar. T.d. endast þær olíulindir sem nú er vitað um í heiminum aðeins í rúmlega 30 ár með sömu notkun og nú er. Um þær auðlindir sem endurnýjanlegar eru göngum við þannig að þær rýrna stöðugt.
    Á undanförnum árum hefur á hverju ári svæði á stærð við Ísland breyst úr óendanlega verðmætum regnskógi í dauða eyðimörk. Síðan land byggðist á Íslandi hefur gróður- og jarðvegseyðing numið sem svarar einum fermetra á dag fyrir hvern Íslending sem búið hefur í landinu. Í náttúrunni ríkir lögmálið um hringrásir efna þar sem allt er endurunnið og endurnýtt í ákveðnu jafnvægi og ekkert fer til spillis. Úrgangur úr einum ferli verður hráefni í annan. Við

mennirnir virðum ekki þetta lögmál heldur mergsjúgum næringarefni úr jörðinni á einum stað og skilum þeim svo í mengandi magni á öðrum þannig að röskun og eyðilegging hlýst af. Við tökum náttúrleg efni út úr hringrásum og breytum þeim í gerviefni þannig að enginn náttúrlegur ferill ræður við að koma efnum aftur inn í hinar eðlilegu hringrásir. Við sleppum menguninni, gerviefnunum og alls kyns eiturefnum út í umhverfið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þessi skaðlegu efni berast um allt, hátt upp í gufuhvolf jarðar sem umlykur og hlífir henni eins og feldurinn hlífir kettinum og þessi efni berast djúpt niður í stóru matarkistuna, hafið, og sytra um jarðveg og grunnvatn. Við eigum ekki lengur sumar af grunnforsendum líkamlegs heilbrigðis, hreint loft og vatn og matvæli án eiturefna.
    Sú mynd sem hér er dregin er ekki fögur og margar kvenfrelsiskonur benda á að þetta sé heimur karlveldisins, konur hafi í raun ekki fengið að móta samfélagið um aldir, hvorki sem skipuleggjendur né stjórnendur. Þær hafi lengi vel ekki fengið að fara í skóla og stunda vísindi, þeirra staður var heimilið. Þær skyldu elda mat, halda umhverfinu vistlegu, ala upp börn og sinna öldruðum og sjúkum. Án þessara starfa hefði lífið fljótt orðið óbærilegt öllum þá sem nú. Nú þegar aðeins er að losna um fjötra kvenna flykkjast þær í félög og hópa sem leggja áherslu á frið, umhverfisvernd eða kvenfrelsi. Konur trúa því að fái þeirra gildi og þeirra menning að njóta sín og ráða verði frekar en nú er útlit fyrir hægt að bjarga mannkyni frá glötun. En hér þýðir ekki að skipta mannkyni í fylkingar. Allir verða að hjálpast að, konur og karlar. Því miður eru það enn hörðu gildin sem ráða ferðinni. Margir þeirra sem við stjórnvöl sitja í geimskipinu móður jörð virðast lifa án nokkurra tengsla við jörðina, eru eins og hringsólandi loftsteinar sem meta það mest að leiftra sem skærast eitt andartak í tímans rás um leið og þeir falla, átta sig ekki á því að birta þeirra getur verið feigðarljós og að loftsteinar hafa oft leikið jörðina og lífríki hennar mjög illa og gætu tortímt henni. Sem betur fer er þessi lýsing ekki algild. Karlímynd sagnanna, hinn kaldi grimmi karl er á undanhaldi og það þykir ekki lengur nein skömm að því fyrir nútímakarlmanninn að sinna
hefðbundnum kvennastörfum. Þótt okkur konum þyki hægt ganga verður ekki á móti því mælt að karlar eru í auknum mæli að taka á sig ábyrgð heimilisstarfa, svo sem barnauppeldis, og við það breytist afstaða þeirra til umhverfisins og lífsins í heild. Þær systur, vísindaiðkun og þekking, hafa líka opnað augu margra fyrir þeirri helför sem lífið er á. Þannig eru margir náttúruvísindamenn og aðrir fræðimenn öflugir talsmenn friðar og umhverfisverndar.
    En það er ekki nóg að gert og allra síst hér á Íslandi. Fólk sem búið hefur erlendis sér og veit að við Íslendingar erum langt á eftir í umhverfisvernd. Mengunarvarnir, endurnýting, endurvinnsla, skolphreinsun, skipulagsmál, beitarstjórn, náttúrufarsrannsóknir, náttúrufriðun, umhverfisfræðsla.

Bara nefna það. Við Íslendingar erum því miður á mjög mörgum sviðum áratugum á eftir öðrum þjóðum. En við þyrftum ekki að vera það. Við sem smá og heldur vel upplýst þjóð gætum haft forgöngu í umhverfisvernd og slíkt hlutverk ættum við að velja okkur í stað þess að berjast með heift og jafnvel lygum gegn þeim sem helga líf sitt og jafnvel hætta lífi sínu fyrir þá hugsjón að vernda lífríki jarðar. Það er mikilvægt að við hættum að trúa því að við getum hagað okkur eins og okkur sýnist og förum að skilja hlutverk okkar og ábyrgð í samfélagi þjóðanna.
    Til þess að svo megi verða þarf þó aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi þarf hugarfarsbyltingu, í öðru lagi þarf markvissa vinnu með góðu skipulagi. Hvað hugarfarsbyltinguna varðar verðum við að læra allt annan lífsstíl en þann sem nú gildir. Við verðum að hætta að umgangast land okkar og mið með hroka og frekju, en temja okkur virðingu og jafnvel lítillæti. Á öllu sviðum verðum við að stunda ræktun en ekki rányrkju, samhjálp en ekki samkeppni og við verðum að draga úr hraða nútímans, streitu og skeytingarleysi og temja okkur yfirvegun, ábyrgð og væntumþykju.
    Það þýðir víst lítið að leggja fram þáltill. um breytt hugarfar. Þó svo Kvennalistinn hafi óbeint gert það æ ofan í æ með tillögu sinni um aukna umhverfisfræðslu sem loks var samþykkt nú fyrir jólin. Þá snúum við okkur að hinum liðnum og leggjum fram tillöguna um umhverfisráðuneyti sem gerir ráð fyrir því að öll umhverfismál fari undir eina samræmda stjórn. Að það komist í höfn er forsenda þess að hægt verði að vinna skipulega og markvisst að lífsnauðsynlegum umhverfisbótum. Og að gefnu tilefni, þ.e. orða hæstv. menntmrh. í morgun um brýna nauðsyn þess að sett verði á laggirnar ráðuneyti umhverfismála, vil ég gjarnan spyrja hann hvað líði framgangi þess máls.