Umhverfisráðuneyti
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Sigrún Helgadóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. góð svör hans sem ég er að mestu leyti mjög sammála, en ég vil líka gjarnan bæta nokkru við það sem ég sagði áðan og hverfa aftur til ársins 1951, en þáv. menntmrh. fól þeim Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi og Ármanni Snævarr prófessor að semja frv. til laga um náttúruvernd. Með þeim mun einnig hafa unnið Finnur Guðmundsson fuglafræðingur. Frv. var lagt fyrir 74. og síðan aftur fyrir 75. löggjafarþing árið 1955. Frv. fylgir löng og gagnmerk grg. Þar segir á einum stað, með leyfi forseta: ,,Hugtakið náttúruvernd er mjög víðtækt hugtak og tekur í rýmstu merkingu til verndar á öllum þáttum náttúrunnar, kvikum og dauðum.``
    Síðan er sagt frá hinum þrem megingerðum náttúruverndar, þ.e. menningarlegri náttúruvernd, félagslegri náttúruvernd og fjármunalegri eða búskaparlegri náttúruvernd. Menningarleg náttúruvernd felst í því að taka frá og friða staði eða náttúruminjar í þágu vísinda og menningar. Félagsleg náttúruvernd felst í því að auðvelda almenningi aðgang að náttúru landsins og hin fjármunalega eða sem síðar hefur verið kölluð hagræna náttúruvernd felst í því að virða náttúrulögmál búsvæðis síns og fylgja ákveðnum umgengnisreglum í búskap og náttúrunýtingu vegna þess að slík hegðan borgar sig þegar til langs tíma er litið.
    Í grg. segja höfundar það skoðun sína að ráðlegra sé að skipa ákvæðum um hagræna náttúruvernd í sérlög því virða þurfi hverja tegund náttúruauðæfa, hversu takmarka eigi nytjun þeirra eða stuðla að eðlilegri nýtingu þeirra.
    Þessi umræða er mjög merkileg og þær skilgreiningar sem þar eru gerðar. Í raun hafa þessir menn verið að ræða umhverfismál þó að þeir hafi ekki kallað það svo og þeir hafa greinilega rætt þau sem heild þótt niðurstaðan hafi verið sú að setja sérlög um hverja tegund náttúruauðlinda. Sú afstaða er í fullu gildi enn, en hins vegar er eðlilegt að gera ráð fyrir að málaflokkurinn sem heild fari undir eitt ráðuneyti. Margívitnuð greinargerð er þeim mun merkilegri þegar aldur hennar er hafður í huga. Á þessum árum þekktist vart á Íslandi orðið ,,vistfræði`` hvað þá að fólk skildi almennt hvað það þýddi en nútímaumhverfisfræði og umhverfisvernd byggir á lögmálum vistfræðinnar, t.d. að í náttúrunni er allt hvað öðru háð, efni og orka streyma úr einu kerfinu í annað, þar finnast engin lokuð hólf.
    Skilin á milli hinna þriggja gerða náttúruverndar eru í rauninni líka horfin. Auðvelt er að rökstyðja að bæði félagsleg og menningarleg náttúruvernd borgar sig, er hagræn þegar til langs tíma er litið. Til að sýna fram á það mætti halda hér langa fræðilega tölu og koma með niðurstöður úr ýmsum rannsóknum og tilraunum, en til þess er ekki tími og skal sá tími sem gefst frekar notaður til að svara athugasemdum sem menn hafa haft í frammi við það að setja öll umhverfismál undir eitt ráðuneyti og skilja ekkert undan.

    Umhverfisráðuneytinu er ætlað að hafa yfirsýn yfir allar náttúruauðlindir landsins. Það er mikilvægt að einhver aðili í stjórnkerfinu hafi það hlutverk. Svo er ekki nú. Skil á milli verksviða stofnana eru óljós, togstreita um suma þætti og aðrir hafðir út undan.
    Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir fjallaði um mengunina sem dæmi um slíkt hér áðan og annað dæmi mætti nefna sem eru rannsóknir og eftirlit með íslenskum landdýrum. Það er engum einum aðila í stjórnkerfinu ætlað að vita t.d. hvað eru margar heiðlóur á Íslandi eða rjúpur og þess vegna er í raun ekkert hægt að vita með vissu hvort þeim fjölgar eða fækkar. Reyndar má vera með ýmsa svona þætti að uppi í Háskóla séu menn sem hafa áhuga á ákveðnum dýrategundum, en það er tilviljunum háð og háskólamenn eiga auðvitað að vera frjálsir í sínum rannsóknum. Það er ekki hægt að leggja á þá þá skyldu að þeir eigi að rannsaka þetta eða hitt. Hins vegar eiga stjórnvöld að sjá til þess að ekki séu gloppur í þekkingu okkar á íslensku vistkerfi. Á því lifum við jú.
    Það hefur komið hér fram að margir innan stjórnkerfisins séu á móti breytingunum. Þeir segja gjarnan: Við viljum umhverfisráðuneyti og við viljum að þangað fari allar aðrar stofnanir en mín. --- Ein ástæðan fyrir þessari tregðu er ótti við að umhverfisráðuneyti verði veikt ráðuneyti með lítil fjárráð, enda hefur oft verið talað um að það verði ekki ráðuneyti heldur bara einhvers konar skrifstofa innan annars ráðuneytis. Þetta sýnir þörfina fyrir það að umhverfisráðuneyti verði gert sterkt. Það má engin stofnun sem sinnir umhverfismálum skorast undan því að fara í sitt ráðuneyti.
    Þegar litið er yfir fjárlög og dregið saman nokkurn veginn það sem umhverfisstofnunum er ætlað sameiginlega kemur í ljós að það er rúmlega 1,1 milljarður sem sýnist vera svipað og iðnrn. hefur. Reyndar gefur þessi tala til kynna að þetta svið er mjög svo fjársvelt og að því leyti er ég mjög sammála hæstv. menntmrh. Það ætti að vera hverjum manni umhugsunarefni að allar stofnanir á Íslandi sem sinna umhverfismálum, hvort sem er á sjó eða landi, fá samanlagt álíka mikla fjárveitingu og útflutningsbætur eru á landbúnaðarvörum.
    Enn hafa heyrst þær mótbárur að með því að taka rannsókna- og eftirlitsstofnanir frá atvinnuráðuneytunum tapist einhver nauðsynleg tengsl,
en okkar tillaga gerir ráð fyrir því að bæði Hafrannsóknastofnun fari frá sjútvrn., Orkustofnun frá iðnrn. og Landgræðslan og Skógræktin frá landbrn. Það eru einmitt þau nánu tengsl sem við teljum að megi missa sín. Hugsum okkur að heiðarnar á ákveðnu landsvæði séu illa farnar af gróðurskemmdum. Bændurnir þrýsta á sinn ráðherra að gera eitthvað í málinu og hann gæti freistast til þess sem æðsti yfirmaður Landgræðslunnar að óska eftir við þá stofnun að leggja sérstaka áherslu á þessar umræddu heiðar t.d. með því að dreifa á þær áburði. Undan slíkri ósk frá æðsta yfirmanni sínum gæti

Landgræðslan ekki vikið sér jafnvel þótt sérfræðingar þar teldu að meiri þörf væri á umönnun lands á einhverjum allt öðrum stað.
    Á sama hátt býður það hættunni heim að sami maðurinn sé sá sem á að gæta hagsmuna sjómanna og er yfirmaður Hafrannsóknastofnunar. Hagsmunaaðilar í sjávarútveginum gætu jafnvel þrýst á það að fá að veiða áfram einhverjar dýrategundir sem æskilegt væri að stöðva veiðar á og ráðherra gæti þá fyrirskipað sínum undirmönnum að leggja áherslu á að rannsaka þessi dýr jafnvel þótt það kostaði óæskilegar veiðar á þeim. Umræðan um þetta yrði lokuð innan eins ráðuneytis og ráðherra sæti beggja megin borðs.
    Ég er sammála ráðherra um að fyrirkomulag í umhverfismálum eigi að vera svipað og fyrirkomulag í fjármálum og umhverfisráðuneyti svipað og fjármálaráðuneyti, en við getum hugsað okkur hvernig ástandið væri ef hvert ráðuneyti og stofnanir innan þess hefðu frjálsar hendur um eyðslu úr sameiginlegum sjóði, hvert fræðslustjóraembætti væri sjálfrátt um eyðslu. Allir sjá að þetta endaði með ósköpum. En þetta er það fyrirkomulag sem ríkir í umhverfismálum og það hefur leitt til óskapa sem taka þurfa enda. Náttúruauðæfin eru sameiginlegur sjóður. Ef það er talið nauðsynlegt að eitt ráðuneyti haldi utan um ríkiskassann er ekki síður nauðsynlegt að haldið sé utan um þann höfuðstól sem landið og miðin eru þannig að ekki sé stöðugt gengið á hann með ofnýtingu eða honum spillt með mengun. Sú er skylda okkar.