Nýting innlendra orkugjafa
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Hér er verið að fjalla um till. sem varamaður minn Ólöf Hildur Jónsdóttir flutti hér í nóvember í haust, og kemur mér nokkuð á óvart að þetta mál skyldi ekki hafa verið fullrætt fyrr, en bjóst sem sagt við að það mundi þegar vera komið til nefndar og væri þar til umfjöllunar.
    Varðandi ábendingar hv. 1. þm. Reykv. í sambandi við þetta mál vil ég í fyrsta lagi mjög taka undir hans skoðun á því að mikill hluti raforkunotkunar til almennra nota er skattlagður og það er verið að mismuna aðilum, fyrst og fremst í atvinnurekstri, í sambandi við það. Hann benti á ljóst dæmi um það. Þegar raforka er tengd í skip er beinn innlendur orkugjafi skattlagður, en á hinn veginn ef raforkan er framleidd í skipinu sjálfu á sér ekki stað skattlagning.
    Í annan stað vil ég benda á í sambandi við skattlagningu á innlendu orkuna, hitaorkuna til atvinnufyrirtækja, að þar hefur þessi skattlagning orðið mikið hvimleiðari á síðustu missirum vegna þess hvað erlendi orkugjafinn, olía, hefur verið að lækka í verði og þar af leiðandi orkugjafinn sem menn völdu sér þegar olían var dýr, innlendi orkugjafinn farinn að verða mikið óhagstæðari en áður var og er núna mjög óhagstæður fyrir atvinnufyrirtæki miðað við að nýta sér olíu til hitunar.
    En hv. þm. benti á að fram kæmi í grg. og hann vildi ekki fallast á að ákveðnir hlutar orkuöflunar hefðu verið afhentir einstökum sveitarfélögum og stofnunum án tillits til afkomumöguleika annarra. Þar tel ég að sé um nokkurn misskilning að ræða hjá þingmanninum eða það er a.m.k. skoðun mín og ég geri ráð fyrir að það hafi verið skoðun flm. líka að við hljótum að líta svo á að þegar þjóðfélagið hefur fært ákveðnum aðilum, hann nefndi hér höfuðborgarsvæðið Reykjavík, þann möguleika að nýta sér orku eins og hitaorkuna í jörðunni eða raforkuna, veitt til þess þeim fjármunum sem þjóðfélagið á þeim tíma hafði möguleika til að ráðstafa til slíkra hluta, væri verið að veita ákveðinn forgang, að vissu leyti ákveðinn eignarrétt sem aðrir höfðu ekki möguleika til. Því miður hefur það átt sér stað í mörgum þáttum í okkar þjóðfélagi að þegar búið hefur verið að gera ákveðna hluti á þessu eða hinu þéttbýlissvæðinu, fá upp þar hagkvæman rekstur á orkufyrirtæki, hvort sem það hefur verið hitaveita eða raforkufyrirtæki, hafa möguleikarnir fyrir hina, sem hafa verið eftir, verið erfiðari. Þarna tel ég að flm. sé að benda á þátt og þörf á því að jafna þessa stöðu. Það er lengi hægt að deila um hvort þarna er um eignarrétt að ræða eða eitthvað annað, en frammi fyrir þessu stöndum við víða í þjóðfélaginu, ekki eingöngu í sambandi við orkunýtingu og dreifingu heldur líka í sambandi við uppbyggingu ýmissa annarra þátta. Ég benti á fyrir nokkrum dögum það sem blasir við í sambandi við uppbyggingu vegakerfis í landinu. Að þegar búið er að byggja upp vegakerfið í kringum aðalþéttbýlisstaði landsins hefur áhugi stjórnvalda minnkað á að ráðstafa fjármagni til slíkra hluta þegar þarf að fara að sinna þessum þáttum á öðrum svæðum. Ég tel að það sé

þessi þáttur sem flm. er að fjalla um í grg. og þetta sé þáttur sem við þurfum að átta okkur á að má ekki vera mismunandi fyrir þegna þjóðfélagsins.