Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 87 um aðgerðir til að koma í veg fyrir innflutning á vörum á fölsuðum upprunaskírteinum. Till. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að skipa nú þegar nefnd er hafi það hlutverk að leita leiða til þess að koma í veg fyrir innflutning á vörum á fölsuðum upprunaskírteinum. Nefndin skili fullmótuðum tillögum eigi síðar en 15. október 1989.``
    Í grg. með till. segir:
    ,,Hinn 14. jan. 1988 svöruðu þáverandi fjármála- og viðskiptaráðherrar fyrirspurn á þskj. 489 frá flm. þessarar tillögu um innflutning á vörum á fölsuðum upprunaskírteinum. Í svörum ráðherranna kom fram að nokkurs úrræðaleysis gætir gagnvart slíkum innflutningi. Þess vegna var tillagan lögð fram, en hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi og er því endurflutt.``
    Flm. gerir sér fyllilega grein fyrir því að erfitt er að koma í veg fyrir slíkan innflutning sem hér er til umræðu en telur engu að síður að brýnt mál sé að reynt sé að leita allra leiða til að koma í veg fyrir hann. Það er nauðsynlegt, ekki síst með tilliti til stöðu íslensks fataiðnaðar sem nú berst í bökkum og er við það að leggja upp laupana víðast hvar.
    Það viðurkenna allir sem til þekkja að þessi innflutningur á sér stað, enda hafa margir aðilar sem málið snertir tjáð sig um það og staðfest að slíkt sé raunin. Þar á meðal innflytjendur, framleiðendur og ráðherrar.
    Ég ætla að fá með leyfi forseta að vitna í framsöguræðu mína er ég mælti fyrir þessari till. á síðasta þingi en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Hvernig eiga tollverðir að komast að því hvort vara er á fölsuðum upprunaskírteinum eða ekki? Það er nánast vonlaust. Því verður að leita leiða til að sporna gegn slíkum innflutningi. Fataiðnaður á Íslandi er við það að líða undir lok m.a. vegna síaukinnar samkeppni við innflutningsverslunina sem lítið er hægt að gera við ef hún er á heiðarlegum grunni. Það er hins vegar skylda okkar að halda henni þar og ef við vitum af óheiðarlegum viðskiptaháttum eigum við að grípa inn í og reyna með öllum tiltækum ráðum að stöðva slíkt.``
    Hæstv. þáv. viðsk.- og dómsmrh. hafði litlu við svör þáv. hæstv. fjmrh. að bæta, sagði aðeins að þessi mál væru undir smásjá hjá tollayfirvöldum og þar af leiðandi mundi þetta fljótlega komast í gott lag. --- Nú væri náttúrlega, hæstv. forseti, mjög gott að hafa viðkomandi ráðherra við því að þarna voru settar fram staðhæfingar um að ákveðnum vandamálum yrði kippt í lag mjög fljótlega og væri mjög þarflegt fyrir þingið að vita hvort þessum málaflokki hafi í raun verið kippt í lag.
    En enginn rökstuðningur fylgdi því hvernig hæstv. ráðherra fann það út að þetta kæmist fljótlega í gott lag. Hann taldi þó ástæðu til að geta þess sérstaklega að hér væri um refsivert athæfi að ræða og því hlýtur maður að spyrja: Hvað hefur ráðherrann gert gagnvart

þeim sem staðnir hafa verið að slíkum innflutningi? Hvaða refsingu hafa þeir fengið? Hve margar ákærur hafa verið gefnar út vegna slíks?
    Til að komast fyrir slíkan innflutning þarf að koma upp öflugu eftirlitskerfi og beita þá þungum refsingum sem staðnir eru að verki. Eftirlit verður að hefjast í því landi sem varan er keypt frá og má þá vel hugsa sér að sendiráðin okkar í viðkomandi landi sjái um slíkt í nánum tengslum við tollayfirvöld hérlendis. Það má ekki láta lögbrot viðgangast án þess að nokkuð sé að gert. Það er viðurkennt af ráðherrum, það er viðurkennt af tollayfirvöldum, það er viðurkennt af innflytjendum, það er viðurkennt af formanni Félags ísl. iðnrekenda að þessi fölsun á sér stað. Þess vegna verður að bregðast skjótt við.
    Í tillögum hæstv. forsrh. nýverið, sem m.a. voru lagðar á borð okkar sem vorum í viðræðunefnd Borgfl. í stjórnarmyndunarviðræðum og fram kom seinna, var hugmynd hæstv. forsrh. að setja kvóta á innflutning frá láglauna- og lágkostnaðarlöndum og hefur þá væntanlega ráðherra í huga Taiwan, Hong Kong og önnur slík lönd.
    Það mætti eins spyrja hvort hér sé átt við austantjaldslönd, Pólland t.d. sem fellur undir hvort tveggja, bæði láglauna og lágkostnaðarland. Þá má einnig spyrja ef til svona ráðstafana er gripið hvort það hreinlega auki ekki á þá fölsun sem hér er verið að reyna að koma í veg fyrir.
    Hæstv. forseti. Ég tel mig ekki þurfa að hafa lengra mál um þetta, en vísa í framsöguræðu mína með þessari till. til þál. sem flutt var á síðasta þingi.