Iðgjöld vegna bifreiðatrygginga
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Flm. (Skúli Alexandersson):
    Virðulegi forseti. Það var komið að mér að biðja um orðið um þingsköp og taka undir ósk hv. 5. þm. Vesturl. um að fundi yrði frestað í hv. Sþ. meðan beðið væri eftir einhverjum ráðherra hér í stólana, en ég lét það vera. Það er kannski erfitt fyrir mig að biðja um að einhver ráðherra sitji hér í stól á meðan ég flyt mína tölu um bifreiðatryggingarnar og ég ætla heldur ekki að gera það. En því miður hefur þetta átt sér stað núna að ráðherrar hafa ekki látið sjá sig á fundum Sþ. langtímum saman og því miður er ekki ný saga á hv. Alþingi að svo sé. Það er ekki endilega í sambandi við þessa ríkisstjórn. Það á líka við um ráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem hv. 1. þm. Suðurl. veitti forustu að það var ansi oft sem þeir voru ekki hér þegar var verið að fjalla um hin breytilegustu mál í Sþ. En vitaskuld er þetta hlutur sem við almennir þingmenn eigum að mótmæla og óska eftir því og það er sjálfsögð skylda ráðherra að þeir séu við umræðu þegar verið er að ræða mikilsverða þáltill. eins og þær sem hér eru jafnan til umræðu. Væri kannski ekki úr vegi að virðulegur forseti tæki mál fyrir eins og gert er í fyrirspurnatíma. Ráðherrar þyrftu þá ekki að eyða öllum deginum við það að bíða eftir því að þau mál sem þeir þurfa að fjalla um og vera viðstaddir kæmu til umræðu. En það hefur ekki verið gert og við höfum búið við og verðum enn að búa við það a.m.k. næsta hálftímann að enginn ráðherra verði hér í þinginu.
    Till. sem ég mæli fyrir er flutt af okkur hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og er till. sem er endurflutt frá fyrra þingi, en þá var meðflm. minn núv. menntmrh. Svavar Gestsson. Till. er svohljóðandi:
    ,,Till. til þál. um iðgjöld vegna bifreiðatrygginga.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við bifreiðatryggingar hér á landi þannig að tryggingariðgjöld bifreiða verða ekki hærri hér á landi en í grannlöndum okkar.
    Í því skyni skal m.a. taka eftirfarandi til athugunar:
    1. Samruna tryggingafélaga og sparnað við rekstur þeirra og alla starfsemi, en hér á landi eru nú`` --- það var reyndar sagt þegar var verið að semja og till. var flutti hér inn í þingið --- ,,átta tryggingafyrirtæki með bílatryggingar.
    2. Afnám tvísköttunar vegna bifreiðatrygginga, en nú fara 40 kr. af hverjum 100 iðgjaldakrónum í ríkissjóð.
    3. Aukna umferðarfræðslu.
    4. Markvissa eflingu almenningssamgangna, einkum á þéttbýlissvæðum.
    5. Tryggingaflokka og hvort um getur verið að ræða tvöfalda eða margfalda tryggingu á sama tjóninu.
    6. Kostnað tryggingafélaganna við viðgerðarþjónustu á bifreiðum.
    7. Sameiginlega innheimtu á tekjum til þess að standa undir tjónakostnaði við bifreiðatryggingar þannig að tryggingaiðgjöld tengist að einhverju leyti akstri eða eldsneytisnotkun.``
    Fyrir þessari till. var mælt í hv. sameinuðu þingi

í fyrra og umræða um þessa hluti, um bifreiðatryggingar, átti sér einnig stað á hv. Alþingi utan dagskrár. Ég tel ekki ástæðu til að fara að flytja aftur þá framsöguræðu sem ég flutti með málinu í fyrra, en ég bendi á að till. var send til umsagnar og það komu umsagnir frá nokkrum aðilum og þær voru allar á einn veg, allar á þann veg að það sem hér væri bent á og æskilegt væri að skoða væri á þann veg að það þyrfti að gera.
    Það fór eins fyrir þessari till. og till. sem hv. 5. þm. Vesturl. var að ræða um áðan. Þrátt fyrir að umsagnir væru jákvæðar og lagt til að till. væri samþykkt og svo virtist sem þessi till. væri að fullu unnin og rædd í hv. allshn. var af einhverjum ástæðum ekki talin ástæða til að afgreiða till. út úr nefnd.
    Ég vil fyrst og fremst taka undir þau orð sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði áðan um till. um uppruna vöruskírteina, að eins er ástatt með þessa till. Ég vil eindregið hvetja hv. allshn., sem ég mun leggja til að till. verði vísað til, að um þessa till. verði fjallað og að till. sem og aðrar till. nefndarinnar sem hafa fengið eðlilega umsögn og eiga að geta fengið eðlilega umfjöllun í nefndinni verði afgreiddar frá nefndinni, en það verði ekki nefndarinnar að skera úr um hvort till. verði samþykkt á hv. Alþingi. Það á að vera þingsins sjálfs en ekki hverrar nefndar fyrir sig ef um er að ræða að till. njóti stuðnings umsagnaraðila og njóti að því er virðist stuðnings nefndarmanna, en af einhverjum sérstökum ástæðum sé ekki gengið frá því að till. sé send hingað aftur til þingsins til fullnaðarafgreiðslu.
    Ég sé svo ekki ástæðu til að fjalla frekar um þetta. Ég ítreka að umsagnir um þessa till. voru jákvæðar og ég vissi ekki annað en að það væri meiri hluti í nefndinni að mæla með till. Enn legg ég svo til, sem ég gerði í fyrra, að þessari till. verði vísað til hv. allshn.