Iðgjöld vegna bifreiðatrygginga
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Frú forseti. Vegna upphafsorða frsm., sem hér talaði á undan mér, hv. 4. þm. Vesturl., og þeirra sem hafa deilt á ráðherra fyrir að vera fjarverandi vil ég taka fram að ég var ráðherra í tæplega fjögur ár og mig vantaði aldrei oftar þótt ég gegndi hlutverki ráðherra en án ráðherradóms. Ég var í þinginu alla þingdaga og svaraði hverri einustu fsp. sem kom, fyrirvaralaust ef óskað var eftir. Ég sé enga ástæðu til þess að nokkur ráðherranna sé í burtu nema í alveg sérstökum tilfellum. Svo vel ráða ráðherrarnir sínum tíma.
    En þetta er fullyrðing sem hver þingmaður getur staðreynt með því að líta í þingtíðindin. Það er alveg ófyrirgefanlegt að ráðherra láti sig vanta. Það tefur störf Alþingis.
    Það mál sem hér er á dagskrá, nr. 112, á þskj. 115, er þáltill. um iðgjald vegna bifreiðatrygginga. Ég tek undir þetta mál og tel það vera þarft og mun styðja það, en ég er ekki ánægður með þáltill. sem slíka eða réttara sagt orðalag hennar. Hún er allt of veik. Hún segir út af fyrir sig ekki nokkurn skapaðan hlut. Það segir í upphafi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa ráðstafanir``. Hvað er það? Undirbúa ráðstafanir. Svo þegar búið er að undirbúa, gera þá ráðstafanir til hvers? Til þess að halda málinu áfram? Þetta finnst mér ekki segja nokkurn skapaðan hlut eða þá að það á að vera að vinna að þessu í langan tíma. Undirbúa hvað? Undirbúa að framkvæma eitthvað? Undirbúa undirbúning undir framkvæmdir?
    Ég hefði viljað orða þetta á þá leið að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að tryggingar eða tryggingariðgjöld bifreiða verði ekki hærri hér á landi en í nágrannalöndunum og sleppa öllu hinu.
    Ég beini því til flm. að gera breytingar á orðalagi. Mér er miklu ljúfara að fylgja till. þannig orðaðri þó ég muni fylgja henni án breytinga því hugsunin er góð en hún er ekki nógu markviss. Ég legg til að flm. komi sér saman um að orða þetta þannig ákveðnara að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir o.s.frv.
    Meira hef ég ekki um þetta mál að segja.