Iðgjöld vegna bifreiðatrygginga
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Það er ýmislegt og sjálfsagt flest gott um þessa till., en hins vegar er nauðsynlegt að hér komi fram, sem frsm. vék nú raunar að, að fyrsti og meginliður tillögunnar er að nokkru leyti kominn eða að komast í framkvæmd og hefur þar orðið veruleg breyting á frá því að till. var upphaflega flutt þar sem fjögur langstærstu tryggingafélögin ýmist hafa sameinast eða eru að sameinast í tvö félög sem ráða þá meginhluta markaðarins. Ég held að þetta sé tvímælalaust til bóta og leiðir áreiðanlega til þess að kostnaður við bifreiðatryggingar lækkar eitthvað.
    En vegna orða hv. 5. þm. Reykv. um að þessa tillögu ætti að orða með öðrum hætti kemur það til athugunar í nefnd með venjulegum hætti. En ég lýsi efasemdum um að þessi tillaga sé orðuð í þá veru að Alþingi feli ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til þess að iðgjöld bifreiðatrygginga verði ekki hærri hér á landi en í nágrannalöndunum. Það er eðli trygginga að iðgjöldin eiga að standa undir tjónakostnaðinum og þó að ríkisstjórnin sé máttug og til mikilla afreka líkleg hef ég efasemdir um að hún geti beinlínis gert ráðstafanir til þess að þetta megi verða eins og hv. þm. Albert Guðmundsson lagði til einfaldlega vegna þess að þetta er bara á valdi ökumanna. Meðan árekstratíðnin og tjónatíðnin í umferðinni hér er jafnhá og raun ber vitni og menn sýna jafnlitla aðgát við það ábyrgðarhlutverk sem það er að stýra bifreið verða þessi iðgjöld há. Þessu verður ekki breytt í einu vetfangi.
    Við þurfum hins vegar alveg örugglega, eins og hér liggja raunar fyrir tillögur um, að taka ökukennslu til endurskoðunar. Það er leitt til þess að vita að atriði eins og ökuferilsskrá, sem búið er að ræða um lengi og er mjög brýnt að taka upp til aukins eftirlits og gæti áreiðanlega líka verið til leiðbeiningar um iðgjöld trygginga þannig að góðir ökumenn nytu þess í ríkara mæli en nú er að borga lág iðgjöld, skuli hafa steytt á einhverju skrifstofuskeri uppi í ráðuneyti og næst ekki fram. Það hefur verið reynt að ýta á það og koma því fram. Það hefur bara einfaldlega ekki gerst enn þá.
    Það er sjálfsagt að athuga ýmis þessara mála, finnst mér, og mjög nauðsynlegt eins og þessa tvísköttun og auðvitað þarf að auka umferðarfræðslu eins og hér er gert ráð fyrir, en ef við ætlum að lækka iðgjöldin er bara ein leið til þess og það er að tjónunum fækki. Sjálfsagt má einhverju hagræða og betrumbæta í starfsemi tryggingarfélaganna, en ég held að það vegi ekki þungt í þessu máli. Meginatriðið er það hversu tjónin eru tíð og mikil. Það þarf t.d. nokkuð mörg iðgjöld til að borga nýjan bíl sem kostar 2 milljónir eða þar um bil.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri, en ég held að það eigi að nálgast þetta mál frá þeim sjónarhóli sem ég hef lýst, þ.e. að reyna að gera Íslendinga að svolítið betri, gætnari og árvakrari ökumönnum. Ég held að það sé leiðin til að lækka iðgjöld af bifreiðatryggingum.