Iðgjöld vegna bifreiðatrygginga
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. 3. þm. Vesturl. vil ég segja að nefndir Alþingis eru vinnufyrirkomulag Alþingis. Nefndirnar vinna fyrir alla þingmenn og nefndirnar eru ekki öðruvísi en aðrir þingmenn. Nefndirnar geta komið með tillögur að breytingum, orðalagsbreytingum og öðru. En í 33. gr. þingskapa segir: ,,Ráðherra og hver þingmaður má koma fram með breytingartillögur við hverja umræðu sem er.``
    Það er byggt á þessum þingsköpum, sem við vinnum öll eftir, að ég beindi þeim tilmælum til flm. að þeir gerðu þá breytingu sem ég taldi til bóta. Þegar hv. 3. þm. Vesturl. vitnar í að það sé óþarfi að gera tillögur um breytingar sem eru svona ákveðnar orðaðar frekar en hafa orðalagið eins og það er og vitnar í sameiningu fjögurra vátryggingafélaga sem hlýtur að leiða til lækkunar á iðgjöldum, þá vil ég nú beina því til þingmanna um leið og þeir kynna sér þetta mál betur að það eru bara tvö félög sem eru að sameinast og tryggingaiðgjöld eru samþykkt af opinberum aðilum. Tryggingaiðgjöld eru svo samþykkt af opinberum aðilum og undir svo ströngu eftirliti að maður getur ekki tryggt nema hjá ákveðnum félögum í einstökum tilfellum. Ég á t.d. sumarbústað í Grafningnum. Ég má ekki tryggja annars staðar en hjá Samvinnutryggingum. Brunabótafélag Íslands starfar ... (Gripið fram í.) Ráðherra getur haft sínar hugmyndir um það. Ég met meira frelsi til athafna í mínum einkamálum, t.d. en að verða að fara að ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í mínum einkamálum í þessu tilfelli.
    En það er svo, hæstv. ráðherra, að bæði Brunabót og Samvinnutryggingar eru lögvernduð, eru með lögvernduð svæði í tryggingum, þannig að ríkisstjórnin hefur ákvörðunarrétt um tryggingar og tryggingaupphæðir þessara félaga sem hafa þó fengið einkarétt --- á mismunandi hátt að vísu.
    Þar fyrir utan, ef ég man rétt, birtist í blöðunum við sameiningu t.d. Brunabótafélagsins og Samvinnutrygginga að annað þeirra, mér er næst að halda að það sé Brunabót, hafi verið með eigið fé upp á 400 millj. kr. í sjóði og hitt 200 millj. kr. Það getur verið að það hafi verið öfugt. Þessar tölur standa í mínum huga án þess að ég hafi þær við höndina. Ekki eru þau vátryggingafélög á vonarvöl. Sjóvátryggingafélagið og Almennar tryggingar hljóta að vera mjög efnuð félög, félög sem hafa efnast mjög vel, vegna þess að vátryggingafélögin hafa verið að kaupa sig inn í alls konar önnur félög og eignast þetta og eignast hitt. Það gera þau ekki nema þau hafi verulegan tekjuafgang eða ágóða sem þau þurfa að fjárfesta í einhverju öðru. Tjónin eru ekki meiri en svo að félögin treysta sér til þess að gerast eignaraðilar að öðrum félögum. Ég get ekki séð annað en að það sé verulegt svigrúm til að lækka iðgjöld eins og þessi þáltill. gerir ráð fyrir og það verður ekki gert nema ríkisstjórnin, sem hefur fjarstýrt þessum markaði, komi þar inn í á jákvæðan hátt. Alþingi Íslendinga fer ekkert að leggjast á hné fyrir ríkisstjórninni og segja: Elsku ríkisstjórnin mín. Gerðu

það nú fyrir mig að vinna svona eða vinna hinsegin.
    Alþingi Íslendinga tekur ákvörðun og ríkisstjórn Íslands er undirvald, framkvæmdarvald. Það er það sem ég vil líka draga athygli að. Alþingi samþykkir hér og það sem Alþingi samþykkir að fela ríkisstjórninni að framkvæma verður ríkisstjórnin að gera. Alþingi er ofar ríkisstjórninni að þessu leytinu til. Þess vegna er það sem ég vil miklu heldur fara rétta leið og segja: Alþingi ákveður að ríkisstjórnin skuli gera þetta eða gera hitt en ekki að fara bónleiðina að ríkisstjórninni. Það þýðir ekkert og þar er rangt að staðið.
    Þetta er það sem ég vil segja. Að breyta orðalaginu í nefnd er ekki nein lausn út af fyrir sig. Nefndin gerir ekkert annað en gera tillögur til Alþingis, til samverkamanna sem hafa sýnt þeim trúnað með því að kjósa þá í nefnd. Þess vegna hefði ég viljað að flm. sjálfir hefðu haft orðalagið þannig ákveðið að það færi ekkert á milli mála að það sem þeir vilja gera og þingmenn hafa tekið undir og verið jákvæðir með verði ákveðið af Alþingi að skuli svo verða. En ríkisstjórnin hefur verulega með það að segja hvaða iðgjöld eru samþykkt. Það er ekki svo sjaldan sem iðgjaldahækkanir eru samþykktar af opinberum aðilum. Það getur vel verið og kannski rétt að bifreiðatryggingar sýni ekki hagnað, en það er ekki alltaf hægt að fá hækkanir á álögum á fólk út á það að ein og ein deild í stórum starfshring sýni taprekstur þegar aðrar deildir sem hafa einkarétt á stórum markaði sýna mikinn ágóða eins og kemur fram í upplýsingum sem hafa komið fram nú við sameiningu félaganna.