Útboð opinberra rekstrarverkefna
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Sú till. sem hv. þm. Friðrik Sophusson hefur hér mælt fyrir er á margan hátt athyglisverð. Það er alveg rétt, sem kom fram í hans framsögu, að útboð hafa á fjölmörgum sviðum bæði skilað betri árangri, hagstæðari kjörum, fljótvirkari framkvæmdum og auðveldað eftirlit með því að rétt sé staðið að verkum. Að þessu leyti get ég alveg verið sammála hv. flm. um að það er mjög nauðsynlegt að skoða rækilega í hve ríkum mæli hægt er að beita útboðsaðferðum í hinum fjölþætta rekstri sem íslenska ríkið er.
    Ég gæti haft mörg fleiri orð um kosti útboða en ætla ekki að gera það hér vegna þess að hv. flm. gerði það mjög rækilega. Ég vil þó taka fram að þótt ég verji ekki miklum tíma í mínu máli til að rökstyðja kosti þeirrar aðferðar má ekki misskilja hlutfallið í ræðu minni á þann veg að ég sé þar með að draga úr þeim kostum. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt til þess að málið geti fengið skynsamlega athugun hér í þinginu og til að auðvelda að fjmrh., verði tillaga þessi samþykkt, geti framkvæmt hana á árangursríkan hátt, að fá annaðhvort nú eða við meðferð málsins í þinginu nánari útskýringar á því hve langt flm. og/eða Alþingi vilja ganga á þessari braut. Staðreyndin er nefnilega sú að í okkar litla þjóðfélagi er vissulega hægt að ná fram mjög hagstæðum kjörum með útboðum, ef menn eru þá reiðubúnir að ganga á hagsmuni margra aðila sem þar með mundu þurfa að draga úr framleiðslu sinni, umsvifum eða verslun. Spurningin er sú að í litlu samfélagi, þar sem ríkið er stærsti viðskiptaaðilinn, hefur það eðlilega mjög sterka stöðu til að sækja hagstæðustu kjör. En sú sókn ríkisins að hagstæðustu kjörum getur auðvitað komið niður á fjölmörgum sem eiga þá ekki aðra möguleika í okkar litla hagkerfi til að finna framleiðslu sinni eða þjónustu farveg.
    Þessa dagana t.d. standa fjmrn. og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins frammi fyrir nokkru vandamáli vegna þess að sú stefna að bjóða út innflutning á bjór til landsins skilaði mjög hagstæðri niðurstöðu og að þessu leyti sannaði mjög vel það, sem hv. flm. lýsti hér áðan, að útboðsstefnan hefur mikla kosti. Á hinn bóginn halda hinir íslensku framleiðendur, sérstaklega ölgerðirnar tvær, önnur á Akureyri og hin í Reykjavík, því fram að þetta útboðsverð sé langt undir því sem eðlilegt sé að þær fái fyrir sína framleiðslu.
    Það er alveg ljóst að íslenska ríkið mundi gera hagstæðustu viðskiptin með því að flytja eingöngu inn erlendan bjór til landsins en láta innlenda bjórframleiðslu um það að sækja þá á erlendan markað vegna þess að hún væri ekki samkeppnishæf við þessi góðu tilboð. Ég hugsa hins vegar að allir hv. alþm. væru sammála um að það væri ekki góð stefna og kannski hæpin. Þess vegna stöndum við nú í því vandamáli að vega og meta annars vegar hið hagstæða verð sem fengist við slíkt útboð og hins vegar hagsmuni hinna innlendu framleiðenda.
    Ég nefni annað dæmi. Ég átti fund með mönnum í morgun sem eru miklir kunnáttumenn í rekstri

sjúkrahúsa og heilsugæslu. Á þeim fundi kom fram t.d. að eitt fylki í Bandaríkjunum, sem er og ég þarf ekki að lýsa því hér margfalt stærri rekstrareining en íslenska samfélagið, hefði þá reglu að bjóða út öll lyfjakaup allra sjúkrahúsa í öllu fylkinu sem nema mörgum tugum ef ekki hundruðum og eru rekin á einn eða annan hátt á vegum eða með fjárstyrk viðkomandi sambandsríkis. Þar hafa lyfjafyrirtæki möguleika á því að gera tilboð í öll lyfin sem notuð eru og það fyrirtæki sem kemur með hagstæðasta tilboðið fær um tiltekinn árafjölda þar með einokun á öllum viðskiptum með lyf því ríki. Væri tillaga þessi samþykkt hér ætti þá t.d. að ganga svo langt að íslenska ríkisspítalakerfið byði út alla lyfjanotkun hins opinbera, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á þess vegum? Ég nefni þetta dæmi hér vegna þess að ég veit að hv. flm. hefur setið í stjórn ríkisspítalanna og þekkir vel það starfssvið og þess vegna er þetta gott dæmi til að vega og meta hve langt eigi að ganga í þessum efnum.
    Ég gæti, virðulegi forseti, nefnt fjölmargt annað til að rökstyðja þá spurningu mína hvort ekki er nauðsynlegt þegar slík athugun færi fram, sem lögð er til í þessari tillögu, að marka nánar að hverju hún á að beinast svo að þetta væri ekki eitthvert allsherjar viðamikið verkefni sem tæki mjög langan tíma í stjórnkerfinu að fjalla um, en væri svo almennt orðað að það skilaði e.t.v. ekki nægilega markvissri niðurstöðu þegar kæmi til framkvæmdanna. Þess vegna vil ég ljúka máli mínu með því að beina þeirri spurningu til hv. flm. hvort ekki væri rétt að fela hv. fjvn., en ég er sammála honum um að það er mjög góð hugmynd að vísa málinu þangað, að skoða hvort ekki er hægt að gera tillöguna á einhvern hátt ítarlegri og nákvæmari svo að framkvæmd hennar gæti haft í för með sér raunverulegar úrbætur.