Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Það er hárrétt, sem hefur komið fram hjá hv. 3. þm. Vesturl., að ég auglýsti það ekkert að leitað yrði eftir því við forseta þessarar deildar að hæstv. landbrh. yrði viðstaddur við umræðuna. Ástæðan fyrir því að ég orðaði þetta í gærdag var einfaldlega sú að mér var kunnugt um þetta samkomulag og ég vildi að það lægi þá þegar fyrir að ég mundi ekki flytja mál mitt öðruvísi en að hæstv. landbrh. yrði viðstaddur. Frá okkar hendi hefur þetta samkomulag þess vegna algjörlega gengið fram. Það er nærri því sólarhringur frá því að það lá fyrir að ég hafði orð á þessu við virðulegan forseta þessarar deildar og ef einhver brigð verður á samkomulagi verður að sjálfsögðu að rekja það til annarra en okkar sjálfstæðismanna.
    Það liggur svo að sjálfsögðu alveg ljóst fyrir að þó að hér yrði gert eitthvert hlé og menn mundu bíða eftir að hæstv. landbrh. kæmi til fundar er ekki þar með sagt að málið gangi ekki fram eins og um var talað. Ég get líka fúslega fallist á að tala síðar í umræðunni ef aðrir eru á mælendaskrá. Ég bara undirstrika að ekki er hér um neina brigð að ræða. Ríkisstjórnin og stjórn þingsins hafa haft fulla möguleika á því að mæta þannig til fundar að við getum flutt okkar mál og meira að segja hef ég ekki í hyggju að tala lengi. En ég ítreka mína ósk og frábið mér það að hér sé af okkar hálfu verið að tefja störf þessarar virðulegu deildar né heldur að ganga á gerða samninga um framgang mála hér á þessum degi.