Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur fjallað um 243. mál sem er frv. til laga um breytingu á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Hér er um tiltölulega einfalt mál að ræða, þ.e. í fyrsta lagi heimild til að fjölga varamönnum í Verðlagsráði og í öðru lagi er lagt til að fellt verði niður dagsektaákvæði sem hefur sýnt sig að ekki nær tilgangi sínum. Í stað dagsektaákvæðis um skýrsluskil komi almenn refsiákvæði vegna brota á lögum. Í þriðja lagi ákvæði til bráðabirgða um að verðlagning á orku frá orkuvinnslufyrirtækjum og dreifiveitum skuli falla undir ákvæði þessara laga á tímabilinu frá 1. mars 1989 til 1. sept. 1989, þ.e. um sex mánaða skeið.
    Á fund nefndarinnar komu Georg Ólafsson verðlagsstjóri, Ásmundur Stefánsson og Lára V. Júlíusdóttir frá ASÍ, Vilhjálmur Egilsson frá Verslunarráði, Eggert Ásgeirsson, Jóhann Már Maríusson og Kristján Jónsson frá Sambandi ísl. rafveitna og María J. Gunnarsdóttir frá Sambandi ísl. hitaveitna.
    Skylt er að geta þess að bæði frá Sambandi ísl. rafveitna og Sambandi ísl. hitaveitna komu fram andmæli gegn 3. gr. þessa frv. um að verðlagning frá orkufyrirtækjum heyrði undir þessi lög um sex mánaða skeið.
    Nefndin var ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir á þskj. 448. Undir nál. rita, auk þess er þetta mælir: Margrét Frímannsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir og Jóhann Einvarðsson. Ég legg því til, herra forseti, fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar að frv. verði samþykkt.