Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Eins og fram hefur komið við þessa umræðu lögðu þeir áherslu á það, bæði fulltrúar Alþýðusambands Íslands og aðrir þeir sem töluðu við fjh.- og viðskn., að síðasti kaflinn sem fjallað er um í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 6. febr. 1989, um umþóttun í kjölfar verðstöðvunar, sýndist við fyrstu sýn hafa efnislega þýðingu en hann er svo, með leyfi hæst. forseta:
    ,,Loks leggur ríkisstjórnin það fyrir Verðlagsstofnun að hún taki upp samstarf við verkalýðs- og neytendafélög um aðhald að verðlagi. Þetta er mikilvægt vegna þess að opinbert verðlagseftirlit, hversu gott sem það er, getur aldrei komið í staðinn fyrir árvekni neytenda.``
    Svo mörg voru þau orð. Þegar ég sá að hæstv. viðskrh. hafði kvatt sér hljóðs hélt ég kannski að hann mundi skýra þingdeildinni frá því að ríkisstjórnin hefði beitt sér fyrir því eða ákveðið að sérstök fjárveiting yrði veitt til verðlagsskrifstofunnar til þess að hún gæti sinnt þessu verkefni og kostað þetta samstarf, en eins og fram kom hjá þeim mönnum sem komu til fundar við nefndina féll þetta samstarf niður vegna þess að ekki hafði verið séð fyrir því að ríkishlutinn væri til staðar. Þó er það svo á Akureyri að þar er einn maður kostaður af verkalýðshreyfingunni í hlutastarfi til þess að halda uppi þessu samstarfi sem ríkisstjórnin virðist leggja svo mikla áherslu á.
    Á hinn bóginn kom það fram að hæstv. fjmrh. hefur sent Verðlagsstofnun um það strangt erindi eins og öðrum stofnunum að nauðsynlegt sé að spara í rekstri verðlagsskrifstofunnar og að verðlagsskrifstofan sé ekki undanþegin í þeim sérstöku sparnaðarráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið.
    Nú hefur ríkisstjórnin tilkynnt að þessar sérstöku sparnaðarráðstafanir eigi að koma við einstakar stofnanir eftir mánuðum, í tröppugangi, og er þá fyrir deildina fróðlegt að fá upplýsingar um það frá viðskrh. hvort hann hafi séð til þess að Verðlagsstofnun fái aukna fjárveitingu til að geta staðið undir því aukna starfi sem því fylgir að ná þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar fram um leið og það væri fróðlegt, herra forseti, að fá um það upplýsingar samtímis frá hæstv. fjmrh. hvort það sé ákvörðun hans að sá sparnaður sem hvarvetna er tilkynntur í opinberum rekstri nái einnig til Verðlagsskrifstofunnar og að verðlagsstjóra verði vikið frá störfum ef hann ekki sjái um að koma þeim sérstaka sparnaði áleiðis. Það væri m.ö.o. fróðlegt að fá upplýsingar um þetta hvort tveggja í senn.
    Í öðru lagi vil ég aðeins segja að það er andkannalegt að hlusta á þá hæstv. ráðherra sem bera ábyrgð á þeim miklu hækkunum sem urðu um sl. áramót vegna hækkunar á opinberum sköttum, veltusköttum og öðrum, hlusta á þá hæstv. ráðherra sem bera ábyrgð á þeirri verðbólgu sem nú er í landinu þegar þeir eru að tala um að það sé nauðsynlegt að þeir taki völdin af sveitarstjórnunum af því að einhver sérstök ástæða sé til að ætla að

sveitarstjórnirnar verði ósanngjarnar eða ósæmilegar í mati sínu á því hvaða hækkanir séu nauðsynlegar í sambandi við dreifiveitur eða rafveitur einstakra sveitarfélaga og orkuvinnslufyrirtæki einstakra sveitarfélaga. Þessu vil ég algjörlega vísa á bug. Það þarf ekki að skoða lengi né velta lengi fyrir sér hvað það er sem hefur valdið hækkunum innan lands, bæði á vörum og þjónustu. Það eru ekki sérstakar álögur frá sveitarfélögunum og það hefur meira að segja verið viðurkennt af Alþýðusambandi Íslands og öllum sem um verðlagsmál hafa fjallað að kaupmenn og aðrir hafi verið mjög hófsamlegir í sinni álagningu þannig að hækkanir hafi orðið minni en auknar álögur ríkisins gefi tilefni til. Ef það ætti að setja verðlagseftirlit á einhvern og það strangt verðlagseftirlit væri það á ríkisstjórnina sjálfa en ekki á aðra þegna í þessu þjóðfélagi sem auðvitað skilja það betur en ríkisstjórnin hvaða nauðsyn er á því að þess aðhalds sem nú verður hvarvetna að viðhafa í landinu vegna þess að útflutningsatvinnuvegunum er látið blæða út gæti hvarvetna.
    Ég sé svo ekki ástæðu til að fjalla neitt um 1. eða 2. gr. Þetta er auðvitað hvort tveggja hálfbroslegt. 1. gr. er hálfvandræðaleg vegna þess að þeir menn sem sæti hafa átt í Verðlagsráði og hafa komið til fundar við fjh.- og viðskn., og skiptir engu máli hvort þar er talað við embættismenn eða fulltrúa frá hagsmunasamtökum, eru allir sammála um að miklu heppilegra væri að hafa almenna heimild þannig að þeir sem tilnefna í Verðlagsráðið geti eftir efnum og ástæðum kvatt til funda í nefndinni þann sem við á en að þetta sé ekki svo rígbundið eins og hér er verið að tala um. Og að því var almennt fundið við nefndina en brosað samt góðlátlega og sagt að þetta væri kannski skárra en ekki. Þó væri undarlegt að vera að amast við þessu því í stórum dráttum hefðu vinnubrögð verið á þann veg að þó að aðalmaður hefði verið upptekinn hafi hann kallað fyrir sig þann sem næstur var og bar skynbragð á störf Verðlagsráðs eða þau sérstöku efni sem til umræðu voru. 1. gr. er algjörlega óþörf. Úr því verið er að hrófla við 3. málsgr. laganna væri betra að hafa orðalagið öðruvísi, en ef meiri hlutanum og viðskrh. er mjög í mun að hafa þetta einmitt svona er sjálfsagt að láta það afskiptalaust með öllu.
    2. gr. er líka leikaraskapur vegna þess að engar horfur eru á því að
Verðlagsráð muni ákæra fyrir vanrækslu þótt brot samkvæmt greininni skuli sæta viðurlögum skv. 52. gr. fremur en Verðlagsstofnun hefur farið refsileiðina þegar talað er um dagsektirnar þannig að það er heldur ekki ástæða til að ætla að þetta skipti neinu máli.
    1. og 2. gr. eru í stuttu máli sýndarmennska sem engu skiptir. 3. gr. er hálfkák vegna þess að sveitarfélögin hafa sýnt miklu meiri aðgæslu síðustu mánuði, verðstöðvunarmánuðina, en ríkisstjórnin sjálf og sveitarstjórnirnar hafa ekki gefið þau tilefni til hækkunar verðbólgu sem ríkisstjórnin hefur gefið. Það er þess vegna hálfbroslegt þegar ríkisstjórnin kemur

hér upp og segir: Það er nauðsynlegt að við í ríkisstjórninni, við í Stjórnarráðinu, pössum sérstaklega upp á sveitarstjórnirnar af því að almenningur verður að hafa traust á því að verðstöðvunartímabilið geti haldist svo sem sex mánuði í viðbót, að á umþóttunartímanum verði ekki of miklar verðhækkanir. Hverjir hafa verið að hækka og hvað hefur verið að hækka? Það væri fróðlegt, hæstv. forseti, ef einstakir þingmenn fengju sundurliðaðar allar þær hækkanir á margvíslegum vörum og þjónustu sem eru bein afleiðing af stjórnarathöfnum ríkisstjórnarinnar og þeim stjfrv. sem hafa verið knúin í gegnum þingið, hækkanir sem vita ekki aðeins að almennu verðlagi heldur vita einnig að því að skerða ráðstöfunartekjur almennings með beinum og óbeinum hætti. En á hinn bóginn tala einstakir ráðherrar um það með sérstökum fyrirmyndarsvip að þeir séu nú að beita sér sérstaklega fyrir því að fólkið úti á landsbyggðinni skuli ekki hafa það bágt eða eiga illt.
    Auðvitað er þetta frv. hálfkák, sjálfgert að láta 1. og 2. gr. rúlla í gegnum deildina, meinlausar greinar, en hitt er allsendis útilokað að láta afskiptalaust þegar ríkisstjórnin ætlar að fara að kenna sveitarfélögunum að haga sér eins og ríkisstjórnin hefur hagað sér í verðlagsmálum það sem af er síðan hún settist að völdum.