Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Virðulegur síðasti ræðumaður flytur tvær brtt. um að brott falli úr frv. til lánsfjárlaga tvær greinar, 23. og 24. gr. Þetta eru sambærilegar greinar og voru í síðast gildandi lánsfjárlögum og takmarka eða fella niður framlög til annars vegar jarðræktar og hins vegar búfjárræktar.
    Það er verið að vinna að lagabreytingum í landbrn. hvað varðar þessi mál, sérstaklega jarðræktarlögin, og þær breytingar miða, eins og hefur reyndar komið fram í umræðunni, að því að breyta nokkuð hlutföllum og þar með útgjöldum til jarðræktarframlaga. Ætlunin er að draga úr eða fella jafnvel alveg niður styrki til ýmissa liða sem kallast mega framleiðsluhvetjandi eða afkastaaukandi í hinum hefðbundnu búgreinum þar sem þannig háttar til að ekki er þörf á meiri framleiðslu og ef eitthvað er jafnvel að draga hana saman. Það þykir því ekki vera að öllu leyti í takt við aðstæður dagsins í dag að halda inni í þessum lögum styrkjum og framlögum sem voru á sinni tíð hugsaðir til að auðvelda mönnum að auka framleiðslu og stækka bú sín, auka ræktun o.s.frv., voru eðlileg og þörf mjög á þeim tíma en eru í öllu falli miklum mun umdeilanlegri eins og aðstæður eru í dag.
    Það er ætlunin að kynna í ríkisstjórninni alveg á næstunni drög að frv. um breytingar á jarðræktarlögunum og það er von mín að hægt verði að leggja slíkt frv. fyrir búnaðarþing sem kemur saman í byrjun annarrar viku héðan frá. Vinna að búfjárræktarlögum er nokkuð styttra komin, enda er þar um viðameiri breytingar að ræða að ýmsu leyti þó að þær séu minni í útgjöldum og ég get á þessu stigi ekki sagt mikið um hvenær hægt verður að kynna þar nýtt frv. eða frv. til breytinga á þeim lögum, en vonandi verður það einnig fljótlega.
    Það var gefin um það yfirlýsing, eins og síðasti ræðumaður vitnaði hér til, að í tengslum við væntanlegar lagabreytingar, þegar jarðræktarlögunum yrði breytt og útgjöldum þar breytt, yrði tekið á því hvernig fara skyldi með skuldir vegna framkvæmda á grundvelli gildandi laga og ég get ekki miklu við þá yfirlýsingu bætt annað en vitnað til hennar og að hún stendur og er gefin í umboði ríkisstjórnarinnar og með samþykkt meiri hl. fjvn. Eins og kunnugt er eru ýmsar leiðir færar þegar þannig háttar til að taka á sérstaklega á einstökum útgjaldamálum innan fjárlagaárs. Þá er það ýmist gert með því að afla útgjaldaheimilda sérstaklega í viðkomandi lögum eða semja með einhverjum hætti um greiðslur og von mín væri sú að unnt væri að ná sæmilegu samkomulagi um hvernig standa mætti að því að gera upp þessar útistandandi kröfur vegna gildandi laga e.t.v. á einhverjum tíma. Ég tek það fram að af minni hálfu hefur því uppgjöri ekki verið lofað innan þessa árs og að sjálfsögðu gæti það gerst að menn þyrftu, eins og hefur gerst á þessu ári og hinu síðasta, að færa að einhverju leyti til þessar greiðslur fram yfir áramót.
    Ég held að öllum sé ljóst að það er tímabært að

fara aftur yfir þessi ákvæði og breyta þeim og ég hef ekki orðið var við annað en að forsvarsmenn bænda séu því sammála. Að sjálfsögðu er ekki ætlunin að þarna verði eingöngu um breytingar að ræða sem takmarka útgjöld og skera á slíka styrki heldur einnig um endurskoðun að ræða sem taki tillit til breyttra aðstæðna, nútímaaðstæðna. Þannig gætu til að mynda komið inn nýir liðir sem þættu þá vera meira í takt við aðstæður og þörfina á framlögum af þessu tagi. Ég nefni þar sem dæmi kornyrkju, skjólbeltaræktun og því um líkt.
    Herra forseti. Ég held að ég þurfi í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Ég get tekið undir margt af því sem hv. flm. og síðasti ræðumaður sagði um þýðingu jarðræktarlaganna á sinni tíð og nauðsyn umbóta og breytinga í þessari atvinnugrein sem að sjálfsögðu er fyrir hendi nú eins og hefur ætíð verið. Einmitt þess vegna held ég að það sé tímabært eins og það er alltaf í raun að endurskoða löggjöf og láta hana vera sem best í samræmi við aðstæður líðandi stundar.
    Tillaga flm. um að fella niður skerðingarákvæði 23. og 24. gr. frv. er því af góðum hug, það veit ég, en aðstæður hljóta að ráða úrslitum. Því miður var allri fjárlagagerð mjög þröngur stakkur sniðinn og þess vegna urðu menn að sætta sig við það í annað skiptið í röð að þessi útgjöld væru takmörkuð umfram fyrirmæli sérlaga eins og reyndar er gert í fjölmörgum tilvikum öðrum með skerðingarákvæðum í lánsfjárlagafrv., lögum ef af verður. Þannig er það að við sitjum uppi með þá niðurstöðu að þó að kóngur vilji sigla, þá hlýtur byrinn að ráða. Og þannig er það í þessu máli, því miður.