Ríkisreikningar 1981-1986
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vék að því fyrr í dag í umræðum um frv. til lánsfjárlaga að ég hefði beitt mér fyrir því að fyrir Alþingi yrðu lögð frumvörp um ríkisreikninga fyrir allmörg undanfarin ár. Ég vék jafnframt að því að það hefði verið eitt af einkennum losaralegra vinnubragða á þessu sviði bæði af hálfu þings og ríkisstjórna á undanförnum áratug að ekki hefði nægilega vel verið fylgt þeim nauðsynlegu formum og efnislegri meðferð um fjármál ríkisins sem felst í því að leggja fram ríkisreikninga og samþykkja samsvarandi fjáraukalög gagnvart liðnum árum. Ég ákvað þess vegna fljótlega eftir að ég kom í fjmrn. að leggja fram á Alþingi þau frv. sem ég mæli hér fyrir og reyndar önnur sem tengjast þessu hreingerningarstarfi.
    Ég fagna því að þessi frumvörp hafa fengið greiðan aðgang í gegnum Nd. þingsins og vænti þess einnig að svo verði í þessari hv. deild. Þau gætu að ýmsu leyti skapað tækifæri til að ræða um meðferð ríkisfjármála á þeim áratug sem nú er senn á enda. Í sjálfu sér getur það einnig gerst þegar mælt verður fyrir uppgjöri ársins 1987 sem ég ætla mér að reyna að gera einnig á þessu hv. Alþingi.
    Reyndin er sú að það má margvíslegan lærdóm draga af þeim gögnum sem hér eru fram lögð og það eina sem kemur kannski í veg fyrir að þingið verji nauðsynlegum tíma til þess er að þetta heyrir meira sögunni til en þeim brýnu viðfangsefnum sem þingið er alla jafnan að fást við á hverjum tíma.
    Það er í sjálfu sér slæmt að frv. af þessu tagi séu lögð fram mörgum, mörgum árum eftir að atburðirnir hafa átt sér stað vegna þess að þá er hvorki áhugi hjá þingi né þjóð að taka þau til ítarlegrar meðferðar. Ég vona hins vegar að á næstu árum muni þeir sem í stóli fjmrh. sitja tryggja að þingið fái samsvarandi frumvörp til umfjöllunar svo snemma að áhugi þings og þjóðar á að ræða ítarlega niðurstöðu áranna sé nægilega vakandi til að tryggja að menn dragi nauðsynlega lærdóma af þessari reynslu og breyti hegðun sinni í nútíðinni í samræmi við það.
    Samkvæmt samráði við lögfróða menn var talið rétt að flytja þetta til hagræðis í þeim búningi sem það er hér lagt fram og vonast ég til þess að að lokinni umræðu í þessari hv. deild verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.