Ríkisreikningur 1979
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Þótt það hafi verið ærið verk út af fyrir sig að leggja fyrir ríkisreikninga frá þessum áratug kom hins vegar í ljós við nánari athugun að í meðferð þingsins hafði á sínum tíma ekki verið lokið samþykkt ríkisreiknings fyrir árið 1979. Það er satt að segja dálítið lærdómsríkt fyrir þingið og störf þess á undanförnum árum, á þeim áratug sem nú er senn á enda að ekki skuli hafa vaknað upp óskir um að málið væri afgreitt og þingheimur unað við að þessi formskylda væri ekki uppfyllt. Ég ákvað þess vegna einnig að leggja fyrir þingið ríkisreikninginn fyrir árið 1979 þótt ærið langur tími sé liðinn síðan þeir atburðir gerðust sem hann skráir og, ef ég man rétt, 5--6 fjármálaráðherrar setið síðan og allnokkrar ríkisstjórnir.
    Ég mælist þess vegna til þess að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn. svo að það megi fá samsvarandi meðferð í nefndinni og þau frumvörp sem ég mælti fyrir áðan.