Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það er ánægjuefni að ríkisstjórnin skuli þegar hafa samþykkt að lántökugjald af erlendum lánum sem tekin eru vegna verkefna innlendra skipasmíðastöðva skuli ekki innheimt og geri ég ráð fyrir að ríkisstjórnin muni láta athuga sérstaklega hvort nauðsynlegt sé að beita sérstakri lagaheimild til að þetta megi koma fram, en þetta var upplýst í umræðunum fyrr í dag af hæstv. viðskrh. og er auðvitað mikið ánægjuefni fyrir okkur sem höfum verið sérstakir talsmenn skipasmíðastöðvanna.
    Ég vil líka lýsa yfir ánægju minni yfir því að það skuli hafa náðst samkomulag um að eftir atvikum geti lánsfjárhæðin farið upp í 85% vegna þess að við vitum að skipasmíðaiðnaður hér á landi stendur höllum fæti gagnvart erlendri samkeppni, ekki síst vegna þess að skipasmíðastöðvar í okkar helstu samkeppnislöndum njóta ekki þess einungis að þar í landi eru ríkisstjórnir sem hafa skilning á atvinnurekstrinum heldur njóta skipasmíðastöðvarnar þar margvíslegra hlunninda og niðurgreiðslu, ekki síst á lánsfjárkostnaði. Hér aftur á móti búa skipasmíðastöðvarnar við að gengið er rangt skráð og auðvitað mjög undarlegt í ljósi þeirra ummæla sem hæstv. fjmrh. hafði fyrr í dag að upplýsingar hafa borist um það frá Seðlabanka Íslands að ríkisstjórnin stefnir að því að gengi krónunnar fari hækkandi á þessu ári gagnstætt því sem lýst hefur verið yfir hér við umræðurnar. Ég vil, herra forseti, láta í ljós ánægju mína yfir því að það skyldi hafa tekist að fá ríkisstjórnina til þess að fallast á að ekki sé réttmætt að lántökugjaldið sé lagt á lán vegna verkefna í skipasmíðastöðvum, lýsi yfir sérstakri ánægju minni yfir því.
    Í öðru lagi vil ég víkja að því að ég tel óhjákvæmilegt að lántökugjaldið verði jafnframt fellt niður af lánum sem veitt eru til skuldbreytingar hjá útflutningsfyrirtækjum eða samkeppnisfyrirtækjum, en þegar frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum var samþykkt í þinginu var sérstaklega gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin hefði heimildir til að fella lántökugjaldið niður þegar um samræmdar aðgerðir væri að tefla til uppbyggingar eða endurreisnar á fyrirtækjum í vissum atvinnugreinum. Auðvitað dettur manni í hug að lán sem t.d. eru tekin vegna skuldbreytingar hjá loðdýraræktinni, til þess að styrkja fjárhagslegan grundvöll t.d. fyrirtækja í ullariðnaði, þegar við erum að tala um hvernig hægt sé að koma til móts við fyrirtæki og byggðarlög þar sem atvinnuástand er mjög bágborið, ég tala ekki um þar sem atvinnuleysi hefur staðið svo mánuðum skiptir, einmitt í slíkum byggðarlögum er nauðsyn á því að þetta sérstaka 6% lántökugjald verði ekki á lagt.
    Nú hefur hæstv. iðnrh. lýst því yfir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að atvinnulífið verði --- ég man ekki hvernig hann komst að orði --- tryggt með nýjum fyrirtækjum og nýrri starfsemi þar sem óhjákvæmilegt væri að hin eldri fyrirtæki færu á höfuðið. Það ætti m.ö.o. að blása nýju lífi í

atvinnulífið á þessum stöðum.
    Nú hefur hins vegar hæstv. fjmrh. verið algerlega ófáanlegur til að skýra frá því hvaða viðræður hafa farið fram milli hans og hæstv. forsrh. um hvers eðlis þær ráðstafanir eru sem ríkisstjórnin hefur í hyggju í þessu sambandi. En ég bað einmitt um það, hæstv. forseti, fyrr í dag að hæstv. forsrh. kæmi vegna þeirra yfirlýsinga sem hann hefur verið að gefa um landsbyggðina. Ég hefði að vísu sætt mig við það ef ég fengi endursögn hæstv. fjmrh. af skoðunum hæstv. forsrh., en nú hefur hæstv. fjmrh. alls ekki fengist til þess að skýra þingdeildinni frá því hvað forsrh. hefur í hyggju þannig að ég verð að láta í ljós sérstaka óánægju yfir því að virðingin fyrir rétti þingmanna til að krefja ráðherra svara skuli ekki vera meiri hjá stjórnarmeirihlutanum en raun ber vitni. Við verðum vör við á hverjum degi að ráðherrar reyna að þegja og þegja og þegja, sérstaklega hæstv. sjútvrh., honum þykir gott að þegja, og skil ég það í þeim félagsskap sem hann er uppi í Stjórnarráði að hann telji það best vegna sjálfs sín og annarra að segja sem minnst frá því sem gerist í þeim hóp. En hæstv. fjmrh. segir að stundum daglega, hvern einasta dag og aldrei sjaldnar en vikulega sé ríkisstjórnin og ráðherrarnir að tala saman um hvernig þeir geti bjargað einstökum fyrirtækjum úti á landsbyggðinni. Hæstv. fjmrh. talaði um þegar hann var nýsestur í stólinn að það væri nauðsynlegt að þeir gætu kippt í spottana, ráðherrarnir, á stjórnarmönnum fjölskyldusjóðs Stefáns Valgeirssonar til þess að það væri hægt að skipuleggja það ofan frá hvernig hægt væri að breyta eignaraðild fyrirtækjanna. Hann sagði að það væri nauðsynlegt að koma tilteknum fyrirtækjum á höfuðið og hefur nú orðið vel ágengt í því satt að segja. Nú talar hann um að það eigi að blása lífinu í ný fyrirtæki á þessum stöðum og ríkisstjórnin ætli að koma til skjalanna. Hvernig hugsar hæstv. fjmrh. sér að gera það?
    Hann sagði áðan að í stjórn Atvinnutryggingarsjóðsins væru ginnheilagir menn. Hann sagði í september að þeir ættu að hlíta fyrirmælum og pólitískri stjórn meiri hlutans, ríkisstjórnarinnar, og sagði að það væri ógerningur að hafa bankalega stjórn á þessu fyrirbæri, Atvinnutryggingarsjóðnum, vegna þess að það þyrfti að stjórna þessum lánveitingum og þessari fyrirgreiðslu pólitískt eftir þeim viðhorfum sem væru ráðandi í ríkisstjórninni. Nú segir
hæstv. fjmrh. að þessi nýja stofnun sé svo vel undirbyggð að þar séu vinnubrögð vandaðri en í einstökum bankastofnunum og hjá einstökum fjárfestingarlánasjóðum og þykist geta lagt mat á það.
    Ég leyfi mér að lýsa því yfir að ég hef af því sannar spurnir að í fleiri en einu tilviki og fleiri en tveimur hefur verið beitt pólitískum þrýstingi í sambandi við afgreiðslu mála í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs, enda er þar einvörðungu um pólitíska fulltrúa að ræða. Það gefur líka tilefni til að skilja betur en ella hvers eðlis þessi starfsemi er að ríkisstjórnin bauð það fram í stjórnarmyndunarviðræðum við Borgfl. að sá flokkur

mundi einnig fá pólitískan fulltrúa inn í stjórn Atvinnutryggingarsjóðsins ef ríkisstjórnin segði af sér og ný yrði mynduð með Borgfl., ef til samkomulags kæmi með Borgfl. Þetta er ekki rangt. Það er deginum ljósara að þarna hefur verið um pólitískt makk að ræða í samræmi við þær yfirlýsingar sem fjmrh. gaf fyrr í haust.
    Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð. Í fyrsta lagi fagna ég því að lántökugjaldið skuli nú verða fellt niður af verkefnum til skipasmíðaiðnaðar, að fá algjörlega úr því skorið, svart á hvítu, og í öðru lagi ítreka ég fyrirspurn mína til hæstv. fjmrh.: Hversu verður háttað ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar til að byggja upp á ný atvinnustarfsemi í þeim byggðarlögum þar sem atvinnuleysi hefur verið verulegt eða vofir yfir?
    Ég tel, herra forseti, að deildin eigi skýlausan rétt á því í tengslum við lánsfjárlögin að fá svör við þessari spurningu vegna þess að við erum hér að fjalla um fjárhag þeirra sjóða sem þurfa ríkisábyrgð til að geta gegnt því hlutverki sem ríkisstjórnin hefur falið þeim.