Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Þegar hv. þm. Halldór Blöndal fagnar einhverju talar hann yfirleitt gegn betri vitund og svo var einnig í dag. Hv. þm. Halldór Blöndal veit ósköp vel, vegna þess að ég greindi honum frá því utan umræðna í þessari hv. deild fyrir skömmu, að ríkisstjórnin hefur ekki tekið formlega ákvörðun um hvaða einstakar atvinnugreinar eða fyrirtæki eða tegundir lána verða undanþegin erlenda lántökuskattinum samkvæmt sérstakri heimild sem sett var inn í lögin um þennan skatt fyrir jólin.
    Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef sem fjmrh. kosið að hafa við þá formlegu ákvörðun ákveðnar almennar reglur sem hægt sé að vísa til en vera ekki að tína út eina og eina grein eða eina og eina tegund lána eftir geðþóttaákvörðunum, þrýstingi eða ákveðnu mati. Þetta veit hv. þm. ósköp vel vegna þess að ég greindi honum frá því áðan. Það breytir því ekki, eins og ég sagði við 2. umr. þessa máls, að lánveitingar til skipasmíðaiðnaðar og til sérstakra byggðamála og atvinnumála þeirra byggðarlaga sem eru sérstaklega illa á vegi stödd eru að mínum dómi efst á blaði í þessum efnum. Það segir auðvitað efnislega mikið um málið. En ákvörðun hefur ekki verið tekin, hv. þm., og ég vænti þess að hv. þm. kunni greinarmun á afstöðu og viðhorfum og ákvörðunum.
    Ástæðan fyrir því að ákvörðunin hefur ekki verið tekin er einfaldlega sú meginregla, sem við höfum fylgt í þessu máli, að móta almennar reglur um vinnubrögð í atvinnumálum en tíðka ekki þær pólitísku geðþóttaákvarðanir sem hv. þm. Halldór Blöndal og flokkur hans hefur verið frægur fyrir um langan tíma vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal situr sem sérstakur pólitískur kommissar Sjálfstfl. í bankaráðum og sjóðakerfi til að gæta þar pólitískra hagsmuna Sjálfstfl., hefur setið lengi og ætlar sér að sitja lengi enn.
    Við höfum aftur á móti í þessari ríkisstjórn reynt að tryggja fagleg og eðlileg vinnubrögð í þessum málum og það verður einnig gert í þessu máli og varðandi atvinnumál þeirra byggðarlaga sem hann einnig vék að í seinni hluta sinnar ræðu. Í þeim efnum er algjör samstaða innan ríkisstjórnarinnar, fullkomin og eindregin. Þar gilda þau sömu vinnubrögð og hafa gilt við starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs að þar séu málin faglega metin og ítarlega og skoðuð út frá þeim sjónarmiðum sem tryggja rekstrarlega sterka stöðu og almennt faglegt mat.
    Enn þá einu sinni í þessari ræðu vogaði hv. þm. Halldór Blöndal sér að tala um Atvinnutryggingarsjóðinn sem fjölskyldusjóð Stefáns Valgeirssonar í niðrandi merkingu. Það átti að þjóna þeim tilgangi að reyna að koma pólitískum misnotkunarstimpli á þennan sjóð þó að ég beri meiri virðingu fyrir Stefáni Valgeirssyni en mörgum öðrum sem nálægt málum hafa komið í þessu landi á undanförnum áratugum.
    Þegar Atvinnutryggingarsjóðurinn var settur á laggirnar flutti hv. þm. Halldór Blöndal hér margar

ræður um að þarna yrði á ferðinni pólitísk misnotkun, pólitískar gæðaúthlutanir, einhver sérstök skussastarfsemi, vegna þess að hann bjóst við því að þessi sjóður mundi starfa eins og þeir sjóðir og stofnanir sem Sjálfstfl. hefur byggt upp í gegnum tíðina og alltaf hafa þjónað þeim fjölskylduhagsmunum Sjálfstfl. í atvinnumálum sem þessi sérstakur þingmaður Engeyjarættarinnar og fjölskyldufyrirtækjanna í Sjálfstfl. hefur tekið að sér að gæta hér á undanförnum árum af því að hann er bara gamaldags pólitíkus í ætt við gömlu fyrirgreiðslupólitíkusa Sjálfstfl. sem fara inn í bankaráðin og sjóðakerfið til að tryggja pólitíska fyrirgreiðslu. Hann hélt auðvitað að þessi starfsemi yrði á þennan veg, en svo var auðvitað ekki. Nú hafa menn marga mánuði þar sem menn geta litið yfir reynsluna. Og hver er hún? Hún er á þann veg að hv. þm. Halldór Blöndal getur ekki nefnt eitt einasta dæmi um afgreiðslu Atvinnutryggingarsjóðs þar sem ekki hefur verið gætt faglegra, rekstrarlegra og efnahagslegra sjónarmiða, ekki eitt einasta dæmi. Eins og forustumenn í atvinnulífi og peningakerfi þessa lands vita fullvel hafa þarna verið faglegri og efnislegri vinnubrögð en á velflestum öðrum sviðum. Það eru nákvæmlega sömu vinnubrögð sem einnig verða viðhöfð varðandi björgunarstarfsemi atvinnulífs þeirra byggðarlaga sem sérstaklega þarf að styrkja. Þar verður ekki um það að ræða að það verði tínt úr eftir einhverjum pólitískum sérhagsmunum eins og Sjálfstfl. hefur gert í gegnum tíðina þegar hann beitti sér fyrir pólitískum fjárfestingum í sjávarútvegi og annars staðar allt í kringum landið af því að hann þurfti að vega upp á móti frystihúsum og atvinnufyrirtækjum Sambandsins, sem tengd voru Framsfl., sérstök íhaldsfyrirtæki einnig. Það þekki ég t.d. frá Þingeyri við Dýrafjörð ef hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vill fara yfir sögu þessara byggðarlaga ( GHG: Ég sagði ekki neitt.) þar sem pólitísk fjárfesting Sjálfstfl. réði ríkjum. Ein af meginástæðum fyrir því hvernig er komið fyrir atvinnulífi þessa lands er að pólitískir kommissarar Sjálfstfl., hvort sem það er í Byggðastofnun, Búnaðarbankanum eða annars staðar, hafa misnotað aðstöðu sína til að láta pólitísk sjónarmið vega meira í fyrirgreiðslu en rekstrarlegt og efnahagslegt mat. Það er í þeim anda að hv. þm. Halldór Blöndal skuli enn á ný hér vera talsmaður þessara viðhorfa og skuli ekki geta skilið að nú er runnin upp sú
tíð í þessari stjórn að það verða fagleg, rekstrarleg og almenn sjónarmið sem þarna ráða.
    Það hefur komið fram hvað eftir annað, og er hægt að endurtaka hér enn á ný fyrir hv. þm. Halldór Blöndal ef hann hefur ekki skilið það, að þessi ríkisstjórn tók fagnandi þeirri tillögu Sjálfstfl. og Kvennalistans, sem Kvennalistinn var höfundur að, að setja upp sérstakan hlutabréfasjóð við Byggðastofnun til að styrkja eiginfjárstöðu þeirra fyrirtækja sem sérstaklega þurfa þess stuðnings með, ekki út frá pólitískum sérhagsmunasjónarmiðum heldur út frá almennum rekstrarlegum og byggðalegum

sjónarmiðum. Eins og hvað eftir annað hefur komið fram og er hægt að segja enn á ný svo þingmaðurinn loksins skilji það munu þau fyrirtæki sem ekki hafa staðist þær faglegu og rekstrarlegu kröfur sem Atvinnutryggingarsjóður hefur sett en eru talin meginburðarásar í atvinnulífi byggðarlaganna sérstaklega verða skoðuð út frá því sjónarmiði, faglega og rekstrarlega og almennt séð en ekki út frá einhverri sérstakri pólitískri fyrirgreiðslu, hvort hægt sé að tryggja atvinnulífið í þessum byggðarlögum með því að veita auknu eigin fé inn í þessi fyrirtæki, m.a. frá bönkunum og fjárfestingarlánasjóðunum sem lánað hafa þessum fyrirtækjum.
    Við væntum þess að stór hluti þessara fyrirtækja geti fengið trausta rekstrarstöðu með þessari aðferð. En það er hins vegar ljóst, því miður, að það er ákveðinn hluti fyrirtækja sem eru svo illa á sig komin að það verður að gera þau upp á gjaldþrotagrundvelli. Ríkisstjórnin hefur hins vegar mótað þá stefnu að ef þau fyrirtæki hafa verið burðarásar í atvinnulífi heilla byggðarlaga verði reynt að tryggja það með almennum hætti en ekki sérstakri pólitískri fyrirgreiðslu að ný fyrirtæki geti tekið þar til starfa með sterkari rekstrarstöðu, trausta eiginfjárstöðu og möguleika til að starfa áfram með eðlilegum hætti.
    Ég sé það á hv. deildarmönnum að þeim finnst kannski að eðlilegra hefði verið að ég hefði svarað hv. þm. Halldóri Blöndal á tveimur þremur mínútum einhverjum innantómum kurteisisorðum. En ég verð að segja að mér er farið að ofbjóða að sitja undir þessum málflutningi dag eftir dag og viku eftir viku, endalausu kjaftæði sem ekki á nein tengsl við raunveruleikann þar sem mistúlkað, rangtúlkað og ranghermt er það sem menn hafa sagt eins og þegar hann var að fara með fullyrðingar sem hann sagði að ég hefði sagt fyrir mörgum vikum eða mánuðum og hvergi er hægt að finna stað í mínum ummælum.
    Auðvitað er hægt að þróa málflutning á Alþingi með þessum hætti, en þjónar það þeim tilgangi að taka alvarlega á málefnum þessarar þjóðar? Þjónar það þeim tilgangi að treysta í raun og veru atvinnulíf landsbyggðarinnar? Þjónar það þeim tilgangi að þróa íslenskt þjóðfélag úr gamla fyrirgreiðsluþjóðfélaginu þar sem flokkspólitískir hagsmunir réðu mestu um fjárfestingar í atvinnulífinu yfir í eðlilegt, faglegt og rekstrarlegt þjóðfélag þar sem almennir hagsmunir fólksins sitja í fyrirrúmi og almenn rekstrarleg sjónarmið ráða því hvaða rekstur fyrirtækjanna lifir og hver ekki. Ég hélt satt að segja að Sjálfstfl. vildi nútímavinnubrögð í þessum efnum. Ég hélt satt að segja að Sjálfstfl. mundi taka undir það þegar menn vilja flytja þetta þjóðfélag úr gamla pólitíska fyrirgreiðsluþjóðfélaginu yfir á hið almenna siðgæðisstig sem tíðkast í flestum nágrannalöndum okkar. En mér finnst margt í málflutningi Halldórs Blöndals hér og áður benda til þess að hann vilji áfram viðhalda hinu gamla fyrirgreiðslukerfi.
    Við stöndum þess vegna frammi fyrir því þegar reynslan af Atvinnutryggingarsjóði sýnir okkur hvernig hægt er að vinna að þessum málum og reglugerðin

um hlutabréfasjóðinn sem hæstv. ríkisstjórn hefur kynnt stjórnarandstöðu sýnir hvernig á í framhaldi að halda áfram að vinna að málunum með þessum hætti og tekið var undir tillögur Sjálfstfl. og Kvennalistans í þessum efnum. Þá stóð ég í þeirri trú að menn ætluðu kannski að sameinast um það að taka upp faglegri og nútímalegri vinnubrögð í þessum efnum. Ég vona að svo verði enn vegna þess að það er allt of dýrt fyrir þetta þjóðfélag að halda uppi fjárfestingarkapphlaupi sem stafar fyrst og fremst af varðveislu pólitískra sérhagsmuna eða einhvers annarlegs samtryggingarkerfis sem hefur orðið þessu þjóðfélagi allt of dýrt.