Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Vegna þeirra orða sem hér hafa fallið um skipasmíðaiðnaðinn og fyrirgreiðslu til hans vildi ég að eftirfarandi kæmi fram: að iðnrh. gerði tillögu til ríkisstjórnarinnar 10. febr. um að Byggðastofnun fái heimild til erlendrar lántöku, allt að 200 millj. kr. á lánsfjárlögum 1989, vegna skipaviðgerða hér á landi. Andvirði þessa láns verði notað til að endurlána þeim aðilum sem láta gera endurbætur á skipum sínum innan lands. Stjórn Byggðastofnunar ákveði endurlánin samkvæmt sérstökum reglum og meginefni þeirra verði nánar tilgreint í fylgiskjali með þessari tillögu, með þeirri breytingu þó að hámark þessara lána verði hækkað í 85% af kostnaði við endurbæturnar úr 80%. Lánskjör, vextir og lánstími verði ákveðinn af stjórn Byggðastofnunar á grundvelli reglna sem ríkisstjórnin hefur staðfest lögum samkvæmt. Ríkisstjórnin gerir þessa samþykkt til að tryggja samkeppnisstöðu innlendra skipasmíðastöðva og í þágu sjávarútvegsins. Með vísan til laga um breytingu á lögum nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum o.s.frv., ákveður ríkisstjórnin að fella niður lántökuskatta af erlendri lántöku vegna þessara samkeppnislána til innlendra skipasmíðastöðva.
    Síðan hefur það gerst í þessu máli að iðnrh., fjmrh. og sjútvrh. hefur verið falið að ganga endanlega frá málinu að því að ég best veit þannig að ég sé ekki betur en að þetta mál sé allt saman á hreinu og réttu róli og menn þurfi ekki að gera sér miklar áhyggjur af því og ætti málið að geta verið útrætt þess vegna. ( HBl: Hvor hefur þá rétt fyrir sér, iðnrh. eða fjmrh.?) Hv. þm. Halldór Blöndal hlýtur að hafa heyrt hvað ég sagði og vonandi skilið.