Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að fara nánar ofan í það sem hæstv. fjmrh. sagði um að hér skyldu menn ræða þessi mál á grundvelli faglegra og rekstrarlegra sjónarmiða. Ég tek undir það. Það er meginmál. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að þegar við erum að fjalla um þetta ræðum við í samhengi hvernig á að framkvæma hin faglegu og rekstrarlegu sjónarmið þegar kemur að því að sérhagsmunir verði ekki látnir ráða. Það þýðir að allir sem til greina koma sitji við sama borð burtséð frá því hvaða rekstrarform er um að ræða hjá þeim fyrirtækjum sem þurfa væntanlega einhverrar hjálpar við í þeim erfiðleikum sem þau standa í.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, ítreka það sjónarmið mitt áðan að ef þessum forsendum er ekki fullnægt lagalega sérstaklega er verið að framkvæma þarna ákveðna sérhagsmuni í þágu ég vil segja sérstaklega einnar tegundar félagsforms á Íslandi sem eru þau fyrirtæki sem eru starfrækt hérlendis undir því formi að vera samvinnufélög. Það á alveg sérstaklega við Samband ísl. samvinnufélaga. Ég vil þess vegna endilega, til þess að hæstv. fjmrh. fái það alveg á hreint hvað er að þjóna ekki sérhagsmunum, gera honum grein fyrir því í hverju það er fólgið.
    Þegar verið er að gera úttekt á fyrirtækjum úti á landi, sem starfa við mismunandi rekstrarform, stöldrum við við að ýmist er um að ræða einkafyrirtæki eða samvinnufyrirtæki. Í þeim erfiðleikum sem þessi fyrirtæki eiga við að búa og eru gefin út á það að eiginfjárstaðan sé ekki nein samkvæmt reikningum viðkomandi fyrirtækja í þeim byggðarlögum sem þau starfa, þá er ekki um jafnstöðu að ræða, að meðan einkafyrirtækið, hlutafélagið, hefur tapað öllu sínu og er gert upp og þar með allar eignir sem það félag hefur yfir að ráða í öðrum fyrirtækjum skuli samvinnufyrirtækið vera eftir sem áður á staðnum sem á raunverulega stóran eignarhlut í Sambandi ísl. samvinnufélaga. Við slíkar aðstæður er enginn vandi að réttlæta fyrir sjálfum sér og öðrum að hin faglegu rök mæli með því að samvinnufyrirtækið, kaupfélagið eða samvinnuútgerðin, skuli halda áfram vegna þess að eignarhlutur hennar, þó að hann sé ekki skráður og uppfærður, hlýtur að vera meiri og betri með þann bakhjarl sem Sambandið er með þeirri eignarstöðu sem Sambandið væntanlega hefur. Þannig er hægt að afgreiða hvert einasta fyrirtæki úti á landi sem hefur verið í eigu einkaaðila í sambærilega vondri rekstrarstöðu. Það er þetta markmið sem ýmsir hæstv. ráðherrar hafa og ýmsir hv. stjórnarstuðningsmenn en ekki allir. Ég vil ekki gefa mér að hæstv. ráðherrar úr röðum Alþfl. séu búnir að gera þetta upp við sig með þeim hætti sem ég lagði það fyrir. Ég trúi því ekki á hæstv. ráðherra Alþfl. að þegar þeir skoða þetta í kjölinn séu þeir búnir að gera upp við sig að þeir vilji ekki framkvæma þá réttstöðu sem á að vera fyrir hendi. Þeir vilja hafa tvo möguleika. Annar er að neita að styðja hugmyndir núv. ríkisstjórnar sem fela í sér þjónustu við sérhagsmuni sem hægt er að réttlæta með fögrum sjónarmiðum eða hv.

alþýðuflokksmenn taka þátt í með mér þegar ég legg fram frv. til l. að Sambandið færi upp eignarhluta eignaraðila í reikningum sínum þannig að það komi fram í reikningum eignaraðila Sambandsins sem eru kaupfélögin og samvinnuútgerðirnar. Þetta er lágmarkskrafa. Ef þessu verður ekki fullnægt er hæstv. fjmrh. vísvitandi að þjóna sérhagsmunum rekstrarforms sem heitir samvinnuhreyfing. Þá er það rétt, sem hv. þm. Halldór Blöndal segir, að það sé markmið og stefna ríkisstjórnarinnar að koma einkafyrirtækjunum fyrir kattarnef, láta flæða undan þeim. Ég vil ekki taka svo sterkt til orða. En þannig væri hægt að framkvæma þetta.
    Hvort hér sé um að ræða þjóðnýtingu eða ekki er orðaleikur. Ja, SÍS. Ég skal koma nánar að SÍS. Ég skal koma með nokkrar tölur á eftir, virðulegi hæstv. viðskrh. (Gripið fram í.) Ég er reiðubúinn að ganga svo nærri hæstv. ráðherrum í upplýsingum ef þeir vilja, sem verða þá upplýsingar til þjóðarinnar í heild, sem eru kannski geymdar í skúffum í Stjórnarráðinu eða í bönkunum sem hæstv. fjmrh. gaf í skyn að væru svo rotnir og spilltir og væru á kafi í sérhagsmunum íhaldsins og Framsfl. Það er kannski hægt að koma með þetta allt upp á borðið. Við skulum þá gera það. Þess vegna, eins og ég sagði áðan, skyldu menn tala varlega vegna þess að það eru kannski hér menn inni sem gætu rætt þetta með þeim hætti, án þess að fullyrða nokkuð, að það kæmi við einhverja í hæstv. ríkisstjórn. En það gerir það hvort sem er. Það er óumflýjanlegt.
    Ég vil leggja áherslu á það sjónarmið hæstv. fjmrh. að það verði framkvæmt faglegt og rekstrarlegt mat á stöðu allra aðila og þeir verði allir gerðir jafnréttstæðir, öllu réttlæti verði fullnægt þannig að Atvinnutryggingarsjóður og hlutafjársjóður í þeirri endurreisn sem ríkisstjórnin ætlast til þess að þeir taki þátt í verði þannig í stakk búnir að þeir sem bera ábyrgð á stjórn og framkvæmd þessara sjóða geri sér grein fyrir því hver er raunverulegur eignarhluti fyrirtækja innan samvinnuhreyfingarinnar sem koma til greina í heildareignum Sambands ísl. samvinnufélaga sem ég gef mér, ég undirstrika það, virðulegi forseti, af tillitssemi við Sambandið að sé fyrir hendi.
    Í dæminu gæti það litið svona út: Það er ekki óvarlegt að álykta að
nettóeign Sambandsins sé á bilinu 2--3 milljarðar. Þá kemur hin spurningin: Mundi það ekki styrkja stöðu þessara fyrirtækja, eignarfyrirtækja Sambandsins, samvinnu- og útgerðarfélaga og kaupfélaga sem eiga mörg vinnslufyrirtæki úti á landi, og auðvelda Atvinnutryggingarsjóði og hlutabréfasjóði úrlausn þessara vandamála ef inn í eignarstöðu þessara fyrirtækja kæmu kannski 1--2 milljarðar? Ég spyr hæstv. fjmrh. Ég kann þá ekki að reikna út, ég kann þá ekki að meta rekstrarlega stöðu fyrirtækja ef það mundi ekki laga stöðu eignarfyrirtækja Sambandsins að fá þessa eign staðfesta.
    Hvaða eignir erum við að tala um, hæstv. fjmrh.? Ég nefni fyrst hlutdeild í fyrirtæki Sambandsins í Bandaríkjunum, fyrirtækinu Iceland Seafood

Corporation. Ég gæti áætlað að lauslega væri höfuðstóll þess fyrirtækis 500--700 millj. nema því aðeins að það hafi tapað svo miklu á síðasta ári, orðið að afskrifa svo margar milljónir dollara sem enginn hefur kannski hugað að í þessari stöðu. ( Fjmrh.: Það kynni ekki að vera.) Það skyldi þó ekki vera. En nú ætla ég að biðja hæstv. fjmrh. að vara sig vegna þess að niðurstaðan getur orðið enn þá verri þegar upp er staðið fyrir samvinnuhreyfinguna borið saman við einkafyrirtækin ef það skyldi reynast að Sambandið væri búið að tapa þessum hluta í nettóeign sinni. Hvað um eignir Sambandsins í Reginn hf., Íslenskum aðalverktökum? Hvað um eignir Sambandsins í Olíufélaginu? Hvað um eignir Sambandsins í Samvinnutryggingum? Ég efast um að stjórn Samvinnutrygginga og þeir aðilar sem stóðu að samruna Brunabótafélagsins og Samvinnutrygginga hafi unnið fullkomlega löglegt verk þar, hvernig að því er staðið. Ég leyfi mér að efast um það. Ég leyfi mér að efast um að þeir geti ráðstafað nettóeignum kaupfélaganna með þessum hætti í nýtt fyrirtæki. Hvað um eignir Sambandsins í Miklagarði eða kaupfélaganna?
    Ég mundi áætla að nettóeignir Sambandsins væru á bilinu 2--3 milljarðar. Eignarfélög, eignarfyrirtæki Sambandsins úti á landi eiga rétt á því, eiga kröfu á því að fá sinn eignarhluta í sitt erfiða rekstrardæmi til að styrkja eiginfjárstöðuna. Það á ekki að koma fyrst til Alþingis og krefjast þess að hér sé verið að ráðstafa fleiri milljörðum þegar fleiri milljarðar eru fyrir hendi hjá þessum fyrirtækjum.
    Einkafyrirtækin verða gerð upp vegna þess að í einkafyrirtækjum á sambærilegu rekstrarsviði úti á landi eru eignir fyrirtækjanna í sameiginlegum fyrirtækjum þessara aðila færðar upp í eignarreikningum þessara fyrirtækja. Þar er munurinn á einkafyrirtækjunum og samvinnufyrirtækjunum. Eiginfjárstaðan flæðir undan einkafyrirtækjunum úti á landi, en það er komið í veg fyrir það í gegnum siðferðilega ranglát lög, samvinnulögin, að eignir fyrirtækjanna úti á landi í Sambandinu komi fram í reikningum þess.
    Hæstv. ráðherra eiginlega ýjaði að því, auðvitað fullyrti hann ekkert um það, að kannski væri þetta allt saman tapað í Bandaríkjunum hjá Iceland Seafood. Það skyldi þó ekki vera að allt væri tapað víða annars staðar í samvinnuhreyfingunni í sameiginlegum fyrirtækjum. Ég ætla ekki að nefna nein fyrirtæki, en það gefur mér ástæðu til að varpa fram þeirri spurningu: Getur það verið að rekstrarstaða þeirra fyrirtækja sem ég taldi upp sé svo léleg og svo Sambandsins í heild að það væri ekkert eftir nema kannski KEA? Þar munu líklegast vera eftir 400--500 millj. Þetta er mjög alvarlegt mál. Og það er enn þá alvarlegra fyrir það að hér skuli standa ábyrgur alþingismaður og ræða það opinberlega með tilliti til þess að Sambandið hefur tekið lán og gengið í ábyrgðir fyrir hundruð milljóna gagnvart bæði innlendum og erlendum aðilum.
    Við sjálfstæðismenn gerum okkur grein fyrir því og

þeir sem styðja okkur að einkafyrirtæki sem ekki standast að vera rekin með þeim hætti, hvort sem það er af völdum stjórnmálamanna, opinberra aðila eða af öðrum ástæðum, eru yfirleitt gerð upp. Hin svokallaða fyrirgreiðsla sem hæstv. fjmrh. var að tala um að þau nytu sérstaklega í skjóli Sjálfstfl. er ekki fyrir hendi. Hún nær afskaplega skammt hafi hún verið fyrir hendi. Yfirleitt eru einkafyrirtæki og einstaklingar gerðir upp. Það vitum við. Þeim er yfirleitt engin miskunn sýnd og nægir að lesa Lögbirtingablað til að sjá það og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það.
    Þá ætla ég að víkja nokkuð að hlutaskírteinunum og því frv. til l. sem ég er búinn að boða um breytingu á lögum um samvinnufélög, þ.e. hlutaskírteinin í þessum hlutafjársjóði sem gert er ráð fyrir að menn eignist ef þeir taka þátt í endurreisninni. Þessi hlutaskírteini eru ekkert ólík þeim eignaskírteinum sem ég geri ráð fyrir í þessu frv. l. um breytingu á lögum um samvinnufélög, en þau eru bara þess eðlis að í stað þess að tala um hlutaskírteini er talað um eignarskírteini í því frv. sem ég er búinn að semja sem sýnir eignarhlutfall hvers félagsaðila við hver áramót og færist inn í reikninga viðkomandi fyrirtækis. Þetta er svo sjálfsagður hlutur, ég tala ekki um í ljósi þeirra vandamála sem þessi fyrirtæki eiga nú við að stríða, að ég efast ekki um stuðning hæstv. fjmrh. og hv. þm. Alþb. við þetta frv. mitt. Ég trúi ekki öðru en að hugsjónamenn innan þess flokks, sem eru enn þá fyrir hendi þó ég sé ekki sammála þeim hugsjónum út af fyrir sig öllum en ég get tekið undir ýmislegt, taki undir það með mér og styðji þetta frv. þegar það kemur fyrir
þingdeild. Ég efast ekki um að hv. þm. Alþfl. muni veita þessu frv. brautargengi og þetta verði samþykkt á þinginu og auðveldi þar með núverandi ríkisstjórn verk sín í gegnum Atvinnutryggingarsjóð og hlutabréfasjóðinn. Þetta er svo upplagt mál.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú talað tvisvar í þessari umræðu og skal ekki orðlengja þetta frekar. En ég þakka hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. fyrir það að þeir skuli hafa setið hér og tekið þátt í þessu með okkur þó að hæstv. viðskrh. hafi ekki lagt mikið til málanna. ( Viðskrh.: Ég hef haldið langa ræðu fyrir hv. þm.) Já, en ekki það atriði sem ég er að fjalla um núna. Ég átti við það sérstaklega. Ég átti við þetta atriði sérstaklega þar sem ég er að hjálpa hæstv. ríkisstjórn að auðvelda lausn þeirra vandamála sem blasa við með því að styrkja eiginfjárstöðu þeirra fyrirtækja sem eiga nú í mestum erfiðleikum. ( Fjmrh.: Það er rétt.) Já, það er rétt, sagði hæstv. fjmrh., og læt ég það nægja og lýk máli mínu með því.