Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Sú umræða sem nú fer fram um 8. mál þingsins hefur fyrst og fremst beinst að svokölluðum hlutafjársjóði, en ákvæði um hann voru samþykkt við 2. umr. í þessari hv. deild á grundvelli hugmynda sem Kvennalistinn og Sjálfstfl. opinberuðu í brtt. þegar í Ed. og síðan aftur í þessari hv. deild. Þessum tillögum hefur nú verið breytt. Hæstv. ríkisstjórn tók þær upp á sína arma, en lagaði þær til í hendi sér til þess að þær gætu þjónað stefnumiðum og hagsmunum hæstv. ríkisstjórnar.
    Í tilkynningu sinni um efnahagsmál sagði hæstv. forsrh. að a.m.k. 60--70 fyrirtæki fengju ekki afgreiðslu hjá Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina. Hæstv. ráðherra sagði jafnframt að gengisfelling kæmi ekki að gagni gagnvart þessum fyrirtækjum. Hér væri á ferðinni, eins og hann orðaði það, ,,djúpstæður skipulagsvandi``. Ekki hefur hæstv. forsrh. sagt nákvæmlega í hverju þessi djúpstæði skipulagsvandi sé fólginn, en hæstv. fjmrh. hefur hins vegar fyrir nokkrum dögum í Þjóðviljanum sagt lesendum þess blaðs og þar með þjóðinni hvernig Alþb. lítur á þessi mál. Það er mjög athyglisvert fyrir okkur alþingismenn að kynnast því hvernig formaður Alþb. setur þessi mál upp í því viðtali sem við hann er í Þjóðviljanum. Mér finnst vera full ástæða til að ræða sjónarmið hæstv. fjmrh. og spyrja í framhaldi af því hvort þau sjónarmið séu jafnframt sjónarmið hæstv. forsrh.
    Í viðtali við Þjóðviljann segir hæstv. fjmrh. m.a. að hæstv. ríkisstjórn hafi hafnað hugmyndum Sjálfstfl. og Kvennalistans um að það þurfi að framkvæma gengisfellingu til að skapa hér rekstrarskilyrði fyrir útflutningsgreinarnar og segir síðan, með leyfi forseta:
    ,,Vandamál íslensks atvinnulífs, sérstaklega útflutningsgreinanna, eru langvarandi skipulagsvandi. Hann verður ekki leystur nema með margþættum breytingum á rekstri fyrirtækjanna, samsetningu þeirra, fjölda þeirra og verkefni stjórnvalda er að skapa skilyrði fyrir því að þessi endurskipulagning eigi sér stað og knýja á um að hún verði framkvæmd á sem skemmstum tíma og greiða fyrir henni.`` Lýk ég þessum kafla úr viðtali Þjóðviljans við hæstv. fjmrh.
    Það sem hér er sagt er ósköp einfaldlega að íslensk stjórnvöld ætla sér að knýja á um verulegar skipulagsbreytingar í atvinnulífi landsmanna. Hæstv. ríkisstjórn ætlar sjálf að ákveða hve mörg fyrirtæki eigi að lifa. Hún ætlar að ákveða sjálf með aðferðum sem hún hyggst beita, m.a. hlutafjársjóðnum, hvaða fyrirtæki eiga að sameinast og vinna þannig sjálf að slíkri endurskipulagningu. Aðferðin sem notuð er er sú að knýja þetta fram með því að skrá gengi íslensku krónunnar rangt.
    Hæstv. forsrh. hefur öllum öðrum Íslendingum oftar sagt hátt og snjallt opinberlega, bæði við fjölmiðla og hér á hinu háa Alþingi, að gengi íslensku krónunnar sé rangt skráð. Maður hlýtur að spyrja að því, ef gengi íslensku krónunnar er rangt skráð, hvernig á því standi að það er ekki leiðrétt. Hvernig stendur á því að hæstv. forsrh. getur aftur og aftur sagt að gengið

sé rangt skráð, en síðan á ekkert að leiðrétta gengið heldur á að nýta sér ranga gengisskráningu til að þjóna hagsmunum Alþb. og endurskipuleggja fyrirtækin í landinu með þeim hætti að opinberir aðilar, einkum og sér í lagi þriggja manna kommissarakerfi sem á að koma á laggirnar sem stjórn í hlutafjársjóðnum, eigi nú að fá öll völd um hvaða menn séu settir í stjórn fyrirtækja á grundvelli fjármagns sem á að koma úr opinberum sjóðum og bönkum? Ég spyr hæstv. forsrh. að því: Hefur hann hugleitt hvað kemur út úr slíku kerfi? Hefur hann hugsað út í að hér er verið að koma á mestu ríkisafskiptum af atvinnulífinu sem hafa verið í gildi á Íslandi líklega um margra, margra áratuga skeið? Hefur hæstv. forsrh. velt því fyrir sér hvernig íslenska þjóðin á síðan að losna úr þessum viðjum, hvernig fyrirtækin í framtíðinni eiga sjálf að losna úr þessum opinberu viðjum og hvort hann telji þegar hann hugsar málið gjörla, ekki síst eftir að hafa kynnt sér mál erlendis, að þetta sé leiðin til að kalla fram fyrirtæki sem eru starfi sínu vaxin og geta starfað með þeim eðlilega hætti í samkeppni hér á landi sem veita okkur jafngóð lífskjör og fyrirtæki hjá öðrum þjóðum þar sem allt aðrar hugmyndir eru uppi um hvernig stjórnvöld eigi að haga sér gagnvart atvinnulífinu? Ég spyr hæstv. forsrh. að þessu vegna þess að það er augljóst af því viðtali sem ég hef hér fyrir framan mig við hæstv. fjmrh. að það er fjmrh. og Alþb. sem virðast algerlega ráða ferðinni í þessum efnum. Þetta er alvarlegt, ekki síst í ljósi þess að í síðustu kosningum hafnaði almenningur hér á landi og íslenskir kjósendur Alþb. og stefnu þess. Það var mynduð hér ríkisstjórn um allt önnur sjónarmið og allt aðra stefnu en nú er verið að framkvæma. Og það hlýtur að vera gagnrýnisvert að Framsfl., sem stundum telur sig vera flokk atvinnulífsins, og Alþfl. skuli nú hafa nánast fórnað hgsmunum atvinnulífsins fyrir þá náð að mega starfa með Alþb.
    Það er athyglisvert, virðulegur forseti, að lesa örstuttan kafla til viðbótar úr viðtali við hæstv. fjmrh. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég hef stundum í þessari umræðu bent mönnum á það að í Sovétríkjunum séu menn núna að framkvæma perestrojku m.a. vegna þess að þar hafi verið gífurlega
óhagkvæm fjárfesting í atvinnulífinu sem að mörgu leyti eigi sér pólitískar orsakir og þótt margt sé ólíkt með íslenska hagkerfinu og hinu sovéska, þá vitum við þó að í okkar kerfi hafa tíðkast bullandi pólitískar fjárfestingar og hagsmunafjárfestingar af ýmsu tagi sem ekki taka mið af hinum rekstrarlegu skilyrðum og eðlilega skipulagi atvinnufyrirtækja.``
    Þó held ég að sé ástæða til að lesa kannski eina setningu til viðbótar. Hún er svona: ,,Þess vegna tel ég að lykilorðið í því sem við erum að gera sé endurskipulagning íslensks atvinnulífs, markviss endurskipulagning á öllum sviðum.``
    Ég held að ég hafi aldrei fyrr né síðar séð jafnskýrlega koma fram hvað a.m.k. Alþb. er að gera. Alþb. er að benda á með því sem kemur fram í

viðtali við formann þess að ákvarðanir fyrirtækjanna sjálfra, ákvarðanir þeirra sem hafa starfað við sjávarútveg og fiskvinnslu um landið séu í raun og veru pólitískar ákvarðanir, ákvarðanir sem þeir hafi tekið með sjálfstæðum hætti. Nú sé kominn tími til að koma í veg fyrir slíkt með því að endurskipuleggja atvinnulífið með þeim hætti að opinberir aðilar komi til skjalanna. Fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar eiga að koma og taka í taumana og segja atvinnurekendunum og þeim sem eiga fyrirtækin, þeim sem hafa þjónað byggðarlögunum áratugum saman: Það sem þið hafið verið að gera er tóm vitleysa. Það er pólitík. Það eru hagsmunafjárfestingar og pólitískar fjárfestingar. Hérna komum við í ríkisstjórninni, ég, Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráherra, og aðrir slíkir, og ætlum að segja ykkur hvernig þið eigið að fara að þessu.
    Ég spyr hæstv. forsrh.: Er hann sammála þessu sem kemur fram í viðtali við hæstv. fjmrh. sem virðist tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar? Er virkilega svo komið fyrir Framsfl. og Alþfl. að þeir telji að þeir geti frekar stýrt ákvörðunum fyrirtækjanna í byggðarlögunum úti á landi en þeir sem hafa starfað við þessi fyrirtæki áratugum saman? Af orðum hæstv. fjmrh. verður ekki annað skilið en hér sé um stórkostlega stefnubreytingu í átt til ríkisafskipta að ræða.
    Það er athyglisvert, virðulegur forseti, í þessu viðtali að hæstv. fjmrh. gengur allra ráðherra lengst í því að flokka fyrirtæki. Hann býr til fjóra flokka yfir fyrirtækin og segir á þessa leið:
    ,,Í raun má segja að þessar aðgerðir síðustu fjóra mánuði hafi skipt sjávarútvegsfyrirtækjum í landinu í fjóra flokka. Í fyrsta flokki eru fyrirtæki sem ganga vel. Þau hafa ekki fengið neina sérstaka fyrirgreiðslu nema almennar breytingar á vaxtamálum og þau standa sig vel. Það er hins vegar ekki fjallað mikið um stöðu þessara fyrirtækja því þau þjóna ekki aðgerðakórnum.`` Hér geri ég hlé á þessum lestri. ,,Aðgerðakórinn``, til skýringar, er sá hópur manna sem hefur lýst því yfir að það þurfi að leiðrétta rekstrargrundvöll atvinnuveganna með gengisfellingu. M.ö.o.: Aðgerðakórinn er kórinn sem tekur undir það þegar einsöngvarinn, forsrh. sjálfur, hæstv. forsrh., segir að gengið sé rangt skráð. Það er aðgerðakórinn.
    Er það nú rétt, sem hér stendur, að það hafi ekkert verið gert fyrir þessi fyrirtæki? Gleymir ekki hæstv. fjmrh. því að í raun og veru hafa með millifærslum verið sköpuð skilyrði um tímabundið skeið til þess að halda genginu rangt skráðu fyrir þau fyrirtæki? Að vísu hefur hæstv. sjútvrh. lýst því yfir að ríkisstjórnin hyggist taka lán fyrir Verðjöfnunarsjóðinn þegar það fjármagn þrýtur sem var ákveðið á síðasta ári, en það kemur ekkert fram um það í lánsfjárlagaumræðunni í Ed. Hvað gerist þá? Jú, þá hverfa fyrirtækin úr þessum flokki vegna þess að þá hætta að vera til rekstrarskilyrði jafnvel fyrir best reknu fyrirtækin.
    Ég veit að hæstv. forsrh. þekkir til nokkurra vel rekinna fyrirtækja. Ég get bent á tvö fyrirtæki sem hafa verið rekin allt fram að þessum tíma fyrir ofan strik en eru núna farin undir, tvö fyrirtæki sem eru

ákaflega misjöfn að stærð, annað mjög lítið í litlu byggðarlagi, hitt afar stórt í stóru byggðarlagi. Þetta eru Útgerðarfélag Akureyringa og Hraðfrystihúsið í Hnífsdal, fyrirtæki sem ég veit að hæstv. forsrh. þekkir mjög vel sjálfur.
    Hvað er gert við svona fyrirtæki? Það er annars vegar þetta sem ég hef rætt en hins vegar hitt sem ekki er nefnt. Þau eru skattpínd núna meira en nokkurn tíma fyrr. Þessum fyrirtækjum er núna gert ókleift að leggja til hliðar fjármuni, geyma skattlausa fjármuni þar til þau vilja fjárfesta, með breytingu sem hæstv. ríkisstjórn ákvað. Nú á að skattpína þessi fyrirtæki eða reka þau út í ótímabærar fjárfestingar eins og hæstv. forsrh. veit að gerist þegar skattalöggjöfin verður röng og vitlaus. Þessu gleymir að sjálfsögðu hæstv. fjmrh.
    En hæstv. fjmrh. kemur með næsta flokk og hann er svona. Orðrétt segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Í öðrum flokknum eru fyrirtæki sem hafa fengið skuldbreytingu hjá Atvinnutryggingarsjóðnum og það dugir þeim. Þau hafa fengið lánin lengd, dregið úr fjármagnskostnaði og mörg hver gert skipulagsbreytingar á rekstrinum.
    Í þriðja flokknum eru fyrirtæki sem þurfa að gera ákveðnar skipulagsbreytingar, hugsanlega að taka upp samstarf við önnur fyrirtæki,
þurfa aukið eigið fé. Með hlutafjársjóðnum sem við ætlum að setja á laggirnar er ætlunin að skapa tæki til þess að hluta af lánum þessara fyrirtækja verði hægt að breyta í eigið fé og tryggja áframhaldandi rekstur þeirra.``
    Þetta er sá flokkur sem hæstv. forsrh. ræddi hér um í sinni ræðu áðan þegar hann fjallaði um reglugerðina sem fylgja á lögum um hlutafjársjóðinn.
    ,,Síðan``, segir hæstv. fjmrh. í viðtalinu, ,,er fjórði flokkurinn af fyrirtækjum og þau eru því miður nokkur þar sem offjárfestingin og skorturinn á eðlilegu rekstrarskipulagi hefur verið með þeim hætti að það er óhjákvæmilegt að þau verði gerð gjaldþrota. Eignir þeirra eru langtum minni en skuldirnar og í sumum tilfellum er þessi munur upp á hundruð milljóna. Það er því ekkert annað sem liggur fyrir, því miður, en að gera þessi fyrirtæki upp.``
    Síðar í viðtalinu segir reyndar: ,,Ef um er að ræða lykilfyrirtæki í byggðarlaginu, þá mun það hljóta sérstaka aðstoð til að tryggja, þó að um gjaldþrot verði að ræða, að nýtt fyrirtæki taki til starfa á rústum þess sem fyrir var þannig að fólkið haldi áfram atvinnunni og atvinnutækin verði áfram á sínum stað.``
    Nú er það svo að flest íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa haldið áfram starfsemi sinni þrátt fyrir örðug rekstrarskilyrði í trausti þess að hæstv. ríkisstjórn ætli eitthvað að láta gerast í þeim málum þannig að þau geti haldið áfram að starfa með eðlilegum hætti. Þessi yfirlýsing og í raun sá texti sem kemur fram í reglugerð um hlutafjársjóð Byggðastofnunar segir okkur að það sé þegar búið að stilla íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum upp í ákveðna flokka. Og ég spyr hæstv. forsrh. að því: Liggur á borði niðri í forsrn. listi yfir þessi fyrirtæki? Er búið að krossa við

þau fyrirtæki sem eiga að verða gjaldþrota? Ef svo er, er þá ekki kominn tími til þess að ganga hreint til verks og segja fólkinu, eigendunum og starfsfólkinu, frá því hvaða fyrirtæki þetta eru? Mér finnst að við þurfum að átta okkur á því að mörg þessara fyrirtækja hafa verið að tapa sínu eiginfjármagni á undanförnum mánuðum, ekki aðeins á fyrstu níu mánuðum síðasta árs heldur ekkert síður á þeim mánuðum sem síðan eru liðnir, sem liðnir eru frá því að þessi hæstv. ríkisstjórn settist að völdum. Það lá svo gífurlega mikið á að mynda ríkisstjórn með Alþb. að það varð helst að gerast á einni helgi til að bjarga íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Finnst hæstv. forsrh. að hann hafi náð miklum árangri? Það sem kannski er kjarnaspurningin: Er hæstv. forsrh. sammála því, sem kemur fram í viðtali við hæstv. fjmrh., að það eigi að stilla fyrirtækjum upp í fjóra flokka, að hæstv. ríkisstjórn hafi meira vit á því hvernig þessi fyrirtæki eigi að fjárfesta og haga sinni stefnu en eigendur þeirra og þeir sem hafa starfað við þetta? Er hæstv. forsrh. sammála því, sem kemur fram í viðtali við Ólaf Ragnar Grímsson, formann Alþb. og hæstv. fjmrh., að á undanförnum árum hafi verið um bullandi pólitískar fjárfestingar að ræða hjá atvinnulífinu? Og ef hæstv. forsrh. er sammála þessu, hvaða fyrirtæki voru það sem fóru í bullandi pólitískar fjárfestingar? Var það Samband ísl. samvinnufélaga og fyrirtæki á vegum þess? Manni dettur það helst í hug því að við vitum báðir að hæstv. fjmrh. var á sínum tíma þátttakandi í slíku félagi og fulltrúi á fundum hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Ef það er ekki hjá SÍS, hjá hvaða fyrirtækjum þá? Þetta eru stór orð sem hér eru sögð og þetta eru orð sem eru notuð sem grundvöllur beinna aðgerða af hálfu ríkisins til að hefja stórkostlegustu afskiptasemi af íslensku atvinnulífi sem um hefur getið um áratuga skeið. Það verður líklega að hverfa aftur til millistríðsáranna til að finna annað eins.
    Mér finnst, hæstv. forsrh., ef þessi orð fjmrh. lýsa ekki skoðunum hæstv. ríkisstjórnar, vera kominn tími til þess að hæstv. forsrh. segi það klárlega við þessa umræðu. Ég segi það vegna þess að í samstarfi okkar, bæði í ríkisstjórn og enn fremur þegar hæstv. forsrh. var forsrh. í samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., fylgdi hann allt annarri stefnu, þeirri stefnu að ríkisvaldið ætti að sjá um að umgjörðin og skilyrðin væru í lagi, eftir það ættu aðrir að taka við, þeir sem stjórnuðu fyrirtækjunum, en það ætti ekki að hefja þá ,,perestrokju`` sem hæstv. fjmrh. er að boða með tilvísun til þess lands sem hann virðist þekkja best og ber íslenska þjóðfélagið saman við. Ég er nýkominn frá Sovétríkjunum og ég held að það sé dálítið langt til jafnað að fara að nefna þau í sambandi við íslenska atvinnuvegi og get ég komið að því síðar ef tækifæri gefst til.
    Við viðurkennum það að sjálfsögðu að hæstv. ríkisstjórn og reyndar Alþingi og öll þjóðin stendur frammi fyrir ákveðnu vandamáli sem þarf að sjálfsögðu að leysa. Spurningin er: Er þessi hlutafjársjóður eins og hann er settur upp rétta tækið

til að leysa úr þessum vandamálum? Er rétt að fara að með þessum hætti, að skapa þannig millilið á milli sjóðakerfisins og bankakerfisins og fyrirtækjanna, pólitískan millilið þar sem á að þreifa á þessum málum, eða er hyggilegra að ríkisstjórnin beiti almennum efnahagsaðgerðum eins og réttri gengisskráningu og að sjóðirnir og bankarnir sem hafa lánað fyrirtækjunum standi ábyrgir gerða sinna og gefi annaðhvort eftir þegar allt er komið í þrot eða liðki til fyrir fyrirtækin þannig að þau geti starfað áfram eða ný
fyrirtæki verið reist á rústum hinna sem verða gjaldþrota, en allir virðast vera sammála um að það sé ekki hægt að bjarga alveg öllum fyrirtækjum sem starfa í dag? Ég segi, hæstv. forsrh.: Sú aðferð sem hér er búin til er stórhættuleg vegna þess að hún eykur pólitíska afskiptasemi og setur stjórnmálamenn í þann vanda að þeir bera í raun og veru ábyrgð á öllum einstökum aðgerðum sem þarna eiga sér stað.
    Það getur vel verið að stjórnmálamenn álíti að þeir séu allra manna skynsamastir og í raun og veru viti þeir miklu betur en allir aðrir hvernig eigi að reka fyrirtæki og hvernig eigi að byggja fyrirtæki upp. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég held og hélt satt að segja að hæstv. forsrh. vissi að það getur verið heppilegra að við sinnum stjórnmálum, að við semjum leikreglurnar en aðrir sem hafa reynslu af atvinnurekstri ættu að stunda atvinnurekstur og þeir sem hefðu reynslu af bankafyrirgreiðslu, sjóðafyrirgreiðslu ættu að vera í því og við ættum ekki að ræna þetta fólk ábyrgð af eigin verkum. Ég óttast það, hæstv. forsrh., að hér séu stjórnmálamenn, sumir af því að þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera, og á ég þar við hæstv. fjmrh., að skapa skilyrði fyrir stórkostlegum pólitískum afskiptum. Ég efast ekki um að hæstv. forsrh. ætlar ekki að misnota sína aðstöðu í þessum sjóði. En ég spyr hann og bið hann ekki um að svara upphátt heldur skoða svarið í sínum huga: Mundi hann treysta þessu kerfi í höndum Alþb. ef Alþb. færi eitt með stjórn landsins? Mundi hann treysta þessu kerfi, sem hann er að koma á, í höndum slíkra manna, vitandi hvert þeir stefna og hvað þeir vilja gera í íslensku atvinnu- og efnahagslífi? Telur forsrh. enga hættu á því að slíkir aðilar vildu kannski notfæra sér slíkt kerfi í pólitískum tilgangi? Ég bið ekki forsrh. um að svara þessu hér úr ræðustól. Ég bið hann um að skoða þetta í sínu eigin hugskoti. Ég hef áhyggjur af þessu og ég tel, og kannski er það grundvallarágreiningurinn sem er að skýrast betur og betur frá einum degi til annars, að annars vegar sé hópur stjórnmálamanna sem vilja beita almennum aðgerðum, sem telja að stjórnmálamenn eigi að standa við stýrið en ekki vera alltaf að ,,vesenast`` niðri í lest á skipinu, standandi þar og segjandi mönnum fyrir verkum. Það er hlutur stjórnmálamanna að átta sig á því hvert þjóðarskútan á að fara, en síðan eiga aðrir í þjóðfélaginu að vinna við þau mál sem þeir eru miklu betur færir til en stjórnmálamennirnir. Vona ég að ég hafi í grundvallaratriðum sagt hver sé stefna Sjálfstfl. í

þessum atriðum og hver ég held að sé stefna ríkisstjórnarinnar ef marka má þau ummæli sem hæstv. fjmrh. hefur látið eftir sér hafa í viðtali í Þjóðviljanum.
    Þá langar mig til að víkja örfáum orðum að reglugerð um hlutafjársjóð Byggðastofnunar sem hæstv. forsrh. kynnti, þ.e. drög að reglugerð sem ekki hefur endanlega verið frá gengið og hæstv. forsrh. fjallaði um í sinni ræðu áðan. Þessi drög lýsa því betur en flest annað í hvaða vanda hæstv. ríkisstjórn er. Ég skil vel að stjórnarflokkarnir skuli eiga erfitt með að koma sér saman um reglugerð á borð við þessa því að í henni er ákveðnum aðilum gefið gífurlega mikið vald. Hæstv. forsrh. sagði frá því, sem reyndar er lögmælt eða verður lögmælt ef samþykkt verður frv. á þskj. 330, sem er 8. mál þingsins, að forsrh. skipi til fjögurra almanaksára í senn þrjá menn í stjórn hlutafjársjóðs Byggðastofnunar og þrjá til vara. Eins og réttilega kom fram hjá hæstv. forsrh. er hér um mikið vandamál að ræða vegna þess að þessir þrír menn fá gífurlega mikið vald. Samt sem áður mega þeir ekki fjalla um mál þar sem þeir eru í einhverjum tengslum við viðkomandi fyrirtæki eða lánastofnanir sem eiga að breyta skuldum í hlutdeildareign í þessum hlutafjársjóði. Ég spyr þess vegna forsrh.: Getur ekki verið að það hefði verið skynsamlegra að fara að ráðum stjórnarandstöðunnar, þó ekki væri nema í þessu efni, og láta hlutafjársjóðinn falla undir stjórn Byggðastofnunar jafnvel þótt hann hefði sjálfstæðan fjárhag? Þar hefði a.m.k. hæstv. forsrh. getað skýlt sér á bak við að í stjórn Byggðastofnunar sitja menn sem kjörnir eru af Alþingi en ekki einungis skipaðir af einum tilteknum aðila, þ.e. hæstv. forsrh. Það stendur enn þá opið og hægt að gera það í þessari umræðu að breyta lagafrv. og taka upp þennan þátt.
    Mig langar enn fremur til að spyrja, að vísu ýjaði hæstv. forsrh. að því í sínu máli, hvort sett verður upp sams konar samstarfsnefnd og starfar með Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina. Það er ekkert sem segir það í raun í reglugerðardrögum sem ég hef undir höndum, en hæstv. forsrh. ýjaði að því og mig langar til að spyrja: Er ætlunin að sams konar nefnd starfi? Og kannski í beinu framhaldi af því: Hvernig er hægt að koma því við ef enginn má í raun taka á þessu máli nema þeir sem ekki eru í neinum viðskiptalegum tengslum við þá aðila sem annaðhvort eiga kröfur eða er verið að aðstoða samkvæmt reglugerðardrögunum?
    Í 4. gr. draganna er sagt frá því að til rekturs sjóðsins renni sérstakt framlag ríkissjóðs ef Alþingi ákveði svo. Ég hef reyndar spurt hæstv. forsrh. að því áður, því að þetta verður líka lögmælt atriði, hvort ætlunin sé nú á þessu ári að leggja sjóðnum til fjármuni og þá hve mikla fjármuni. Og er ætlunin að binda það við rekstur sjóðsins, mannahald, skrifstofukostnað og
þess háttar eða er ætlunin að leggja fram fjármuni til viðbótar og til viðbótar þeim 600 millj. kr. sem verður ekki framlag heldur ábyrgð sem ríkisstjórnin og ríkissjóður tekur á sig að hluta af þeim kröfum sem

þarna myndast?
    Í 5. gr. er fjallað um verkefni stjórnar sjóðsins. Það er athygli vert að stjórn sjóðsins, þessi þriggja manna stjórn sem hæstv. forsrh. á að velja einn, á að ákveða laun þeirra stjórnarmanna í hlutafélögum sem stjórnin skipar og setja þeim erindisbréf. Ég veit ekki hvort þetta er á misskilningi byggt, en sé þetta réttur texti og verði honum ekki breytt er að fæðast hér það kerfi að opinber milligönguaðili skipaður af hæstv. forsrh. sendir menn inn í stjórnir þeirra fyrirtækja sem hafa átt í erfiðleikum vegna stefnu ríkisstjórnarinnar m.a. Þeir menn eiga ekki að taka laun eins og aðrir sem starfa í þeim hlutafélögum, eigendur þeirra sem eru smám saman að missa allt sitt, heldur á til viðbótar að ákveða laun þeirra af stjórnarmönnum hlutafjársjóðsins, textinn verður ekki skilinn öðruvísi. Þeir eiga að mæta með sín kommissaraerindisbréf og segja: Hér erum við komnir, einn, tveir, einn, tveir, fulltrúar forsrh. Við erum komnir til að segja ykkur hvernig þið eigið að reka fyrirtækin. Við höfum önnur kjör en þið. Við erum bæði með laun sem stjórnarmenn í hlutafélaginu en svo erum við líka með laun sem kommissarar hjá hlutafjársjóðnum syðra. Er þetta það kerfi sem koma skal? Og á hvaða leið er þá hin íslenska ,,perestrojka"?
    Í 6. gr. er fjallað um mjög viðkvæmt atriði, þ.e. að stjórnarmaður geti ekki tekið þátt í meðferð máls er varðar fyrirtæki ef hann situr í stjórn eða er starfsmaður þess. Ég hygg að þetta sé atriði sem stendur í stjórnarflokkunum og ég hirði ekki um að ræða það frekar, en þetta þrengir talsvert þann hóp manna sem kannski er best fær til að fjalla um þessi mál. Hæstv. forsrh. hefur sjálfur bent á þetta vandamál og ætla ég ekki að ræða það frekar, enda ekki mitt hlutverk að hjálpa hæstv. forsrh. við að koma þessu kerfi á heldur benda honum á það hve gífurlega vitlaust þetta kerfi er.
    Í 7. gr. er sagt frá því að hlutafjársjóðurinn afli fjár með sölu hlutdeildarskírteina og þar birtist megintilgangurinn. Lánastofnanir og kröfuhafar hjá fyrirtækjum sem ekki geta gengið vegna rangrar gengisskráningar og vegna þess að það er skortur á rekstrarskilyrðum fyrir þessi fyrirtæki eiga nú að gefa upp þær kröfur og í staðinn að kaupa hlutdeildarbréf í hlutafjársjóði sem síðan kaupir hlut í viðkomandi fyrirtækjum. Og af hverju er þetta gert svona? Jú, ástæðan er sú að mörgum sjóðum og bankastofnunum er óheimilt að eiga hlut í fyrirtækjum. Þetta er grundvallarspurning. Hvers vegna er þessum fyrirtækjum, opinberum fyrirtækjum kannski eins og ríkisbönkunum og ríkisfjárfestingarlánasjóðunum, sem ríkið á flesta hverja ef ekki alla, suma hverja samkvæmt lagabókstaf og aðra sjóði á líklega ríkið samkvæmt eðli máls, við skulum ekki deila um það hér, en hvers vegna heldur hæstv. forsrh. að það hafi verið sett í lög að þessum sjóðum væri bannað að eignast hlut í fyrirtækjum? Hvers vegna? Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu. Mér dettur helst í hug að það sé vegna þess að það sé hætta á því að stjórnir sjóðanna og stjórnir bankanna gætu þá valið þá sem

ættu að fá hlutafé í fyrirtækjum og hina sem eingöngu ættu að fá lán á háum vöxtum og borga til baka. Ef þetta er rétt, hvers vegna er þessu þá ekki breytt? Af hverju gengur ekki ríkisstjórnin þá þannig til verka að hún leggur til að breyta þessum lögum þannig að sjóðirnir og bankarnir geti þá eignast hlut í þessum fyrirtækjum beint og selt síðan þau hlutabréf í tímans rás? Nei, það er búið til nýtt kerfi þar sem á að fara í gegnum hlutafjársjóð undir stjórn þriggja manna sem hæstv. forsrh. velur sjálfur til að fara þar höndum um þessi málefni. Ég spyr hæstv. forsrh.: Hefur hann velt því fyrir sér hvort hægt hefði verið að fara öðruvísi að og hvers vegna var það ekki gert?
    Síðan segir reyndar í drögum að reglugerðinni að öðrum en kröfuhöfum sé heimilt að kaupa hlutdeildarskírteini og á þeim texta sést best hve langt þessi hugmynd er komin frá þeirri hugmynd sem Kvennalistinn stóð fyrir að sett var í brtt. á sínum tíma. En þar var um að ræða opið félag og frjálst öllum þar sem gengi hlutdeildarskírteina var skráð og menn vissu hver staða sjóðsins var á hverjum tíma. Nú má það ekki lengur. Nú þarf að líða langur tími áður en skírteinin eru endurgreidd og enginn veit í raun eða getur vitað hver staða sjóðsins er og fyrirtækjanna sem sjóðurinn ætlar að kaupa hlut í.
    Þá kem ég að 8. gr. sem, eins og hæstv. forsrh. lýsti, fjallar um það að hlutdeildarskírteinunum er skipt í tvo flokka. Annars vegar eru A-bréf sem bera ríkisábyrgð og hins vegar eru B-bréf sem gera það ekki. Sé textinn í 8. gr. skoðaður kemur hins vegar í ljós að stjórnin getur algerlega upp á sitt eindæmi raðað í flokkana því að það er stjórnin sjálf sem metur hvort fullnægjandi veð eru til í fyrirtækjunum. M.ö.o.: það er ekkert ,,absolutt`` sem er á milli A og B. Það getur stjórnin metið með fingrunum einum saman. Og ég spyr jafnframt: Er hægt að setja svona texta í reglugerð án þess að lagaheimild sé til? Ég spyr ekki af því að ég viti um svarið heldur vegna hins að mér þykir forvitnilegt að vita hvort hæstv. forsrh. hafi borið það undir
lögfræðinga hvort hægt sé að gefa út tvenns konar bréf í slíkum sjóði án þess að lagaheimild sé til þess, annaðhvort almenn eða þá í þessum sérstöku lögum sem ríkisstjórnin ætlar að láta samþykkja á hinu háa Alþingi.
    Í 9. gr. er fjallað um ríkisábyrgðina, 600 millj., sem dregur ekki langt býst ég við. Þegar síðan á að endurgreiða hlutdeildarskírteinin hljóta A-kröfuhafarnir að ganga fyrir. En ef þessar 600 millj. duga ekki til og eignir sjóðsins ekki heldur, hverjir eiga þá að fá fulla tryggingu og hverjir ekki? Eru það þeir sem eru fyrstir eða fær þá stjórn sjóðsins líka að ákveða það? Það sést ekki á textanum sem er í þessum drögum.
    Í 12. gr. eru sett upp skilyrði þess að fyrirtæki geti farið í gegnum hlutafjársjóðinn sem er orðinn eins konar framlenging af Atvinnutryggingarsjóðnum fyrir þau fyrirtæki sem ekki fengju fyrirgreiðslu þar. Út af fyrir sig er þetta eðlileg grein í slíkri hallærisreglugerð. Er þar verið að reyna að leita leiða til að setja einhver almenn skilyrði og sést best

kannski á þessari grein út í hvaða fen hæstv. ríkisstjórn er komin í sértækum lausnum sínum. En í 2. mgr. í þessari grein segir, með leyfi forseta:
    ,,Í kjölfar árangurslausra nauðasamninga eða gjaldþrots fyrirtækja er hlutafjársjóðnum heimilt að taka þátt í stofnun nýrra fyrirtækja með hlutabréfakaupum.`` Hvað þýðir þetta? Er þetta opin almenn grein eða þýðir þetta einungis það, sem ekki sést á textanum, að þetta eigi við um þau fyrirtæki á ákveðnum stað sem eru burðarásarnir í hverju byggðarlagi fyrir sig eins og gefið er til kynna að sé í fyrri málsgr. eða er hér átt við að í hvert skipti sem árangurslausir nauðasamningar eða gjaldþrot hafi komið til hjá fyrirtækjum geti þessum hlutafjársjóði í hvaða tilviki sem er verið heimilt að stofna eða standa að stofnun nýs fyrirtækis með hlutabréfakaupum? Textinn gefur ekki tilefni til annars en skilja þetta mjög opið, en ég hygg að hæstv. ríkisstjórn hafi hugsað sér að þrengja þetta ofan í þau fyrirtæki sem hæstv. ríkisstjórn telur sig vera umkomin til að velja úr að eigi að lifa, enda virðist hún ætla að ráða lífi og dauða fyrirtækjanna í landinu.
    Í þessari grein segir jafnframt eins og segir reyndar í lagafrv.: ,,Ríkissjóður getur selt hlutafjársjóðnum hlutafjáreign sína í fyrirtækjum ef ástæða þykir til.`` Og nú spyr ég: Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn í huga? --- Ja, tökum dæmi því að það dæmi er valið úr yfirlýsingu hæstv. ríksstjórnar frá því í haust og fylgdi með stefnuræðu forsrh. að það ætti að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag. Er þá ætlunin að selja hluti í gegnum þennan hlutafjársjóð eða hver er tilgangurinn? Ég kannast við slíkar hugmyndir frá því fyrr á árum þegar uppi voru hugmyndir um að stofna ,,holding company`` eða eignarhaldsfélag ríkisins til að koma hlutafé ríkisins á eina hönd og reyna þá að losa sig við þessa hluti. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að ríkissjóður geti selt hlutafjársjóðnum hlutafjáreign sína í fyrirtækjum ef ástæða þyki til. Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn í huga? Er það eitthvað sérstakt? Á t.d. að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélög eða -félag og selja eða hvað er verið að hugsa í þessu sambandi? Það væri fróðlegt að fá að vita það því að einhver hugsun verður maður að álíta að sé á bak við þessa málsgr. ( Forsrh.: Hver samdi þessa grein?) Þessi grein er samin af stjórnarandstöðunni, en hæstv. ríkisstjórn hefur leyft sér að taka slíkar hugmyndir, breyta þeim sér í vil og ef þetta er sett inn í þessa reglugerð hlýtur það að vera gert af annarri hugsun en þeirri einni að þjóna málstað stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í.) Þýðir þetta svar að ríkisstjórnin hefur ekkert í huga í þessu sambandi eða sækist hæstv. ríkisstjórn eftir því að stjórnarandstaðan segi hæstv. ríkisstjórn til um hvaða fyrirtæki eigi að selja þarna? Eða telur hæstv. forsrh. yfirleitt að eftir að búið er að fara þannig með hugmyndir Kvennalistans og Sjálfstfl. að það sé virkilega svo að ríkissjóður eða aðrir hafi áhuga á því að fara í gegnum þennan hlutafjársjóð? Trúir hæstv. forsrh. því? Ég held ekki. Ég held að þetta sé bara eins og ýmislegt annað. Þetta er étið hrátt til þess að

geta farið síðan í ræðustól og sagt: Ég gerði þetta af því að stjórnarandstaðan bað mig um að gera þetta. Ég er svo góður. Ég geri allt fyrir alla.
    Virðulegur forseti. Það er ástæðulaust að fara mörgum fleiri orðum um þessi drög að reglugerð. Auðvitað geta þau breyst. Ég er þakklátur hæstv. forsrh. fyrir að hafa leyft mér að sjá þessi drög og síðan að koma og taka þátt í umræðunum. Við skulum huga að því að það er mjög óvenjulegt að við 5. umr. í máli, þ.e. 2. umr. í síðari deild, séu gerðar verulegar breytingar á frumvörpum og síðan sé enn verið að laga frumvörp til í síðustu umræðu. Þess vegna er mjög mikilvægt að stjórnarandstaðan fái sem gleggstar upplýsingar. Kannski hefði verið eðlilegast að flytja nýtt frv. þegar að þessu samþykktu og ræða þetta mál í þremur umræðum í hvorri deild, en ég virði það við hæstv. forsrh. að hann hefur leyft okkur að skoða drög að reglugerð sem reyndar eru sjöttu drög sem kannski segja mest um hvað gengið hefur á í hæstv. ríkisstjórn þegar reynt var að koma þessum króga í einhvern búning.
    Það sem skiptir þó öllu máli, virðulegi forseti, er þetta: Hér er á ferðinni afleiðing af stefnu ríkisstjórnar sem ætlar sér með sértækum lausnum að hafa
meiri afskipti af atvinnulífinu en nokkur önnur ríkisstjórn hefur gert á undanförnum áratugum. Með þessum reglugerðardrögum og með þessu frv. sem hér liggur fyrir er verið að innleiða kannski mestu ríkisforsjá í atvinnulífinu sem þekkst hefur hér á landi. Það sem er kannski enn alvarlegra, a.m.k. fyrir okkur sem erum í Sjálfstfl., er það að Framsfl. og Alþfl. virðast í einu og öllu gegna Alþb. og formanni þess sem hefur þó haft kjark til að segja í viðtali við Þjóðviljann að hverju stefnt sé. En ég veit að hæstv. forsrh. mun segja álit sitt á því viðtali og þeim viðhorfum sem þar koma fram síðar í þessari umræðu.
    Það sem skiptir enn fremur máli er að í þessari umræðu allri kemur í ljós að það er meginágreiningur um leiðir. Sjálfstfl. telur að það eigi að beita almennum aðgerðum. Ríkisstjórnin vill beita sértækum úrlausnum. Hún vill káfa á öllu fjármagni sem rennur til atvinnulífsins og þetta er þess vegna mikil ríkisafskiptastefna.
    Á undanförnum árum og missirum hafa verið talsverðar umræður um gengismál. Sumir hafa sagt: Við eigum að hafa frjálsa gengisskráningu. Aðrir hafa sagt: Við eigum að fylgja stöðugu gengi, fastgengisstefnu. Þeir sem fylgja frjálsgengisstefnunni hafa sagt: Eina leiðin til að ná efnahagslegu jafnvægi er að þeir sem afla gjaldeyrisins geti selt hann á markaði og skapað þannig það jafnvægi sem þarf. Þetta kerfi mundi að sjálfsögðu þjóna útflutningsgreinunum sem best, en á því er auðvitað mikill galli, sérstaklega sá galli að jafnvægið mundi verða heldur rykkjótt vegna þess að sjávarútvegurinn er sveiflukennd atvinnugrein. Ugglaust mætti samt margt gera til þess að eyða þeim sveiflum og því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekkert hugsað um hvernig á að fara því, ekki neitt nema síður sé því að skattalagabreytingarnar fyrir jólin gera að verkum að

það er hálfu verra að tempra þessar sveiflur en áður.
    Hitt kerfið, sem er fastgengiskerfi, er hægt að framkvæma með ýmsum hætti, til að mynda þeim að binda sig við gjaldeyri annarra þjóða eins og gerist víða í Evrópu, t.d. á Ítalíu og hefur gefist vel, eða að gera eins og ríkisstjórnin hér að fylgja hálfgildings fastgengisstefnu sem gefur eftir til málamiðlunar 1, 2 og 3% í senn, reynir að halda genginu sem stöðugustu eða með orðum hæstv. forsrh. skráir gengi krónunnar rangt. Það er það sem hann hefur ætíð verið að segja. En til þess síðan að halda fyrirtækjum á lífi eru teknir peningar að láni erlendis. Það eru tekin erlend lán til að borga með aðalútflutningsgrein þjóðarinnar sem er sjávarútvegurinn. Ég held, hæstv. forsrh., að þetta sé allra vitlausasta kerfi sem hefur nokkurn tíma verið fundið upp. Það væri í lagi að fylgja annaðhvort frjálsgengisstefnu eða fastgengisstefnu og gera það eins og menn. En að fylgja hálfgildings fastgengisstefnu og taka síðan fjármuni og færa þá til sumra á kostnað annarra er allra vitlausasta stefna sem fundin hefur verið upp. Þetta kann að vera harður dómur, virðulegi forseti, um það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera.
    Ég sé að ég hef kannski talað fulllengi í þessari umræðu --- og tekst nú að rífa upp nafnalistann þegar ég ætlaði að losa pappírana af púltinu --- en ég vona að til skila hafi komist þau sjónarmið sem ég vildi láta koma fram í þessari umræðu. Jafnframt hef ég óskað eftir því að hæstv. forsrh. svaraði ýmsum fyrirspurnum. Ég veit jafnframt að hann telur ástæðu til að þakka fyrir ýmsar góðar ábendingar eins og hann hefur kallað fram í. Annað hefur hann víst nóterað niður og ég segi að batnandi manni er auðvitað best að lifa.
    Ég vil þó að allra síðustu vegna gengismálanna segja það, af því að hæstv. forsrh. hefur viðurkennt að auðvitað hafi gengisstefnan farið verst með útflutningsiðnaðinn, að nýlega var haldinn fundur hjá fataiðnaðinum og þar kom mjög sterklega fram að það sem skiptir mestu máli er að gengið sé skráð rétt. Og vona ég nú, þegar maður er búinn að segja þetta nokkur hundruð sinnum í ræðum, að þetta fari að hafa einhver áhrif og menn fari að skilja að það er hægt að fara aðrar leiðir en þær sem hæstv. ríkisstjórn hefur valið að fara.