Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessa umræðu. Hins vegar komu fram margar spurningar frá hv. þm. Friðrik Sophussyni sem ég kemst ekki hjá að ræða.
    Í fyrsta lagi vil ég fara nokkrum orðum um þær breytingar sem hafa verið gerðar á upphaflegum tillögum. Ég tek fram að þá er ég ekkert að deila um að tilgangurinn hafi verið nokkuð annar en hér er lögð áhersla á. Ég get ekki fallist á að þessar breytingar séu svo mikilvægar að þær sem slíkar breyti grundvelli málsins.
    Fyrsta brtt. er sú að sjóðurinn sé undanþeginn greiðslu á ýmsum gjöldum eins og Atvinnutryggingarsjóður. Um þessa tvo sjóði er fjallað í sama frv., þ.e. frv. um aðgerðir í erfiðleikum atvinnulífsins, og eðlilegt að þar séu svipaðar aðstæður.
    Þá er gert ráð fyrir að Alþingi geti ákveðið framlag til sjóðsins. Út af fyrir sig má sleppa þessu. Alþingi getur hvenær sem er gert það ef þetta er einhver ásteytingarsteinn.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að fella niður þann málslið í 10. gr. þar sem segir að ,,hlutabréfasjóðurinn skal gefa reglulega út gengi á hlutafjárskírteinum.`` Þetta var að ráði lögfræðinga sem töldu afar erfitt að skuldbinda þetta í lögum. Ég skal endurskoða það ef það er eitthvert mál á milli funda áður en kemur til atkvæða. Ég teldi þá a.m.k. skynsamlegra að hafa þetta í reglugerð ef rétt er, sem þeir aðilar sem þetta hefur verið borið undir segja, að það kunni að vera afar erfitt að framfylgja slíku. Þetta eru einu breytingarnar. Efnisatriðin standa öll saman eins og t.d. í 9. gr. þar sem reyndar segir að í stjórn skuli vera þrír menn sem forsrh. skipar. Ég hef ekki séð ástæðu til að breyta þessari tillögu eins og hún var orðuð og þykir undarlegt ef nú er gerð athugasemd við það. Þetta er ekki sérlega eftirsóknarvert hlutverk, en mér hefur sýnst þetta eðlilegt með tilliti til þess hve margra sjónarmiða þarna þarf að gæta og eflaust hafa þeir sem upphaflega fluttu tillögu um þennan sjóð, þó þeir hafi haft eins og hér hefur komið fram einhverjar aðrar hugmyndir, einmitt haft slíkt í huga. Efnisbreytingarnar eru engar. Það stendur skýrt í 10. gr. að hlutafjársjóði Byggðastofnunar er ætlað að starfa í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækis sem einmitt þessi kafli allur fjallar um. Hann fjallar allur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækis. Það er a.m.k. ekkert sem kemur í veg fyrir að þessi sjóður geti starfað eins og upphaflegir flm. gerðu ráð fyrir þó að við ætlum honum víðtækara hlutverk og þátt í þeim mikla vanda sem nú er.
    Hv. þm. ræddi mjög viðtal við hæstv. fjmrh. og formann Alþb. Ég skal út af fyrir sig ekki segja mikið um það nema það að ég gat ekki lesið úr þessu viðtali að þarna sé um að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég lít það svo að hæstv. fjmrh. sé að lýsa þeirri stöðu sem hann telur að upp sé komin í sambandi við þessi erfiðu mál, m.a. í þeirri flokkun sem hann gerir þar grein fyrir. Ég vildi gjarnan að hv.

þm. mætti vera að því að hlusta því að ég tel mikilvægt að fullvissa hv. þm. um að þessi ríkisstjórn fylgir í grundvallaratriðum sömu stefnu og fyrri ríkisstjórnir að skapa nauðsynlega umgerð utan um atvinnulífið þannig að það geti starfað á heilbrigðan hátt. Það er alls ekki ætlun þessarar ríkisstjórnar að knýja á um, eins og hv. þm. orðaði það, að eitt fyrirtæki eða annað fari í gegnum þennan hlutafjársjóð. Ég tók það mjög skýrt fram þegar ég talaði áðan að ríkisstjórnin hefur engin afskipti haft af því sem verið er að gera í þessum málum nú önnur en að biðja Byggðastofnun, Landsbankann eða Fiskveiðasjóð að skoða málið án aðildar ríkisstjórnarinnar. Ég er algerlega sammála hv. þm. að ríkisstjórn á ekki að vera með puttana í slíkum hlutum. Ég vil taka það skýrt fram að vitanlega verður hvert einasta fyrirtæki að ákveða sjálft hvort það óskar eftir því að leita aðildar hlutafjársjóðsins. Það verður ekkert fyrirtæki knúið til þess. Ég hljóp að vísu aðeins lauslega yfir þessa grein, en ég gat alls ekki séð að formaður Alþb. væri að lýsa því að þannig ætti að starfa sem hv. þm. hefur augsjáanlega skilið svo að mér sýnist satt að segja að að þessu leyti sé enginn ágreiningur á milli þeirra sjónarmiða og þeirrar stefnu sem hv. þm. lýsir sem stefnu Sjálfstfl. og þeirrar sem þessi ríkisstjórn fylgir að þessu leyti.
    Gengið hefur enn þá orðið mikið umræðuefni. Ég hef hvað eftir annað sagt að raungengið væri of hátt. Raungengi má lækka með ýmsum leiðum. Gengisfelling er að sjálfsögðu ein. En afar mikilvægt er í því sambandi að halda aftur af ýmsum öðrum kostnaðarliðum. Það er það sem þessi ríkisstjórn leggur afar mikla áherslu á, bæði að halda aftur af fjármagnskostnaði og fleiru sem inn í þetta spilar. En þegar menn tala um gengið þykir mér satt að segja ótrúlegt að aldrei er minnst á að búið er að fella gengið um 30% á einu ári. Það hefur þótt nokkuð rösklega að gengið satt að segja. Frá því um áramótin er búið að fella gengið um 8%. Þessi ríkisstjórn fylgir þeirri stefnu að vinna sig jafnt og þétt út úr þessum vanda, ekki með kollsteypum, og án þess að stofna til
átaka við launþega eða a.m.k. eins lítið og frekast er unnt, og gera þetta jafnframt með því að skapa aðhald á fjölmörgum öðrum sviðum eins og ég er svo oft áður búinn að rekja. Ég hef oft spurt að því hvað t.d. þeir sem hér boða gengisfellingu telji að gengisfelling þurfi að vera mikil. Og eru hv. þm. sannfærðir um að fyrirtæki sem eru í þessum erfiðleikum fái rekstrargrundvöll þótt gengið yrði fellt tvöfalt, þrefalt það sem gert hefur verið? Ég lét skoða það og mér er sagt að svo sé ekki. Ég lét athuga hvaða áhrif 20% gengisfelling hefði. Vitanlega mundu ýmis fyrirtæki hagnast af því, en þau fyrirtæki sem hér er um að ræða fá ekki rekstrargrundvöll jafnvel þótt gengið yrði fellt um 20%. Greiðslustaða þessara fyrirtækja er svo óskaplega erfið. Greiðslufjárskortur er svo mikill. (Gripið fram í.) Jú, jú, það getur lagast til að byrja með, en þau eru með skuldir í mörgum tilfellum langt

umfram það sem veltan er. Þjóðhagsstofnun hefur athugað þetta. Ég hef á mörgum stöðum sýnt þá útreikninga. Þeir hafa ekki verið vefengdir af einum einasta manni sem ég hef rætt við um þessi mál. Þess vegna spyr ég: Hvað þarf gengisfellingin að vera mikil til þess að þessi rekstrargrundvöllur sé fenginn sem mér skilst að eigi einnig að bjarga þeim fyrirtækjum sem hér er um að ræða? ( FrS: Má ég spyrja forsrh.: Hvað er gengið mikið rangt skráð?) Ég held að það sé farið að nálgast það að raungengið sé að verða viðunandi. Raungengið er komið niður fyrir það sem það hefur verið að meðaltali á þessum áratug. Það er líklega um 98% þess meðaltals sem er frá 1980. Það er mjög að nálgast það.
    Ef ég má halda áfram. Hv. þm. nefndi nokkur fyrirtæki. Það er rétt hjá hv. þm. að ég hef líka rætt við ýmis fyrirtæki. Af því að hv. þm. nefndi Útgerðarfélag Akureyringa legg ég til að hv. þm. spyrji Útgerðarfélag Akureyringa um framlegðina í janúar. Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir hv. þm. að spyrja að því. Hjá mér voru menn úr frysti- og sjávarútveginum í gær sem sögðu mér að framlegðin hefði gerbreyst á síðustu mánuðum síðasta árs og sérstaklega eftir áramótin. Þeir segja mér að það sem skortir nú sé fyrst og fremst fiskurinn af því að það hafi verið svo miklar ógæftir. En þegar þeir hafa fisk að vinna segja þeir að framlegðin sé allt önnur. Ég met það svo að þessi fyrirtæki, sem á annað borð hafa rekstrargrundvöll, séu að komast yfir þessa erfiðleika sem betur fer og það tel ég afar jákvætt.
    Fleira mætti vitanlega um þetta segja, en ég vil ekki lengja þetta mál um of. Ég trúi varla öðru en menn séu út af fyrir sig sammála um að þeim fyrirtækjum í byggðarlögum þar sem þessi fyrirtæki eru meginstoð atvinnurekstursins sé gefið tækifæri ef þau óska að leita aðstoðar í þessum hlutafjársjóði. Um það er að ræða, ekki nokkurn skapaðan hlut annan. Ef fyrirtækin vilja heldur fara gjaldþrotaleiðina og freista þess að heimamenn kaupi á einhvern máta fyrirtækin aftur segi ég: Fínt. Ég hef ekkert við það að athuga, ekki nokkurn skapaðan hlut, ef menn hafa bolmagn til þess. Því miður óttumst við að á æðimörgum stöðum sé orðið svo lítið um fjármagn að það sé ekki bolmagn og þess vegna kunni slík aðgerð að vera nauðsynleg. Ég tek undir það með hv. þm. að mörg fyrirtæki hljóta að verða gjaldþrota. Það getur enginn komið í veg fyrir það og þau hljóta að ráða því sjálf.
    Hæstv. fjmrh. segir í þessu umrædda viðtali að það hafi verið bullandi pólitísk fjárfesting. Ég verð að viðurkenna það og taka undir það með hv. þm. að ég veit ekki við hvað er átt þar. Ég gæti tekið undir ,,bullandi fjárfesting``, en ,,pólitísk`` ekki. Staðreyndin er sú að bæði í þeirri ríkisstjórn sem við sátum saman í og ríkisstjórninni þar á undan var með pólitískum þrýstingi reynt að fá menn ofan af mikilli fjárfestingu. Reynt var að beita áhrifum í Fiskveiðasjóði til að þar yrðu samþykktar sem minnst lán til nýsmíða í fiskiskipum. Engu að síður voru þar samþykktar tólf, ef ég man rétt, slíkar lánveitingar á síðasta ári.

Staðreyndin er sú að vinnslu- og frystitogurum hefur fjölgað úr þremur í 21 á örskömmum tíma. Það kalla ég bullandi fjárfestingu, en ekki pólitíska fjárfestingu. Ég tek undir það.
    Ég skal ekki segja hvað ég á að fara ítarlega út í þessa hluti. Spurtvar: Af hverju er sjóðurinn ekki settur undir stjórn Byggðastofnunar? Ég tel satt að segja, eins og ég sagði reyndar í mínum orðum hér áðan, að miklu skynsamlegra sé að hafa þetta ekki undir stjórn einnar annarrar stofnunar því að margar stofnanir þurfa að koma að þessu. Hv. þm. spurði: Hvers vegna ekki að veita viðskiptabönkum og sjóðum heimild til að eiga hlutafé? Þetta hafa menn hugleitt. Þetta hefur verið rætt við forustumenn í sumum þessara stofnana og þeir hafa lagst heldur gegn því. Spurningin er alltaf: Hvar yrðu takmörkin sett í þessu sambandi? Sú leið sem hér er lögð til hefur fengið heldur góðar undirtektir hjá þeim sem náðst hefur í. Ég viðurkenni að hitt kæmi til greina ef menn vilja breyta þeim lögum sem um það gilda, en ég held að ansi strangar takmarkanir þyrftu að vera og skorður á settar.
    Hv. þm. talar mikið um að hér ætti að setja upp eitthvert ,,kommissaraveldi``. Ég segi bara: Guð hjálpi okkur frá því. Við stóðum einu sinni saman, ýmsir flokkar á þingi, að slíku og ég held að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki skynsamlegt. Í þessa stjórn þurfi að veljast menn sem ekki eru í stjórnmálum t.d., ekki hafa heldur þannig óbeinna hagsmuna að gæta.
    Hvort um það hefur verið rætt að koma á fót samstarfsnefnd sem meti við skulum segja þau fyrirtæki sem kemur til greina að hlutafjársjóðurinn fari í. Þetta var aðeins rætt, en var ákveðið að gera ekki ráð fyrir því. Hins vegar er í 5. gr. talað um verkefni stjórnarinnar. Þar segir í 6. lið að stjórninni sé heimilt að ráða sérfræðinga o.s.frv. til að meta stöðu fyrirtækja og það var talið fullnægja þessu. Stjórnin kveðji til sérfróða menn á hinum ýmsu sviðum þegar hún þarf að fá slíkt mat.
    Um 9. lið 5. gr. vil ég segja að ég tel að sá liður verði felldur brott. Ég er sammála hv. þm. Ég tel óeðlilegt að stjórn sjóðsins ákveði viðbótarlaun handa mönnum sem sitja í stjórnum.
    Hv. þm. spurði hvort ekki væri nauðsynlegt að hafa lagaheimild fyrir ákvæðum 8. gr. reglugerðarinnar um tvískipt hlutdeildarskírteini. Þessi reglugerð er samin m.a. af lögfræðingum og ég skal vissulega koma þeirri spurningu á framfæri. Það var þó ekki talið nauðsynlegt. Hins vegar tek ég undir það, sem einnig kom fram í orðum hv. þm. og einnig kom fram í mínum orðum í upphafi, að vandmeðfarið er hvernig á að skipta þessari ríkisábyrgð eða hvernig á að nota hana. Mig grunar að ýmsir muni gera athugasemdir við það ef t.d. bankar og sjóðir, sem eru með nokkuð örugg veð í viðkomandi eignum viðkomandi fyrirtækis, eiga að ganga fyrir og geta breytt þessum veðum í ríkisábyrgð. Ég tek skýrt fram að það er alls ekki ætlunin, eins og lesa má í þessari grein og kom fram í orðum hv. þm., að aðrir sem vilja kaupa

hlutdeildarskírteini séu einhvers konar annars flokks kaupendur þeirra skírteina. Það er alls ekki ætlunin og sjálfsagt að umorða þessa grein þannig að þeir sitji þar við sama borð. Hins vegar er spurningin: Hverjir fá forgangsrétt að þessum ríkistryggðu bréfum? Mér sýnist að það liggi í hlutarins eðli að þeir sem hafa þessi ríkistryggðu bréf hljóti að ganga fyrir greiðslum. Þeir eru a.m.k. með öruggar endurgreiðslur skulum við vona. Hins vegar kann svo illa að fara að þessi sjóður lendi í miklum fjárhagserfiðleikum eftir að búið er að greiða út ýmis hlutafjárskírteini þannig að margir sem hafa lagt þar inn á ríkisábyrgð geti verið búnir að fá sitt. Þetta, sem hv. þm. er að tala um, sýnist mér eingöngu vera umhugsunarefni ef sjóðurinn kemst í þrot.
    Hv. þm. ræddi nokkuð um liði a, b og c í 12. gr. Þá liði ber að sjálfsögðu að lesa saman, ekki er nægilegt að uppfylla kvaðir í einum lið. Þá ber að lesa saman. Þetta verður að vera fyrirtæki sem er meginstoð í viðkomandi byggðarlagi og það verður að hafa fullnægt einnig liðunum b og c. Sérstaklega ræddi hv. þm. um lið c. ( FrS: Og 2. mgr.) Og 2. mgr., já. Það verður að lesa þetta saman.
    Hv. þm. spurði hvort ríkisstjórnin hefði einhverjar hugmyndir um hvaða hlutabréf ríkissjóðs ætti að afhenda þessum sjóði. Engin afstaða hefur verið tekin til þess. Þetta er tekið beint upp úr 10. gr. eins og frv. stendur. Þar segir: ,,Ríkissjóður getur einnig selt`` o.s.frv. Ég gæti eins snúið spurningunni við og spurt: Hvað voru hv. flm. með í huga í þessu sambandi? (Gripið fram í.) Þið megið koma með hugmyndir. Það er velkomið og kannski ráðið þið þessu einhvern tíma. En það er langt þangað til.
    Hv. þm. spurði einhvern tíma í sinni ræðu hvort ég treysti Alþb. fyrir því að fara með þennan sjóð. Hann vildi að vísu að ég svaraði því ekki af einhverjum ástæðum. En ég svara því þannig að ég treysti hvaða ríkisstjórn sem verður mynduð á Íslandi til að fara með málefni þessa sjóðs. Ég skal ekki segja um hvort ég treysti einum flokki betur en öðrum. En eins og ríkisstjórnir geta orðið á næstunni treysti ég hvaða ríkisstjórn sem er til að fara með málefni þessa sjóðs.
    Ég held að ég hafi svarað flestum spurningum, að vísu farið nokkuð hratt yfir. Það væri þó unnt að flytja um þetta miklu lengra mál.
    Ég kem þá að spurningu síðari ræðumanns, hv. 10. þm. Reykn. Mér þótti leitt að heyra að hv. þm. lýsir þessu máli sem einhverju pólitísku geðþóttamáli. Ég vil alls ekki sitja undir því. Þessi ríkisstjórn á í því afar erfiða verkefni að koma í veg fyrir stöðvun og meiri háttar byggðaröskun í fjölmörgum byggðarlögum þessa lands. Eftir mjög ítarlega yfirferð hefur niðurstaða orðið sú hjá öllum sem hafa unnið að þessu máli að fjölmörgum þessara staða verði ekki bjargað með t.d. gengisfellingu, verði ekki bjargað án þess að gerbreyta eiginfjárstöðu þessara fyrirtækja. Því má ekki ráða pólitískur geðþótti og er ekki ætlun þessarar ríkisstjórnar. Það er fyrst og fremst ætlun þessarar ríkisstjórnar að eigendur fyrirtækjanna, byggðarlögin og aðrir sem eiga þarna hagsmuna að

gæta hafi sem mest áhrif á það hvernig þessu verður bjargað. Á þetta vil ég leggja mikla áherslu.
    Hv. þm. spurði um hvernig háttað yrði endurgreiðslum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í frv. er gert ráð fyrir að 10. hluti verði greiddur árlega þannig að það tekur tíu ár að endurgreiða það fjármagn sem er svona ráðstafað samkvæmt lögunum. Hv. þm. spurði einnig hvort það verði greitt með verðtryggingu og vöxtum. Ég viðurkenni að eins og greinin er orðuð er þetta óljóst, en ég lít svo á að þetta fjármagn beri að endurgreiða með þeim kjörum sem það er útlánað af Atvinnutryggingarsjóðnum. Ég hef borið þetta
undir lögfræðing sem segist ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að endurgreiðslan verði þannig ákveðin.