Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Suðurl. beindi til mín nokkrum spurningum. Í fyrsta lagi spurði hann um það hvað mundi gerast eftir að hlutafé það sem lagt er fram af svonefndum hlutafjársjóði hefur brunnið upp og spáði því að það hlutafé mundi brenna upp. Það er að sjálfsögðu alveg rétt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að ef slík staða kemur upp, þá er betra að fara ekki af stað með þetta mál. Og það má segja um sjávarútveginn almennt að ef hann stendur frammi fyrir því að missa allt sitt eigið fé á næstu árum, þá erum við hér komin í mjög alvarlega stöðu og þar af leiðandi er það alveg rétt hjá honum að það sem skiptir öllu máli er að almenn skilyrði sjávarútvegsins verði það góð að hann fái staðið undir því á nýjan leik að standa undir skuldum sínum. Til þess að svo megi verða þurfa tekjur sjávarútvegsins að hækka, annaðhvort í gegnum hækkað afurðaverð eða með meiri lækkun á raungengi. Þetta er sú sama staða sem menn hafa staðið frammi fyrir lengi og hv. 1. þm. Suðurl. þekkir mætavel og jafn vel og ég.
    Það er alveg ljóst að á árinu 1988 og seinni hluta árs 1987 voru rekstrarskilyrði sjávarútvegsins þannig að hann tapaði verulega miklu af sínu eigin fé. Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að fiskvinnslan sé í járnum samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar, en hins vegar er mikið tap sérstaklega á bátaflotanum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við stöndum frammi fyrir alvarlegri stöðu sem þessari, en það skiptir sköpum hvort raungengið lækkar eitthvað meira á næstunni eða hækkar. Ég fer ekkert leynt með þá skoðun mína að ég tel að það þurfi að lækka eitthvað meira og þess vegna sagði ég að þessar ráðstafanir væru ekki nægilegar. En það er ekki þar með sagt að það sé einfalt mál að lækka raungengið hér á landi. Það sem skiptir sköpum í þeim efnum er að launahækkanir á næstunni verði hófsamlegar og menn geri sér ekki upp þær vonir að hér geti kaupmáttur aukist á næstunni. Á þetta hefur verið lögð áhersla í ríkisstjórninni, að ekki sé ráðlegt að ætla sér að fara í kollsteypu í gengismálum vegna þess að það sé ekki líklegt að með því lækki raungengið það mikið, þá yrði gengisbreyting fyrst og fremst til þess að auka hér víxlverkanir og auka verðbólguna. En það kom mjög skýrt fram í máli hv. 1. þm. Suðurl. að slíkt vildi hann ekki heldur sjá.
    Þetta er þess vegna hið venjulega tekjuskiptingarvandamál í þjóðfélaginu og það skiptir meginmáli að tekjuskiptingarúrlausnin á næstunni gangi ekki á hag sjávarútvegsins eins og hún hefur gert að undanförnu. Það liggur alveg fyrir að þegar kjarasamningar voru gerðir hér á sl. vetri þá gekk sú niðurstaða á hag sjávarútvegsins. Það þarf að koma í veg fyrir að það gerist aftur. Auðvitað þarf sjávarútvegurinn að hagnast til þess að geta greitt skuldir sínar til baka.
    En þá kemur þessi spurning: Hvað skal gera í þeim tilvikum þar sem um er að ræða mjög lítið eigið fé í fyrirtækjum og þau fá ekki staðið undir skuldum sínum um sinn nema með því að fá meira eigið fé?

    Ég hafði skilið það svo þegar farið var að tala um þennan hlutafjársjóð að hann væri einmitt hugsaður til þess að hjálpa til í þeim tilvikum þar sem vantaði eigið fé um sinn og það hlutafé yrði síðan selt þegar betur gengi. Ég botna ekkert í því hvað menn voru eiginlega að fara ef menn áttu ekki við þetta. Voru Kvennalistinn og Sjálfstfl. að leggja það til að keypt yrði hlutafé í sterkustu fiskvinnsluútgerðarfélögum landsins? Reiknuðu þessir flokkar með því að hlutafé þar væri falt? Með þeirri afstöðu að vilja ekki leggja hlutafé í þessi fyrirtæki sem eiga fyrir skuldum en vantar eigið fé nú á næstunni til þess að koma sér yfir mestu erfiðleikana, með því að hafa þá afstöðu að vilja ekki setja hlutafé inn í þessi fyrirtæki, þá hafa menn þá afstöðu að þessi fyrirtæki skuli fara á hausinn og það skuli þá koma upp viðeigandi vandamál í þeim byggðarlögum því að gengisbreyting mun ekki hjálpa til í þessum tilvikum vegna þess hversu illa fyrirtækin eru komin. Þeir aðilar, sem vilja ekki setja þennan hlutafjársjóð á stofn, ættu því að tala skýrt hér og segja sem svo að það eigi ekki að aðstoða þau fyrirtæki sem verst eru sett víða á landinu --- og ég gæti talið upp allmarga staði í því sambandi --- heldur en vera að tala í kringum þetta mál með þeim hætti sem hér er gert. Ég fæ ekki skilið við hvað er átt. Það er þá betra að tala hreint út um það.
    Í öðru lagi spurði hv. 1. þm. Suðurl. um það hvort ég ætlaði að greiða atkvæði eða hefði greitt atkvæði gegn eigin orðum. Það er út af fyrir sig ágæt spurning. Það hef ég ekki gert. Það sem ég sagði á sínum tíma, ég hef það nú ekki orðrétt en ég held að ég muni það nokkuð vel að ég sagði að það væru engar líkur til þess að atvinnugreinin gæti greitt þetta lán og þess vegna augljóst að það mundi að öllum líkindum falla á ríkissjóð. Nú sem stendur er greitt út úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og fyrsta skrefið hlýtur að vera að þær greiðslur falli niður. Til þess þarf verulegan bata í sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn er með miklar skuldir á bakinu og þarf því á öllum sínum tekjum að halda á næstu árum til að endurgreiða þessar skuldir og eru engar líkur til þess að hann geti lagt í Verðjöfnunarsjóðinn. Ég hef ekki nokkra trú á því að stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins samþykki það að hefja
greiðslur inn í Verðjöfnunarsjóð frystingarinnar. Það hefur ekki verið gert á undanförnum árum þrátt fyrir bærilega afkomu. Til þess hefur ekki verið meiri hluti í stjórn sjóðsins. Þótt ríkisfulltrúarnir legðu það til á árinu 1987, þá lögðust fulltrúar vinnslu og veiða gegn þeirri tillögu og þeir hafa meiri hluta í stjórn sjóðsins. Þess vegna ætti það að vera alveg augljóst að til þess mun ekki koma að á þessum tíma muni þessir aðilar samþykkja að hefja greiðslu í sjóðinn og lánið mun því falla á ríksisjóð nema eitthvað mjög óvænt komi til. Þetta veit ég að hv. 1. þm. Suðurl. er vel ljóst, enda var rætt um þetta mál með sama hætti í hans ríkisstjórn, ef ég man rétt.
    Í þriðja lagi spurði hv. þm. um það hvort ég væri að leggja það til að lántöku yrði haldið áfram, ég hefði lýst því yfir. Ég vildi gjarnan fá að lesa það

sem ég sagði því að ég hef það þó hér skrifað, þessa svokölluðu yfirlýsingu, en ég sagði í umræðum hér á hv. Alþingi eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hitt er svo annað mál að menn sjá ekki framan í þessa þróun á þessum degi [þ.e. að því er varðar verðhækkanir] en vonandi breytist staðan með vorinu þannig að t.d. verðhækkanir geti leyst útgreiðsluna úr Verðjöfnunarsjóði af hólmi. Ef svo verður ekki hlýtur það að koma til athugunar hvort ekki sé rétt að framlengja þá greiðslu í einhvern tíma þótt menn hjóti samt að vona að þess þurfi ekki því að það getur ekki verið ráðlegt til langframa að greiða til atvinnugreinarinnar með slíkum hætti og á enginn að stefna að því og núv. ríkisstjórn gerir það ekki.``
    Ég vænti þess að þessi orð svari því sem hv. þm. spurði um því að þessi orð verða ekki skilin með þeim hætti sem hann túlkaði hér.