Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vildi fyrst og fremst ítreka það hér sem fram hefur komið hjá hv. 10. þm. Reykv. um þann tilgang sem lá að baki tillöguflutningi Kvennalistans og Sjálfstfl. um hlutafjársjóð. Það hefur komið skýrt fram að á þeim hugmyndum og því sem ríkisstjórnin er að gera er reginmunur, svo sem öllum má vera ljóst sem lesa ríkisafskiptareglugerð þá sem A-flokkarnir hafa greinilega þröngvað upp á Framsfl., enda biður hann guð að hjálpa sér í þessari umræðu ef hún verður að veruleika.
    Hæstv. ráðherra getur heldur ekki haldið því fram að afstaðan gagnvart þessari röngu efnahagsstefnu feli það í sér að menn vilji ekki á grundvelli byggðastefnu koma til aðstoðar einstökum fyrirtækjum. Það er alveg sitt hvað að mæla hér fyrir efnahagsstefnu sem hefur þessar afleiðingar og hefur augljóslega þær afleiðingar og miðar að því að koma best reknu fyrirtækjunum niður á það stig sem hlutafjársjóðsfyrirtækin eru á í dag.
    Síðan segir hæstv. ráðherra og það lýsir kannski best stöðu málsins: ,,Ef hlutaféð brennur upp í þessum nýju fyrirtækjum, þá er betra að fara ekki af stað.`` Ef það liggur ljóst fyrir að hlutaféð brennur upp, þá væri betra að fara ekki af stað. Þetta voru ummæli hæstv. sjútvrh.
    Hvaða staðreyndir liggja svo fyrir í þessu máli? Það liggur fyrir að tap fiskvinnslunnar fer vaxandi. Það liggur fyrir eftir yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að fiskvinnslan á að bera framlagið í Verðjöfnunarsjóðinn nema stefnt sé að þriggja ára viðbótartaprekstri í sjávarútveginum. Í annan stað liggur það fyrir í áætlunum Seðlabankans á grundvelli þeirrar efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur markað að raungengi krónunnar mun fara hækkandi á þessu ári og það mjög verulega. Það er beinlínis stefna hæstv. ríkisstjórnar, samkvæmt þeim tölum sem Seðlabankinn hefur birt fyrir aðeins örfáum dögum, að raungengi krónunnar hækki á árinu. Það liggur þannig fyrir samkvæmt þessari stefnu og þeim gögnum sem þær stofnanir sem heyra undir hæstv. ríkisstjórn hafa birt að stefnt er að hærra raungengi og þar af leiðandi verri afkomu sjávarútvegsins. Þetta þýðir því að þetta fé mun brenna upp. Það er von að hæstv. ráðherrar iðrist og aðrir biðji guð að hjálpa sér.