Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég trúi því að þetta hlutafé muni ekki brenna upp. Ef sjávarútvegurinn heldur áfram að tapa lenda slíkar skuldbindingar á ríkissjóð þannig að hann fær vart staðið undir því, bæði vegna Atvinnutryggingarsjóðsins og hlutafjársjóðsins. Það eru því vissulega hagsmunir allra að sjávarútvegurinn fái staðið undir þessum skuldbindingum, ekki síst hagsmunir ríkisins.
    Það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Suðurl. að sjávarútvegurinn þurfi að halda áfram að tapa. Það er ekki beint samband á milli Verðjöfnunarsjóðs og tapreksturs í sjávarútvegi. Það hefur oft komið fyrir að sjávarútvegurinn hefur haft verulegan hagnað án þess að leggja í Verðjöfnunarsjóð. En að því er raungengi varðar er ég þeirrar skoðunar að allt of lengi hafi verið hlustað á Seðlabankann í gengismálum. Ég gef ekki mikið fyrir það þótt Seðlabankinn spái hækkandi raungengi því að íslenskt atvinnulíf þolir það ekki. ( ÞP: Á grundvelli stefnu ríkisstjórnarinnar?) Ég veit ekkert um hvernig Seðlabankinn fer í þessa útreikninga. Það hefur ekki verið talað um það í ríkisstjórninni að hægt sé að reikna með því að raungengið hækki. Það hefur þvert á móti verið talað um að raungengið verði að lækka eitthvað meira. Ef Seðlabankinn er að spá hækkandi raungengi er það óraunsæ spá sem fær ekki staðist.