Verðbréfaviðskipti
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. sem prentað er á þskj. 501.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. á þrettán fundum en varð ekki einhuga í afstöðu sinni til málsins og minni hl. skilar sérstöku áliti.
    Við leituðum umsagnar hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Fjárfestingarfélaginu, Kaupþingi hf. og Árna Vilhjálmssyni prófessor. Auk þess fengum við í hendur sameiginlega álitsgerð frá Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Þá komu á fund nefndarinnar Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabankans, Eiríkur Guðnason, aðstoðarbankastjóri við Seðlabankann, Björn Friðfinnsson, ráðuneytisstjóri viðskrn., Tryggvi Axelsson, deildarstjóri í viðskrn., Björn Líndal, aðstoðarbankastjóri við Landsbanka Íslands, og frá Sambandi verðbréfasjóða komu Gunnar H. Hálfdanarson, Pétur Blöndal, Gunnar Óskarsson, Dagný Leifsdóttir og Sigurður B. Stefánsson.
    Á þskj. 502 flytur meiri hl. nefndarinnar 18 brtt. við frv. og þó að nefndin standi ekki sem heild að þessum brtt. þá ríkir einhugur í nefndinni um margar þeirra. Langflestar brtt. byggjast á athugasemdum sem bankaeftirlit Seðlabankans gerði við frv. og miða þær að verulegu leyti að því að gera frv. skýrara og eyða hugsanlegum vafaatriðum. Nokkrar brtt. byggjast á ábendingum og tillögum frá Kaupþingi hf., Fjárfestingarfélaginu. Hv. þm. Stefán Valgeirsson flutti tvær brtt. á þskj. 35 sem teknar voru til greina að mestu leyti, að vísu ofurlítið umorðaðar og Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands gerðu tillögur að breytingum sem sumar hverjar voru teknar upp.
    Í áliti minni hl. nefndarinnar, þ.e. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og Inga Björns Albertssonar, er fundið að því að nefndin sem upphaflega undirbjó þetta frv. hafi ekki fengið nægileg tækifæri til þess að fullmóta frv. Það má segja að það sé rétt. Það var rekið á eftir þessari nefnd og hún hafði skamman tíma til stefnu. Á hinn bóginn tel ég að vegna þeirrar miklu vinnu sem fjh.- og viðskn. hefur lagt í þetta mál hafi náðst sá árangur að gera allgott frv. og ég treysti okkur í fjh.- og viðskn. ekki síður en þeirri nefnd, sem samdi upphaflegu drögin að frv., til þess að ganga frá því í viðhlítandi búningi.
    Meginatriði þeirra brtt. sem meiri hl. nefndarinnar flytur á þskj. 502 eru eftirfarandi:
    1. Í fyrstu brtt., sem er við 2. gr. frv., er kveðið skýrar á um skráningarskyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða varðandi gögn tengd verðbréfaviðskiptum. Þetta er gert að tillögu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar sem fylgdist með störfum nefndarinnar að hluta.
    2. Í fimmtu brtt., sem er við 11. gr. frv., eru hert nokkuð skilyrði fyrir leyfi til rekstrar verðbréfafyrirtækis. Breytingin er við a-lið 3. mgr. þar sem innborgað hlutafé er hækkað auk þess sem kveðið er á um upphæð eigin fjár fyrirtækisins.
    3. Í sjöttu brtt., sem er við 12. gr. frv., er gert ráð

fyrir að hækka úr 1% í 2% upphæð eigin fjár verðbréfafyrirtækis af höfuðstól verðbréfasjóðs eða verðbréfasjóða sem fyrirtækið rekur. Breytingin er gerð í tengslum við tölulegar breytingar við 11. gr.
    4. Í tólftu brtt., sem er við 29. gr., er gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að gera auknar kröfur um laust fé verðbréfafyrirtækja. Í frv. er miðað við 2% af innlausnarverðmæti, en í brtt. er gert ráð fyrir að þetta geti farið upp í allt að 5%. Hækkun þessi er gerð til að tryggja að sjóðirnir séu betur í stakk búnir til að mæta skyndilegri aukningu innlausna.
    5. Í þrettándu brtt., sem er við 30. gr., er kveðið á um bindiskyldu verðbréfasjóða og heimild til að setja hámark á vexti verðbréfasjóða. Þetta var upphaflega tillaga hv. þm. Stefáns Valgeirssonar á þskj. 35.
    Undir meirihlutaálitið rita auk mín Kristín Halldórsdóttir, með fyrirvara, Sigríður Hjartar, Árni Gunnarsson og Ragnar Arnalds, með fyrirvara.
    Ég tel að þetta mál hafi hlotið vandaða meðferð. Það hefur tekið verulegum breytingum og ég held að þetta sé nauðsynleg lagasetning og verulegt skref til bættrar löggjafar. Flest af þessu eru samkomulagsatriði. Ég hefði getað hugsað mér nokkur atriði í frv. með öðrum hætti, en það gengur nú svo að samkomulags verður að leita.
    Ég vil þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir gott samstarf í nefndinni. Að þessu starfi hafa staðið fleiri fulltrúar frá Sjálfstfl. en hv. nefndarmaður Matthías Bjarnason. Hv. þm. Geir H. Haarde hefur einnig setið á fundum fjh.- og viðskn. svo og Friðrik Sophusson í veikindaforföllum hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Ég vil þakka öllum þeim sem að þessu hafa starfað fyrir ágæta samvinnu. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með það að einn af fulltrúum Alþb. í nefndinni skyldi skrifa upp á brtt. stjórnarandstöðunnar, þ.e. stjórnarandstæðinganna Matthíasar Bjarnasonar og Inga Björns Albertssonar. Það undraði mig nokkuð þegar ég sá að búið var að prenta upp þingskjalið og bæta nafni hans á. Ég vona samt að það komi ekki að sök og frv. hljóti afgreiðslu í þeirri mynd sem við leggjum til.