Verðbréfaviðskipti
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Hæstv. forseti. Umfjöllun um þetta mál hefur nú tekið langan tíma eins og þegar er fram komið og til þess voru eðlilegar ástæður. Þetta er nokkuð viðamikil löggjöf og mjög aðkallandi og undir það skal tekið að höfundum frv. er nokkur vorkunn þótt við umfjöllun í nefnd fyndist ýmislegt athugavert við verk þeirra.
    Ég er hins vegar ekki sammála því sem kemur fram í áliti minni hl. nefndarinnar að það beri að átelja sérstaklega ríkisstjórnina fyrir að leggja málið fram í þessum búningi vegna tímaskorts höfundanna við undirbúninginn. Ég tel að sumu leyti ágætt að þingnefndir þurfi að hafa dálítið fyrir því að yfirfara stjórnarfrv. að því tilskildu auðvitað að þær fái til þess hæfilegan tíma og ráðrúm. Ég held að svona augljósir hnökrar hvetji kannski heldur til rækilegrar athugunar á því hvort ekki leynist ýmislegt fleira úrbótavert. Án þess að ég sé nú með þessu að segja að svona eigi endilega að standa að hlutunum, þá held ég að það hafi verið mjög þarft og gott að við gátum varið svo mikilli vinnu og tíma í þetta þingmál. En nú er líka tími kominn til þess að afgreiða það.
    Eins og fram kemur stend ég sem fulltrúi Kvennalistans að nál. meiri hl. nefndarinnar, þó með fyrirvara, og vil ég nú skýra það með örfáum orðum. Meiri hl. gerir nokkrar tillögur til breytinga á frv. sem flestar eru til bóta og gerðar í góðu samkomulagi allra nefndarmanna. Það eru einkum þrjú atriði sem ágreiningur er um.
    Hið fyrsta er kannski ekki svo alvarlegt, og raunar ekki fullljóst hvaða áhrif það hefur, en hér á ég við það sem fram kemur í 1. brtt. á þskj. 502, en sú brtt. hljóðar svo:
    ,,Framan við greinina bætist ný mgr. er orðist svo:
    Þeir, sem lög þessi taka til og hafa atvinnu af viðskiptum með verðbréf, skulu afla glöggra upplýsinga um hverjir viðskiptamenn þeirra eru og skrá nöfn þeirra, kennitölur og heimili á reikninga eða uppgjör vegna viðskiptanna. Einnig ber öllum, sem atvinnu hafa af viðskiptum með verðbréf, að geyma afrit eða ljósrit af öllum skjölum, sérgerðum vegna viðskiptanna. Um geymsluskyldu skal fara eftir almennum bókhaldsreglum.``
    Mín skoðun er sú að þetta ákvæði sé óþarft og það er mjög vafasamt að ég ekki segi hálfhjákátlegt. Með þessu er að mínu mati verið að stuðla að algjörlega óþarfri aukavinnu og pappírsflóði og ég hlýt að taka undir orð hv. 1. þm. Vestf. sem hann lét falla varðandi umhverfismál. Við styðjum það eindregið að dregið sé úr pappírsflóði, ekki síst með tilliti til umhverfissjónarmiða. En það er nú kannski ekki aðalatriðið. Þetta er hins vegar óþarft ákvæði. Það er hér borið fram undir yfirskini neytendaverndar svona að því er mér virðist og sem öryggisatriði, en þetta er að mínu viti einfaldlega ítrekun á nafnskráningu og þessi trygging er fyrir hendi í frv. Hún er margendurtekin í þessu frv. og því er þetta óþörf viðbót og óþörf tillaga að mínu mati. Auk þess er hún kjánalega orðuð. Hvað er t.d. átt við með því að þeir, sem lög þessi taka til og hafa atvinnu af viðskiptum

með verðbréf, skuli afla glöggra upplýsinga um hverjir viðskiptamenn þeirra eru? Ég átta mig ekki á hvað hér er átt við. Við konur þekkjum það þegar við eigum viðskipti við banka eða komum til athugunar á sjúkrahúsum að þá erum við gjarnan spurðar að því hverjum við séum giftar og hvaða atvinnu þeir stunda. Er eitthvað svona hér á ferðinni? Ég skil ekki hvaða glöggra upplýsinga þarf sérstaklega að afla eða hvað er meint með þessu og það kom ekki fram í umfjöllun í nefndinni. Ég hygg að þessi brtt. sé hér tekin upp til að þóknast hv. 6. þm. Norðurl. e. án þess að aðrir nefndarmenn hafi sannfæringu fyrir því að hún sé nauðsynleg. Hún hefur að vísu nokkuð skánað við það að fella út skyldu til þess að ljósrita tékka, og það er einnig til bóta að setja einhver tímamörk á þessa --- ég vil segja vitleysu. En ég get sem sagt ekki samþykkt þessa tillögu með þeim skýringum sem ég hef flutt hérna.
    Í öðru lagi er ágreiningur um það hvort skylda eigi banka og sparisjóði til að stofna sérstök verðbréfafyrirtæki og um það vitna brtt. minni hl. Ég er þeirrar skoðunar að þessi varnagli skuli vera, þ.e. að bankar og sparisjóðir verði að stofna sérstök fyrirtæki um þessa starfsemi. Ég tel að það sé hreinlegri rammi um þessa starfsemi og það sé leið til þess að hamla gegn hagsmunatengslum og koma í veg fyrir svokölluð innherjaviðskipti eins og hæstv. viðskrh. ræddi um hér áðan. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta ákvæði verði til þess að mismuna mönnum eftir búsetu eins og fulltrúar minni hl. vilja meina. Ég tel að útibú og sparisjóðir geti eftir sem áður veitt fyllilega næga þjónustu á þessu sviði.
    Loks er það svo 30. gr. sem fjallar um bindiskyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða á sama hátt og lögð er á innlánsstofnanir. Þetta atriði kom nokkuð til umfjöllunar strax í 1. umr. sem vænta mátti og var þegar ljóst að það væri mikill ágreiningur um þetta atriði. Það er vissulega mála sannast að starfsemi innlánsstofnana annars vegar og verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða hins vegar er ekki að öllu leyti sambærileg og því eru margir
þeirrar skoðunar að þessi grein vinni í raun gegn því markmiði þessarar lagasetningar að hin ýmsu fyrirtæki á fjármagnsmarkaði sitji við sama borð. Sannleikurinn er auðvitað sá að Seðlabankinn er bakhjarl innlánsstofnananna. Þær eiga aðgang að Seðlabankanum um fyrirgreiðslu, geta fengið þar aðstoð og hafa þar yfirdráttarheimildir og þannig er í rauninni ríkisábyrgð á þeirra starfsemi.
    Verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóðir njóta ekki þessa og í rauninni væri eðlilegt að setja um það ákvæði að ef þessi fyrirtæki eru látin sæta bindiskyldu, þá njóti þau einnig sambærilegra réttinda. Ég tel brtt. meiri hl. að þessu leyti ekki til batnaðar, raunar eru margir þeirrar skoðunar að seinni hluti hennar sé óframkvæmanlegur. Ég er ekki nægilega kunnug þessari starfsemi til þess að fullyrða um það sjálf en þetta hefur verið fullyrt í mín eyru, enda er það mála sannast að þetta er málamiðlunartillaga. Það er verið að reyna að sætta sjónarmið sem hefur þó

ekki tekist.
    30. gr. eins og hún var í frv. upphaflega var ásættanleg og með útskýringum hæstv. viðskrh. tel ég að hún hafi betur staðið svo úr því að ekki tókst betur til með að göndla saman þessari málamiðlun. Það er sem sagt mín skoðun að 30. gr. hefði átt að standa eins og hún var og er í frv., hún mundi gegna þannig því hlutverki að vera nokkurs konar stíflugarður eins og henni var ætlað eins og hæstv. ráðherra orðaði það, ef ég man rétt, hér í 1. umr. um málið.
    Ég hef enga sérstaka samúð með verðbréfafyrirtækjum og verðbréfasjóðum og ég veit það að margir meta öryggi bankanna fram yfir hugsanlega hagnaðarvon hjá verðbréfasjóðunum. En þessi starfsemi býður upp á ákveðna kosti og hún er hér orðin til og er að ýmsu leyti gagnleg og ég sé enga ástæðu til að gera þeim miklu erfiðara fyrir sem þjónustufyrirtæki á þessu sviði.
    En að þessu slepptu fagna ég því að það er nú komið að afgreiðslu þessa máls. Umsvif verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða hafa vaxið með ævintýralegum hraða og það var mál til komið að lögbinda þessa starfsemi. Löggjöf um þessi fyrirbæri á að tryggja öryggi og hag fyrirtækjanna og þeirra sem þjónustu þeirra njóta. Hún á að hafa í för með sér bæði neytendavernd og öryggi fyrirtækjanna og stuðla að jafnræði og jafnstöðu á þessum markaði. Og við verðum að vona að sæmilega hafi hér tekist til.