Verðbréfaviðskipti
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Auður Eiríksdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að flytja hér langa ræðu en ég tel nauðsynlegt að fylgja brtt. á þskj. 506 úr hlaði með örfáum orðum.
    Það er ástæðulaust að mínu mati að gera verðbréfasjóðunum hærra undir höfði á nokkurn hátt en bönkum og sparisjóðum. Sé orðalagið, með leyfi forseta, ,,eftir því sem við getur átt`` haft með, þá opnar það Seðlabanka og stjórnendum fjármála hverju sinni möguleika á að mismuna bönkum og sparisjóðum annars vegar og verðbréfasjóðunum hins vegar hvað bindiskylduna varðar. Á sínum tíma var búið að ræða um það við samtök okkar að verðbréfasjóðirnir yrðu látnir hlíta sömu reglum og bankar og sparisjóðir sem mér finnst ekki nást fram á meðan áðurnefnd setning er í greininni. Að öðru leyti get ég um flest fellt mig við frv. eins og það er orðið með áorðnum brtt.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að óska eftir nafnakalli við afgreiðslu þessarar brtt.