Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég er sammála því, sem kom fram í máli utanrrh., að hér er verið að ræða um meiri háttar öryggismál. Ég minni á að Íslendingar eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það er mikill meiri hluti Íslendinga sem styður þá aðild og ég tel sjálfsagt að sú forkönnun sem óskað er eftir að fari fram verði leyfð. Við getum rifist um það seinna hvort byggja eigi flugvöll eða ekki. Menn hafa farið fram úr sér í þessari umræðu. Menn eru að tala um byggingu flugvallar. Það stendur ekki til að gera það nú, en það hefur verið farið fram á að athuga hvort svokölluð forkönnun verði leyfð.
    Annað er það sem ég vildi spyrja um, ekki utanrrh. heldur hv. 1. þm. Reykn. sem ekki er reyndar kominn enn þá en væntanlega berst það til hans. Það er staðreynd að Atlantshafsbandalagið fór að hafa áhuga á þessu máli árið 1985. Hv. 1. þm. Reykn. hefur verið bæði samgrh. og utanrrh. á því tímabili og ekki leyfði hann þessa forkönnun þrátt fyrir að leitað væri eftir því. Það er ástæða til að spyrja hvers vegna. Var það af áhugaleysi eða hvers vegna dreif maðurinn ekki í þessu? Hvernig stendur á þessum skyndilega áhuga allt í einu núna?
    Ég leyfi mér að halda að hann hafi hopað vegna samstarfsflokks síns, framsóknarmanna, sem hafa gert samþykktir á flokksþingum um það að ekki verði leyfðar frekari flugvallabyggingar. (Gripið fram í.) Það stendur á bls. 17 í Handbók vegna alþingiskosninga 1987 með stefnuskrárútdrætti úr ályktunum 19. flokksþings Framsfl., í kafla um utanríkis- og öryggismál: ,,Hernaðarframkvæmdir í landinu verði í engu auknar frá því sem leyft hefur verið, hvort sem um er að ræða ratsjárstöðvar, birgðageymslur eða flugvelli.``
    Reyndar er búið að byggja þessar ratsjárstöðvar að frumkvæði formanns Framsfl. og er það ágætt, en ég hygg að hann hafi viljað og fleiri framsóknarmenn standa á sínum samþykktum varðandi aðra þætti. Það er ályktun mín að fyrrv. utanrrh., 1. þm. Reykn., hafi bognað undan svona samþykktum því að auðvitað hefði hann leyft þetta ef hann hefði talið það mjög brýnt mál, en greinilegt er að svo hefur ekki verið. Ég tel að alveg frá 1985 hefði mátt leyfa þetta, en ekki var það gert og það er því mjög fróðlegt og mjög athyglisvert og mjög ánægjulegt að hv. 1. þm. Reykn. skuli hafa fengið svo sérstakan áhuga á þessu máli.
    Allir hér í hv. Alþingi vita um afstöðu Alþb. Þeir eru andvígir veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og þeir eru andvígir frekari hernaðarframkvæmdum og öðrum framkvæmdum sem tengjast varnarliðinu. Auðvitað er það heiðarleg afstaða sem ástæða er til að meta sem slíka. Ég er andvígur þeirri afstöðu. En þeir koma hreint til skjalanna og berjast gegn þessu og því er ekki að neita að auðvitað eru tormerki á því að ná þessu fram í augnablikinu. Það er alveg ljóst alveg eins og það var ljóst að fyrrv. utanrrh., sem var málshefjandi hér, hefur ekki komist upp með neinn moðreyk þegar hann sjálfur var utanrrh.
    Ég ætla ekki að fara frekari orðum um þetta. Ég

ítreka að ég tel sjálfsagt að þessi forkönnun verði leyfð og ég tel að það sé alveg á færi utanrrh. að leyfa það. En ég vil líka taka fram að við í Alþfl. erum mjög óvanir því að koma aftan að mönnum. Aðrir eru því vanari. Þess vegna hlýtur að taka einhvern tíma að leysa þetta mál.
    En eftir sitja þessar hugsanir: Hvers vegna verður þessi áhugi allt í einu til núna hjá málshefjanda? Hvers vegna leyfði hann þetta ekki meðan hans var mátturinn og dýrðin?