Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. 6. þm. Vesturl., sem var að ljúka máli sínu, ekki bara um varaflugvöll þann sem hér er á dagskrá heldur um allt samstarf vestrænna þjóða, að það er engin góðgerðastarfsemi, heldur má segja að það sé forvarnarstarfsemi, og hefur haldið stríðandi aðilum í veröldinni til baka frá 1945 eða í rúm 40 ár. Ef samstarf vestrænna þjóða helst eins sterkt og það hefur verið frá síðustu styrjöld gerum við okkur vonir um að það samstarf sem ég tala um geti forðað okkur frá heimsstyrjöld og slíkum vágestum um langa framtíð enn. Það er ekki þar með sagt að það geti verið um aldur og ævi.
    Ég tek það fram í upphafi máls míns að ég er að mörgu leyti sammála hæstv. utanrrh. þegar hann svaraði fyrirspyrjanda. Hann er jákvæður í undirtektum sínum um að hér verði byggður varaflugvöllur. Hann telur að hann hafi forræði í málinu á því stigi sem það er nú, þ.e. hann geti tekið ákvarðanir einn og óstuddur af Alþingi um að sú könnun, sem talað er um að fari fram, verði leyfð. Ég er sammála því. En ég dreg í efa að nokkur ráðherra eða nokkur ríkisstjórn hafi heimild til að taka lokaákvörðun um framkvæmdir, það verði að koma fyrir Alþingi og Alþingi að taka þar ákvarðanir hvernig sem málefnasamningur ríkisstjórnar er annars. Hér er um miklu stærra mál að ræða en það að ríkisstjórnin geti með einföldu samkomulagi sín á milli komið í veg fyrir þær framkvæmdir sem tíminn krefst hverju sinni.
    En það er ýmislegt sem ég hefði gjarnan viljað ræða nánar og biðja hæstv. utanrrh. að svara. Er það ekki rétt að þessi ósk er komin á það stig að segja má að það sé tímasett? Mér skilst að það sé búið að taka ákvörðun um það í aðalframkvæmdastjórn Atlantshafsbandalagsins að láta fara hér fram forkönnun og fé hafi verið ætlað í það verkefni og á þessu fjárhagstímabili verði sú forkönnun að fara fram. Að öðru leyti mun Atlantshafsbandalagið snúa sér að könnun á öðrum möguleikum, þ.e. Grænlandi og ég heyrði ekki alveg hvaða annað land kom til greina þegar hæstv. utanrrh. svaraði, en það voru einhverjir tveir staðir sem komu til greina. Mér heyrðist hann segja Færeyjar. Mér fannst það ótrúlegt. Ég get ekki ímyndað mér að þar sé undirlendi fyrir slíka starfsemi eins og varaflugvöll sem að sjálfsögðu er hernaðarmannvirki og við skulum ekkert vera að láta blekkja okkur eins og hv. 6. þm. Vesturl. sagði. Við skulum ganga í þetta samstarf hér eftir sem hingað til við Atlantshafsbandalagið með galopnum augum. Hvort sem við framkvæmum meira eða framkvæmum ekki er Ísland orðið að einhvers konar Gíbraltar norðursins, orðið virki sem engum dettur í hug að reyna að hertaka. Það gæti orðið um árás að ræða úr lofti, kannski af sjó, en ég held að það detti engum í hug að hertaka Ísland eins og það er staðsett á hernaðarsvæði vesturríkjanna.
    Þessi orð mín vil ég að hæstv. utanrrh. skilji sem svo að ég styð hann í því sem mér skildist á honum, að hann væri búinn að ákveða að veita leyfi til þess

að þessi forkönnun fari fram. Ég styð hann í því.
    En það er ýmislegt annað sem við megum ekki loka augunum fyrir og kemur fram í upplýsingum um varaflugvöll á Íslandi og ég hef fengið afrit af. Ég vildi gjarnan fá betri skýringu á því sem kemur fram hjá aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, Manfred Wörner, en hann staðfestir í bréfi til utanrrh. að varaflugvöllur sem byggður yrði hér á landi yrði mannaður og starfræktur af óbreyttum borgurum. Mér finnst þetta of loðið orðalag. Óbreyttir borgarar geta komið hvaðan sem er. Það geta komið hermenn í ,,sívil`` klæðum og þeir eru álitnir óbreyttir borgarar þar sem þeir eru gestir hverju sinni. Ég hefði gjarnan viljað hafa það betur orðað þannig að það færi ekkert á milli mála að það væri mannað af íslenskum ríkisborgurum. Að vísu kemur fram seinna í þessum upplýsingum að forræði, yfirstjórn og rekstur flugvallarins yrði í höndum Íslendinga, en það segir ekki nóg. Mér finnst eins og það orðalag gefi til kynna að það gæti hugsanlega verið eins konar leppar sem rækju flugvöllinn að nafninu til. Þetta þyrfti ég fyrir mína parta að fá dálítið öðruvísi og sterkara orðað.
    Síðan er talað um varaflugvöllinn margumrædda, en það hefur ekkert komið fram um þau fylgimannvirki sem eru orðuð samtímis. Þar eru sett skilyrði frá hálfu Atlantshafsbandalagsins.
    Það er það fyrsta að brautin verði 3000 m löng og samhliða akstursbraut. Það eru sem sagt tvær brautir. Það þýðir að það er gert ráð fyrir mjög miklum afgreiðsluhraða á umferðinni. Hún verður að beygja út af aðalbrautinni strax og lending eða flugtak hefur farið fram hvort sem það fer í loftið eða er að lenda.
    Í öðru lagi er talað um að flughlað verði nægilega rúmt til að leggja við flugvélum og aðstaða verði til viðgerða, þ.e. flugskýli. Varaflugvöllur með þeim útbúnaði hlýtur þá að standa reiðubúinn að taka við hvaða tegund flugvéla sem lenda til viðgerðar og þar eru þá mikil verkfæri og mikil og dýr tæki og líklega þá lítið notuð nema um styrjöld sé að ræða.
    Eldsneytisgeymsla, þriðja atriðið, verði til staðar með mögulegri tengingu við olíuhöfn og skýli fyrir tankbíla. Þetta gefur til kynna að flugvöllurinn
verður að vera staðsettur þar sem hægt er að byggja olíuhöfn og hafa geymslur og flutningatæki fyrir eldsneyti fyrir þessar flugvélar.
    Í fjórða lagi er lýst hvað þurfi að vera á vellinum til öryggis. Það er fullkominn flugturn, fullkomin flugleiðsögutæki, fullkomin slökkvistöð, bygging fyrir þjónustu við áhafnir og farþega og aðstaða til veðurþjónustu.
    Þetta er gríðarlega mikið mannvirki þannig að við skulum ekkert vera að ganga að því blindir að hér er verið að byggja upp aðstöðu sem á að nota meira og minna allan tímann. Ég endurtek að ég tala svona en er sammála þeirri forkönnun sem ætlað er að fara fram og ég er að sjálfsögðu að gefa í skyn að ég gæti vel hugsað mér að þessi flugvöllur og öll aðstaðan verði byggð þegar að forkönnuninni lokinni.
    Þetta segir mér allt annað en það bréf sem barst

utanrrh. frá Manfred Wörner, aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Ég les þýðinguna. Ég sé ekki ástæðu til að lesa af frumritinu, en þar segir: ,,Til að tryggja öryggi í flugrekstri og að flugmenn kynnist staðháttum vð flugvöllinn mundu herflugvélar stöku sinnum og í takmörkuðum mæli æfa þar aðflug og lendingu.``
    Þar með er þetta orðinn æfingavöllur og þar með hernaðarmannvirki og ég er því sammála. Við skulum ekkert vera að blekkja hvert annað um það. Auðvitað stendur til að vestræn ríki noti þetta mannvirki allan tímann. Mér þætti það einkennilegt ef þau ekki gerðu það. Hér er um sameinað bæði hernaðar- og, ef ég má orða það þannig, ,,sívil"mannvirki að ræða sem er til bóta meðan við þurfum að hafa þær varnir sem við höfum sameiginlega sem þjóð talið okkur nauðsynlegt öryggis okkar vegna en ekki í einhverri góðmennsku við erlenda aðila, hvorki Bandaríkin né aðra. Ég tek undir það, sem hefur komið hér fram, að það er hörmulegt til þess að vita að afbrigðilegt ástand í innanlandsmálum, eins og við eigum við að búa núna, þá á ég við samsetningu ríkisstjórnarinnar, skuli vera og verða til þess að flækja málin og gera þau erfiðari en ella þannig að varaflugvöllur, sem á að vera varaflugvöllur fyrir íslenska aðila, þ.e. Keflavík, skuli fara til annarra landa vegna þess að fámennur hópur, ég hef alltaf kallað þá kommúnista, Alþb., í ríkisstjórn og íslenskum stjórnmálum skuli hafa neitunarvald um þjóðmál, velferð og framtíð þjóðarinnar. Ég tel það af og frá. Það er afbrigðilegt ástand að svo fámennur hópur skuli geta komið í veg fyrir eðlilega þróun mála. Hvað sem samgrh. segir og hvernig sem hann reynir að dreifa huganum frá umræðuefninu, frá varaflugvelli kostuðum af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins, að tali um byggingu brúa eða vega víðs vegar um land og smástækkun á þeim flugvöllum sem fyrir eru, þá verður hann ekki síður sem ráðherra en almenningur á Íslandi að gera sér grein fyrir því að Ísland er allt öðruvísi staðsett í þeirri umferð sem er um heiminn, bæði herumferð og farþegaumferð, en það var fyrir nokkrum áratugum. Ísland er í þjóðbraut og íslenskt fólk verður að skilja að við verðum að starfa sem hlekkur í fjölskyldu þjóðanna og taka fullan þátt og fulla ábyrgð á tilveru ekki bara lands og þjóðar heldur fólksins í veröldinni.
    Það er leitt til þess að vita að enn þá einu sinni vantar hæstv. forsrh., en mér fannst hann tala á móti sínum huga. Mér fannst hann enn þá einu sinni tala á móti því sem hann er í raun og veru með. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. forsrh. með sína löngu reynslu í mismunandi ráðuneytum gerir sér fulla grein fyrir þörfinni á samstarfi við vestrænar þjóðir í þessum efnum eins og flestum öðrum. En hann segir, og ég skil hann vel, að varaflugvöllur verði ekki reistur nema allir sem að ríkisstjórn standi séu sammála. Þá kem ég aftur að því að það er hörmulegt að mjög fámennur hópur í íslenskum stjórnmálum skuli hafa neitunarvald í svo stóru og áríðandi framtíðarmáli fyrir íslenska þjóð.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa

þessi orð fleiri, en ég hvet hæstv. utanrrh. til að halda áfram á þeirri braut sem hann virðist hafa markað ef ég hef skilið hann rétt. Hann hefur minn stuðning þar.