Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Nú man ég ekki eftir því að þessi háttur hafi áður verið hafður á hér þegar ríkisstjórn er spurð um stefnumörkun eins og er í þessu máli, þegar fram hefur komið við umræðurnar að annar þeirra fagráðherra sem hefur tekið til máls, hæstv. samgrh., hefur í ræðu sinni fyrr í dag vísað því til úrskurðar forsrh. hvor hafi lögsögu í því máli sem hér er fjallað um og hver hafi úrskurðarvald um hvernig beri að túlka varaflugvallarmálið. Hæstv. forsrh. komst á hinn bóginn þannig að orði í sinni ræðu að það er erfitt að skilja það fyrir þá sem ekki eru framsóknarmenn hvað hann átti nákvæmlega við og af þeim sökum er nauðsynlegt fyrir okkur hina að spyrja hann pínulítið út úr um hvað fyrir honum hafi vakað. Nú hef ég fundið að hæstv. forseti er svolítið óþolinmóður og ekki alveg ánægður hvernig þetta hefur gengið, en ég bið hæstv. forseta að láta það ekki bitna á okkur í stjórnarandstöðunni þó honum hafi runnið í skap við ráðherra að hafa ekki mætt í þinginu og fer fram á sem ég sagði áðan og ítreka að ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir framhaldið til þess að við verðum ekki fyrir óþægilegum töfum að forseti geri nú allt sem í hans valdi stendur til að hæstv. forsrh. sýni sig.
    Ég veit að hæstv. forsrh. hefur líka gaman af því að láta leita að sér og vekja pínulitla athygli þannig að við gerum líka hæstv. forsrh. greiða með því að huga svolítið að honum núna um skeið.