Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er að verða pínulítið leiðinlegur svipur yfir þinghaldinu í vetur ( Forseti: Það segir þingmaðurinn alveg satt.) af þeim sökum að stjórnarandstaðan hefur hvað eftir annað, bæði í þessu máli og ýmsum málum öðrum, orðið að sýna bæði mikla þolinmæði og verið með mikla eftirgangsmuni til þess að einstakir ráðherrar fáist til þess að vera viðstaddir umræður sem varða mjög miklu. Nú vill svo til, hæstv. forseti, að ég er að gagnrýna þinghaldið í minni ræðu og mér finnst nauðsynlegt að hæstv. forseti sé inni í deildinni. Ég er að gagnrýna hvernig stofnað er til þessarar umræðu. Ég er að biðja um að forseti þingsins, 13. þm. Reykv., verði viðstaddur þessa ræðu. Það gengur auðvitað ekki að það sé ekki hægt að tala við ráðherra né forseta þingsins og þeir umgangast þessa stofnun eins og hún sé einhver annars flokks stofnun og að þeir menn sem bera ábyrgð á stjórn landsins og þinghaldi þurfi ekki að vera við. Þetta er algjörlega óþolandi. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að athuga hvort hæstv. forseti Sþ., sem nú hefur brugðið sér frá og fyrri varaforseti hefur tekið hans sæti, getur komið í salinn, en það skal tekið fram að venjan er sú að varaforseti hleypur í skarðið þegar aðalforseti þarf að bregða sér frá. En það hafa verið gerðar ráðstafanir til að athuga hvort hún getur komið í salinn.)
    Já, ég sé að forseti er kominn í þingið. Ég var að gagnrýna að málatilbúnaður skuli vera með þeim hætti í dag að boðaður er fundur eftir kvöldmat klukkan hálfníu. Það stóð þannig á síðdegis að þingmönnum gafst ekki kostur á að varpa fyrirspurnum til einstakra ráðherra vegna þess að þingfundir byrjuðu klukkan fimm. Það stendur þannig á hjá mér og öðrum þeim þingmönnum í Ed. sem eiga sæti í fjh.- og viðskn. að við höfum fallist á að hefja vinnu í fjh.- og viðskn. Ed. strax klukkan hálfníu í fyrramálið og við höfum fallist á að koma mjög til móts við ríkisstjórnina og stjórnarflokkana um hversu vinnubrögð skulu vera í þeirri nefnd. Þannig höfum við með öllum hætti reynt að greiða fyrir því að eðlileg vinnubrögð og raunar mjög góð vinnubrögð geti verið hér í þinginu sem eiga rætur sínar til þess að nú í vikulokin munu ýmsir þingmenn hverfa af landi og af þeim sökum er nauðsynlegt að mati þeirra sem þinginu stjórna að þinghald falli niður í næstu viku.
    Hæstv. forseti hefur sagt bæði í ræðustól og eins í viðræðum við þingmenn að það verði látið á það reyna og verði haldið uppi næturfundi þangað til lokið verði umræðum bæði um það mál sem nú er til umræðu utan dagskrár og einnig um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Það er á hinn bóginn morgunljóst að ýmsir þingmenn geta ekki tekið þátt í þessum umræðum öðruvísi en svo að hæstv. forsrh. sé viðstaddur. Það hefur þess vegna engin áhrif til flýtisauka að halda uppi einhverjum gerviumræðum á meðan hæstv. forsrh. er fjarverandi. Það eina sem stjórnarsinnar geta gert og þeir hljóta að gera ef þeir vilja á annað borð halda uppi eðlilegum vinnubrögðum í þinginu er að ná í hæstv. forsrh. til

þess að umræður geti verið með eðlilegum hætti.
    Ég sé ekki ástæðu til að vera að öðru leyti að tala frekar um þetta mál, vinnubrögðin og verkstjórnina. Ég hef tækifæri til að kveðja mér aftur hljóðs síðar við þessar umræður og þá er hægt að spyrja hæstv. forsrh. út úr þegar hann verður kominn, en það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort öðrum þingmönnum þyki við hæfi að þessum hæstv. ráðherra, sem talaði út og suður, sló úr og í í dag, haldist uppi að gefa ekki skýr og greið svör þegar stjórnarandstaðan sér ástæðu til að spyrja sérstaklega um varaflugvallarmálið. Það er komið nóg af loðnum svörum hjá þessari hæstv. ríkisstjórn. Og það sem er alvarlegast í þessu máli er að ýmsir hæstv. ráðherrar, eins og hæstv. samgrh., hafa talað um þetta sérstaka mál í styttingi í fjölmiðlum utan þingsins og eins í þinginu sjálfu.
    Ég tók eftir því að það var mat þingmanns Framsfl. sem hér talaði á undan mér, hv. 3. þm. Austurl., að meðan þessi ríkisstjórn sæti væri tómt mál að tala um að hagkvæmniathugun á varaflugvelli gæti orðið hér á landi sem kostuð yrði af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Hann vitnaði beinlínis til stjórnarsáttmálans þegar hann viðhafði þau ummæli. Þetta m.a. er óhjákvæmilegt að fá úrskurð um frá hæstv. forsrh. Ég ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að það er tilgangslaust að halda þessum umræðum áfram. Það er óhjákvæmilegt fyrir forseta þingsins að fresta umræðunni og reyna þannig að halda uppi einhverjum skikk á vinnubrögðum í þinginu.